Köping eða Sjöping

Í staðinn fyrir að nöldra yfir handboltanum í Svíþjóð eða öðru klúðri þá ætla ég að taka fyrir annað mál sem er framburður á erlendum borgum og öðrum heitum. Þær eru allnokkrar borgirnar í Svíþjóð sem kennd eru við köping, eins og t.d. Söderköping, Nyköping, Norrköping, Linköping og ekki síst Jönköping þar sem við Íslendingar höfum höfum farið flatt á handboltavellinum. Af einhverjum ástæðum þykir fjölmiðafólki hér á landi mjög fínt að stæla framburð innfæddra á þessum staðarheitum og segja t.d. Linsjöping eða jafnvel Linhjöping og eltast þannig við þá fötlun Svía að geta ekki borið fram ká-ið á þessum kaupstöðum. Auðvitað er miklu nærtækara fyrir okkur að segja bara Linköping samkvæmt rithætti þegar við tölum saman hér innanlands. Hinsvegar er annað mál ef við viljum gera okkur skiljanleg á sænskri grund því þá er auðvitað sjálfsagt að notast við þann framburð sem tíðkast á staðnum.

Svipað má segja um önnur nöfn í útlöndum. Nú má ekki lengur segja Peking eins og alltaf hefur verið gert - heldur Beidsjíng eða eitthvað álíka og meira að segja búið að breyta stafsetningunni í Beijíng. Þetta kallar maður að beygja sig fyrir Kínverjum. Á maður kannski líka að segja Beidsjíng-önd?

Þegar Titanic-æðið gekk hér yfir fyrir nokkrum árum var farið að bera fram nafn óhappafleytunnar sem TætAnikk með sérstakri áherslu á a-ið eins og gert er í Ameríku. Bandaríska hljómsveitin REM hét allt í einu aríem, eftir að Bylgjan hafði uppgötvað hljómsveitina 20 árum eftir að hún kom fram. Fram að því hafði alltaf bara verið sagt rem, sem dugar okkur fínt.

Svo má líka nefna söngkonuna Eivöru Pálsdóttur hina Færeysku. Alltaf skal hún kölluð Ævör hér á landi í staðinn fyrir Eivör sem er réttari Íslenskur framburður. Ævör þýðir ekkert á íslensku.

Þegar kemur að því að ég verð heimsfrægur verð ég sjálfsagt kallaður Eimel í Bandaríkjunum eða kannski Ímeil og ekkert við því að gera. Þeir hafa sinn framburð og mega það fyrir mér. Hinsvegar virðast Svíar kunna að bera fram nafnið mitt ef marka má sjónvarpsþættina um nafna minn í Kattholti. Það er kannski helst að faðir hans hafi teygt heldur mikið úr sérhljóðunum þegar honum hitnaði í hamsi.

Söderköping2007

Rigningarsumar í Söderköping árið 2007. Myndin er tekinn við Gautakanalinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Emilsson

Emil, skemmtilega skrif, eins og alltaf. Kannske ættirðu að halda áfram á þessari braut. T.d. USA er kallað BNA sem stendur sennilega fyrir Bandaríki Norður Ameriku. Bandaríkin eru United States of America, USA. Ekkert minnst a Norður Ameriku. Fyrir Bandaríkjamönnum er America America. Semsagt að nefna lönd og borgir sínum réttu nöfnum . Svo ma lengi telja td Sile! Kveðjur

Björn Emilsson, 26.1.2011 kl. 19:02

2 Smámynd: Björn Emilsson

Vil bæta við ónefninu Kaupmannahöfn. Borgin heitir a dönsku Köbenhavn og á ´Laxness´ islensku Kaupinhöfn. Miklu þjálla nafn. Svo má lengi telja, London td uppnefnd Lundúnir!!! Hafa ekki fundið neitt uppnefni á Paris, Róm , Berlin, Oslo og fleiri borgir. Eða þá Nýju Jórvík!!

Björn Emilsson, 26.1.2011 kl. 19:09

3 identicon

"Emííííl" udtalað af hans far á sænsku með kommu yfir iinu og allt er næstum ok á íslensku  en öllu hallærislegra er að heyra styttinguna hjá Íslendingum á borginni minni "Köben" bölvað ónefni finst mér frekar segja eins og gert var i den fara til "hafnar"  var í "höfn" um tíma Annars er engin íslenskun á því nafni eftir sem svona het hun ju fyrir lööngu siðan og hér er svo skýring á íslenska nafni þeirrar borgar Björn:    Københavns navn kan spores tilbage til middelalderen hvor byen på gammeldansk hed Køpmannæhafn, et navn der skulle betyde købmændendes havn, et udtryk for den betydning købmændene havde for byen på dette tidspunkt.[1]

nolli (IP-tala skráð) 26.1.2011 kl. 19:42

4 Smámynd: Kristján Hilmarsson

 Já þessu má velta fyrir sér á alla kanta og allir hafa svo rétt fyrir sér í lokin, þó ósammála séu.

En það er gaman að rekast á einn sem nennir að "pæla" í þessu sama og maður veltir stundum fyrir sér, þó kannski við sjáum þetta frá mismunandu sjónarhorni Emil !

Manni fannst allt sem frétta og blaðamenn létu útúr sér varðandi staðarheiti erlendis, vera svo sjálfsagt og rétt meðan maður bjó þarna, en svo fór maður að sjá þetta í öðrum vinkli við að flytjast erlendis ( til Noregs fy á gamla landinu fyrir 25 árum).

En eftir að hingað var komið og sjóndeildarhringurinn víkkaði, fór maður að spyrja sjálfan sig, hversvegna London heitir Lundúnir í fréttatímum útv.og sjónv. á meðan New York var borið fram eins og innfæddir þar gera,"Njú Jork"  ekki vegna þess að það vanti alíslenskað orð yfir "the big apple" þ.e. Nýja Jórvík ??

Ekki batnar það varðandi Noreg og staðarheiti hér, en þar kemur sjálfsagt til að flestir eldri bæjir og héruð hér voru nefnd í handritunum með forníslenskum rithætti, hér kallað "gammal norsk" en svo sér maður vægast sagt frjálslegar "íslenskanir" á öðrum staðarnöfnum.

Svo hvort það eigi að bera fram erlend staðar/bæjarnöfn á íslenskan hátt, eða að hætti innfæddra, og/eða reyna að "íslenska" staðarheitið (t.d. Jónskaupvangur eða eitthv. álíka fyrir Jonköping) er ekki gott að segja, mér vitanlega finnast engar reglur um þessi mál, þannig að hver og einn gerir þetta að eigin geðþótta og svo verður þetta smámsaman að hefð sbr. New York og London.

Ég er klár á því og finnst aðdáunarvert, að til varnar íslenskunni, þessu gamla (en samt þróaða) máli sem svo fáir tala á heimsvísu, skuli vera til nefnd sem reynir að íslenska öll nýyrði sem koma utanlands frá, mikilvægt í baráttunni fyrir lífi tungunnar, en held ekki að það sé það sem liggur að baki þessari áráttu að íslenska erlend staðarnöfn og/eða bera þau fram á islenskann hátt, nei mig rennir grun í hér sé að baki sú "fötlun" okkar íslendinga og héragangur gagnvart erlendum tungumálum (ástæðulaust meina nú ég) sem kom svo vel fram í textagerð við erlenda slagara hér á árum áður, allt varð að íslenskast (söngvararnir gátu nefnilega ekki borið fram ensku,dönsku,norsku eða sænsku textana) og svo var öllu snúið upp á sjómennsku af því talið var að áheyrendur myndu ekki skilja innihaldið í þeim ef það væri þýtt orðrétt.

Svo í staðinn fyrir að taka undir það sem þú kallar "fötlun" svía, við að bera fram k, þá vil ég aðeins benda þér á eit, kæri Emil !, að það er svona sem svíar bera fram k, og það er þeirra "normal" á meðan bæði við íslendingar og þessvegna kínverjar og allar aðrar þjóðir hafa sinn normal á hvernig þeir bera fram sína sam og sérhljóða, og það er ekki einusinni lýðræði í þessu, sem betur fer, annars yrðum við að bera allt fram á kínversku.

MBKV að utan en með hugann heima

KH

Ps býrð þú kannski í “Smokey Bay” við hérna erum nefnilega að spá í beygja okkur ekki fyrir þessu íslenska frekjunafni Reykjavík lengur.

 

Og eitt en hljómsveitn REM og hvernig var þá Hljómsveitarnafnið “Dire Strait” og nafn gítarleikarans/söngvarans Mark Knopfler borið fram fyrir tíma bylgjunnar ???

 

KH

Kristján Hilmarsson, 26.1.2011 kl. 19:47

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hér eru strax komin allskonar sjónarmið og mörg ágæt. Ég er þó aðallega að mæla með dálítilli íhaldsemi og sveitamennsku í framburði á erlendum nöfnum. Ég veit reyndar vel að Svíar kunna kunna að bera fram -hljóðið en fannst skemmtilegra að saka þá um dálitla fötlun (vona að enginn taki stríðni strákskrattans illa).

Í tilfelli hljómsveitarinnar Dire Straits þá eru þetta orð sem eiga sér ekki systurorð í íslensku svo ég viti og því ekki hægt að heimfæra íslenskan framburð þar yfir. Allt annað með orðið köping sem er það sama og kaup á íslensku. Í því tilfelli finnst mér óþarfi að notast við sænska framburðinn. Það sama á við um hana Eivöru sem er sama nafnið og Eyvör á íslensku. Þess vegna er sjálfsagt að notast við framburð útfrá rithætti.

Hinsvegar getum við varla sagt nev-jork í stað fyrir nú-jork því að nev vísar ekki í neitt íslenskt orð. Nýja-Jórvík er allt í lagi í sparimáli enda er Jórvík íslenskt heiti á York-héraði. Venjan er þó að segja nú-jork og þarf ekki að breyta því.
Skemmtilegasta íslenska heitið á Norrænum stað er Árósar sem Danir kalla Århus eða Aarhus. (Árhús).
Svo tölum við alltaf um Bandaríkin þegar átt er við USA, og Ameríku þegar átt er við heimsálfuna.

Útlendingar bera fram Reykjavíkur oftast með sínum hætti, t.d. riggjavik en auðvitað mega menn alveg þýða nafnið. Það eru annars ekki mörg íslensk staðarheiti sem útlendingar ráða almennilega við.

Emil Hannes Valgeirsson, 26.1.2011 kl. 21:00

6 Smámynd: Kristján Hilmarsson

 Rétt hjá þér Emil ! það er ekki á allra (útlendinga) færi að bera fram íslensk staðarnöfn, eða íslensku yfirhöfuð ,allavega ekki "Eyjafjallajökull" sællar minningar, en ef við snúum dæminu við, þá er þetta einmitt það sem gerir svo íslendingum svoldið erfitt fyrir með ýmis erlend tungumál, þó margir haldi annað og að þeir séu reiprennandi talandi á "amerísku".

En að sama skapi rangt hjá þér að nota svona rökfærslu til að verja óreiðuna sem ríkir í þessum málum á ljósvakanum íslenska.:"Í tilfelli hljómsveitarinnar Dire Straits þá eru þetta orð sem eiga sér ekki systurorð í íslensku svo ég viti og því ekki hægt að heimfæra íslenskan framburð þar yfir". ég meina ! á þá REM íslenskt systurorð ??þú notar eiginlega sömu rökleysu varðandi New York osfrv. meðan þetta er eiginlega allt saman "villta vestrið" þ.e. menn gera þetta eftir geðþótta, eða í eldri tilfellum gerðu á sínum tíma og þá skapaðist "hefð" eða "venja" eins og þú notar, og eins og með allt sem sagt er nógu oft þá verður það hið eina sanna.

Og án þess að fara að eyða öllu kvöldinu í að lista upp hvaða orð og staðarheiti íslenskt fjölmiðlafólk velur að íslenska og hvað ekki, þá eru sum dæmin beint fram hjákátleg eitt er "Svartfjallaland" en á hinn bóginn opnaði það fyrir möguleikanum til að segja "Svartfellingar" í stað Monte Negrobúa, að ekki sé talað um “Montenegra” eða hvað ?

En svo getur framburðar/málahroki, eða hvað nú þetta er, orðið til leiðinda líka, þekki dæmi þar sem ungir drengir íslenskir, fæddir og uppaldir hér í Noregi og þar með var norskan þeirra aðalmál, vegna skóla, leikfélaga ofl. þrátt fyrir að heima væri reynt að halda íslenskunni við, drengirnir (uppkomnir mætamenn í dag) komu gjarnan á hverju sumri til Íslands og gátu þá notað sína íslenskukunnáttu og jafnvel bætt við hana, séstaklega litu þeir upp til eins frænda síns og hlökkuðu til að hitta hann, þar til allt í einu að foreldrarnir tóku eftir að áhuginn á frændanum fór að dvína eitthvað hjá þeim.

það kom í ljós að í stað þess að hrósa þeim fyrir íslenskukunnáttuna verandi búandi svona í öðru landi, þá rexaði og pexaði hann allann tímann og gekk jafnvel svo langt að heimta að þeir bæru fram (og taktu nú eftir) staðarheiti heimabæjar síns í Noregi, með íslenskum hreim, sjálfur gat hann ekki sagt nafnið á réttum norskum hreim, var kannski þessvegna ? 

Piltarnir misstu álitið á þessu stóra goði sínu og það sem verra var, að þetta var gengið svo langt og þeir leiðir á pexinu, að þeir steinhættu að halda við og nota íslenskuna, svo þó þetta sé áhugavert efni og margslungið í allri óreiðunni, þá ber að fara gætilega í fullyrðingunum um hvað er rétt og hvað rangt með tilliti til þeirra sem eru reyna gera sem best þeir geta, en það er nú allt önnur ella eiginlega.

Vildi bara færa "fókusinn" aðeins að örlítið meiri víðsýni varðandi þetta með hvað er "normalt" hjá hverri þjóð fyrir sig, hef svosem hitt norðmenn sem halda 17maí sé haldinn hátíðlegur um allann heim, en þeir eru hlutfallslega færri en íslendingar sem halda að "allir" haldi upp á þrettándann með flugeldum og brennum.

Takk fyrir að fá kíkja við hjá Emil, sé ég verð að gera það oftar, þú tekur á ýmsu sem flestir ekki nenna að fjalla um.

Kv KH

Kristján Hilmarsson, 26.1.2011 kl. 22:40

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er auðvitað ekkert rétt og rangt í þessu Kristján. Ég er ekki að halda því fram og það er ekki auðvelt að koma með skiljanleg rök. Þetta byggist meira á tilfinningu og vissulega hefð en kannski líka smá sérvisku. Svartfjallaland finnst mér flott íslenskt heiti á þessu landi en það er reyndar undantekning að heiti landa séu þýdd yfir á okkar mál.

Emil Hannes Valgeirsson, 26.1.2011 kl. 23:08

8 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Fróðlegar vangaveltur. Afhverju ætli REM hafi ekki verið kallað "err-e-emm"? Annars nota ég sjálfur enn þá gamla góða REM. Þegar ég bjó í Danmörku á sínum tíma þá lét ég Danina kalla mig Svend, þar sem mér þótti Svæn frekar hallærislegt, þannig að það er að mörgu að huga í þessum efnum og sumt er bara vegna sérvisku okkar, eins og Emil nefnir ;)

Sveinn Atli Gunnarsson, 27.1.2011 kl. 00:15

9 Smámynd: Kristján Hilmarsson

 Nei það er einmitt það sem er, ekkert rétt og ekkert rangt heldur, kannski það sem gerir þetta efni svo athyglisvert og skemmtilegt að pæla í, eitt af fáu sem eftir stendur "opið" og ekki reglusett í "hel"

Og þar með er þetta undirlagt geðþótta, sérvisku, já kannski ?, stundum vegna vanhæfni t.d. fréttafólks við að úttala erlend nöfn/staðarheiti á "réttann" hátt og svo endar þetta upp í hefðum og venjum.

En Emil ! er þetta nú allskostar rétt hjá þér "en það er reyndar undantekning að heiti landa séu þýdd yfir á okkar mál."

Nánast öll Evrópsk landsheiti eru þýdd á íslensku eða íslenskuð á einn eða annann hátt, byrjaðu bara nyrst og svo niður/suður og berðu íslenska nafnið saman við nafnið sem innfæddir kalla sitt land, ekki hvernig englendingar eða skandinavar gera það, heldur hvernig þau heita á "orginal" málinu, dæmi: Helvetia, Suomi, Magyar, Belarus, ofl ofl. og jú eiginlega finnst mér líka "Svartfjallaland" flott, en fyrstu viðbrögðin voru að þetta væri "hjákátlegt" sama var þegar ég heyrði íslenska nafnið á Cabo Verde/Cap Vert í fyrsta sinn, en svo kemur vaninn og hefðin inn og þetta ekki bara venst, heldur sér maður kostina eins og t.d. "Grænhöfðar" hljómar betur en "Kappverdingar"  er þó minna hrifinn af því þegar íbúar Estonia eru kallaðir "eistar" hef reyndar einnig heyrt "eistlendingar" og verð að segja að ég kann betur við það.

Langar að enda þetta núna á því að gefa ykkur smágátu eða pæling ef vill, hvaðan kom orðið "Malakoff" inn í íslenskuna ?? er með eigin, óstaðfesta kenningu, en bíð aðeins með hana.

Takk aftur fyrir að fá að "pæla" hérna Emil.

Kv. KH

Kristján Hilmarsson, 27.1.2011 kl. 17:22

10 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég geri að sjálfögðu greinarmun á þýðingu á landaheitum og því þegar heiti landa eru staðfærð yfir á íslensku, t.d. er Spánn og Ítalía ekki þýðing.

Og: „Malakoff is a suburban commune in the Hauts-de-Seine department southwest of Paris, France. It is located 5 km (3.1 mi) from the centre of the city.“ (Wikipedia)

Emil Hannes Valgeirsson, 27.1.2011 kl. 20:02

11 Smámynd: Kristján Hilmarsson

 Úps!!! var búinn að steingleyma spurningunni, en mundi svo aftur (aldurin  íþyngir stundum) já einmitt, en fann ekkert sem minnti á salami (líkis) pylsurnar sem bera nafnið á Íslandi (eða gerðu, kannski ekki til lengur) en getur verið að franskir fiskimenn hafi haft eitthvað þessu líkt með sér í gamladaga og þaðan nafnið.

Aftur fann ég djúpsteikta ostapinna með þessu nafni á svissneskum matasíðum svo....?? en á meðan allt er óvisst, hendi ég að gamni fram enn einni kenningu, að þetta sé hreinlega "íslenskuð" útgáfa av sænsk/finnska orðinu "salamikorv" (korv er pylsa á sænsku/finnsku, sem er ekkert erfiðara að ýminda sér en t.d. þegar Dodge Weapon Carrier var íslenskaður í Dodge "Víbon"

MBKV

KH

Kristján Hilmarsson, 30.1.2011 kl. 20:09

12 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er sjálfsagt að leyfa þér að pæla hérna á síðunni.

En varðandi pylsumál þá hefur Vísindavefurinn einnig velt fyrir sér Malakoff heitinu. Í Þýskalandi er þetta til sem nafn á rússneskri pylsu en að auki virðist nafnið tengjast Rússneska virkinu Malakow sem kom við sögu í Krímstríðinu. Sagt er frá tékkneskum greifa og matgæðingi sem var aðlaður í Frakklandi eftir framgöngu sína í stríðinu og fékk þá titilinn Duc De Malakoff. Einnig er talað um steiktan ost sem sigurvegararnir gæddu sér á í umsátrinu um virkið og einnig er þeir héldu upp á sigurinn er heim var komið. Sjá nánar hér:

http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=55452

En hvernig Malakoff-pylsan nam land á Íslandi veit ég ekki en ég hefði annars haldið að það tengdist okkar hálfdönsku matarmenningu sem hér var við lýði. En hvernig er það, er ekki boðið upp á malakoff í Norge?

Emil Hannes Valgeirsson, 30.1.2011 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband