Tímaflakkið - fyrsti hluti

Þetta var þannig að ég var í hádegismat og hafði ákveðið að fá mér smá göngutúr niður Nóatúnið. Það er stundum ágætt að komast aðeins út í hádeginu og fá sér frískt loft. Þegar ég kom að gatnamótunum við Laugaveg hafði ég ekki alveg þolinmæði í að bíða eftir græna karlinum og hljóp yfir götuna og var með allan hugann við bílaumferðina sem er nokkuð hröð þarna. Ég tók hins vegar ekki eftir gamla manninum á rafskutlunni handan götunnar og hreinlega hljóp á hann og kastaðist einhvern veginn áfram. Ég man þó ekki eftir lendingunni eða hvort ég hafi yfirleitt lent, ég man bara eftir mér í loftinu og svo ekki meir þar til ég ligg þarna bara allt í einu á gangstéttinni.

Ég fann strax að það var allt í lagi með mig eftir þessa byltu, engin eymsli eða neitt svoleiðis. Ég skynjaði hinsvegar strax að allt umhverfið var eitthvað öðruvísi en það átti að vera, dregið hafði líka fyrir sólina og heldur svalara var í lofti. Karlinn á rafskutlunni var líka alveg horfinn. Ég stóð upp nokkuð snögglega enda vildi ég ekki láta sjá mig þarna liggjandi. Þó tók ég eftir að einhverjir ökumenn litu á mig en þeir sáu greinilega enga ástæðu til að skipta sér frekar að mér. Sem var ágætt.

En hvað var þetta? Hvað var að gerast? Það sem við mér blasti var sami staður nema að allt leit núna út eins og það gerði fyrir nokkrum áratugum. Í fyrsta lagi voru það bílarnir. Þarna sá ég til dæmis strax tvær Fólkswagen-bjöllur, Volvóbíl árgerð nítjánhundruðsjötíu og eitthvað, sama má segja um Bensinn og Skódann og alla hina. Húsin í kring voru líka eins og ég man eftir þeim fyrir löngu síðan. Víðishúsið blasti við þarna hinumegin við götuna í upprunalegu útliti áður en það var klætt að utan. Svipað má segja um fleiri hús eins og verslunarhúsið kennt við Nóatún á meðan nýlegri hús voru hvergi til staðar. Sá sem ekki hefur lent í tímaflakki á örugglega erfitt með að setja sig í þau spor sem ég var þarna í en það var ekki um að villast að ég hafði horfið aftur í tímann og stóð þarna eins og illa gerður hlutur í röngum nútíma. Sjálfur hafði ég ekkert yngst við þetta flakk, var í sömu fötunum og með sömu hlutina í vösunum. Þetta var greinilega enginn draumur.

Ég leit á úrið og sá að klukkan var rúmlega hálf eitt sem var í samræmi við það sem hún ætti að vera. Ég tékkaði líka á gemsanum sem var enn í gangi en þó gagnslaus og ekki í neinu sambandi við umheiminn. Þessi hádegisgöngutúr ætlaði greinilega að verða dálítið öðruvísi en til stóð og ómögulegt að vita hvernig hann ætti eftir að enda. Í stað þess að ganga áfram niður Nóatúnið ákvað ég að ganga áleiðis að miðbænum, kannski til að sjá hvort þetta sama ástand væri allstaðar en ekki síst þurfti ég að finna einhverja skýringu á þessu og komast að því á hvaða ári ég væri staddur. Á móts við hús Fíladelfíusafnaðarins stöðvaði strætisvagn nr 2, Grandi-Vogar, í sínum gamla mosagrænleita lit. Út úr vagninum steig ung kona með barn og litla barnakerru. Ég ákvað að heilsa konunni sem leit hikandi á mig en heilsaði að lokum á móti. Þarna fékk ég staðfestingu á því að ég var staddur þarna í raun og veru en ekki bara ósýnilegur villuráfandi draugur.

Handan götunnar sá ég að Mjólkurstöðin var enn í fullum gangi í húsunum þar sem nú er Þjóðskjalasafnið. Annað fannst mér þó áhugaverðara en það var Tómstundahúsið sem var uppáhaldsbúðin mín hér áður fyrr. Ég skutlaði mér yfir götuna til að skoða dýrðina aðeins nánar og að þessu sinni komst ég klakklaust yfir. Engin óvænt rafskutla til að skutla mér í jörðina. Tómstundahúsið var nákvæmlega eins og það var í minningunni en þar keypti maður plastmódel í stórum stíl hér áður fyrr. Ég gekk aðeins um í búðinni leit á kunnuglegt úrvalið. Stór sögufræg seglskip eins og HMS Victory Nelsons flotaforingja, og Gullna Hindin hans Francis Drake. Hvortveggja hafði ég límt saman málað og þrætt á allskonar bönd á mínum yngri árum. Þarna voru líka flugvélar eins og Spitfire, Messerschmith, Junkers JU88 og margar fleiri.
„Get ég nokkuð aðstoðað?“ spurði afgreiðslumaður kurteislega.
„Nei nei“ sagði ég. „Ég er bara aðeins að skoða“
Auðvitað hefði ég getað spurt hann út í hvaða ár væri en fannst það ekki viðeigandi. Af verðlaginu að dæma voru gömlu krónurnar enn í gangi. Plastmódelpakki fannst mér kosta eitthvað álíka og hann gæti kostað í dag, en annars er langt síðan ég hef verslað svona.
Ég þakkaði fyrir mig og yfirgaf búðina dálítið hugsi. Átti myntbreytingin sér ekki stað um 1980? Í upphafi þess árs eða var það kannski í ársbyrjun 1981? Ég mundi það ekki alveg. Allavega var ég staddur í Reykjavík fyrir myntbreytingu. Sennilega þó ekki löngu fyrr. Sennilega einhverntíma á árunum 1978-1980. En nú blasti Hlemmur við mér, þar gæti ég vonandi fengið einhver svör.

- - - - -
Annar hluti af þremur mun birtast hér von bráðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband