Hitamósaík fyrir Reykjavík árin 1971-2010

Ég hef stundum dundað mér að útbúa ýmsar litríkar myndir upp úr veðurupplýsingum og þá yfirleitt útfrá mínum eigin veðurskráningum. Að þessu sinni eru hinsvegar unnið upp úr gallhörðum gögnum af sjálfum Veðurstofuvefnum þar sem finna má ýmsa veðurtölfræði aftur í tímann.

Á myndinni sem hér fylgir hef ég sett upp alla mánuði frá 1971 til 2010 í eina mynd og í stað talna fær hver mánuður sinn lit eftir hitafari samkvæmt hitaskalanum sem fylgir.

Hitamósaík 1971-2010

Ýmislegt forvitnilegt kemur í ljós þegar hitinn er skoðaður á þennan hátt. Bláu frostmánuðunum fækkar og rauðu 10 stiga sumarmánuðunum fjölgar. Breytingin er þó helst sýnileg á árunum eftir aldamót.

Á fyrri hluta tímabilsins var ekki hægt að treysta á að sumarmánuðirnir júlí og ágúst næðu 10 stiga meðalhita og jafnvel ekki nokkur mánuður sumarsins, en eftir 1994 hefur það gerst undantekningalaust. Flest síðustu árin hefur svo júní náð að komast í 10 stiga flokkinn og jafnvel september. Síðasta sumar gerði það best allra, með alla fjóra sumarmánuðina í 10 stigum.

Af vetrarmánuðunum sést þarna vel hversu mikil óregla er í því hvenær kaldast er á vetrum. Þó er kannski einhver regla. Árin 1975 til 1984 voru allir janúarmánuðir og flestir desembermánuðir undir frostmarki, á meðan febrúar var oftast yfir frostmarki. Það er því dálítið sérstakt tímabilið 1996-2002 þegar allir febrúarmánuðir voru undir frostmarki, en hinir yfirleitt ekki.

Frostmánaðalaus ár hafa komið af og til allt tímabilið, en nú er orðið nokkuð síðan mánaðarmeðalhiti hefur verið undir frostmarki í Reykjavík. Gerðist síðast með herkjum janúar og febrúar 2008.

Svo má líka nefna að ef myndin hefði náð lengra aftur í tímann hefði verið hægt að finna allnokkur ár frá hlýja tímabilinu á síðustu öld sem jafnast á við þau síðustu. T.d. voru fjórir 10 stiga sumarmánuðir árin 1939, 1941 og 1958. Síðasti áratugur eru þó mjög óvenjulegur enda hafa hlýindin verið samfelld og nokkurn vegin án verulegra truflana, enda óumdeilanlega hlýjasti áratugurinn frá upphafi mælinga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mjög gaman að þessu og áberandi hvað sumrin hafa hlýnað frá því um aldamót enda mátti það svo sannarlega eftir langvarandi sumarkulda 

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.2.2011 kl. 22:57

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Ah, ég dýrka svona fallegar myndrænar framsetningar á gögnum. Mikið höfum við upplifað notaleg sumur og milda vetur síðustu ár.

- Sævar

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 3.2.2011 kl. 20:29

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þetta er mjög myndræn framsetning hjá þér Emil, takk fyrir.

Sveinn Atli Gunnarsson, 3.2.2011 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband