Tímaflakkið - 3. hluti

Í tveimur síðustu bloggfærslu hef ég sagt dálitla sögu um tímaflakk og nú er komið að lokahlutanum. Best er auðvitað lesa fyrst 1. hluta og svo 2. hluta en annars skildi ég við í frásögninni síðast þar sem ég var staddur á Hlemmi eftir að hafa flakkað alveg óvart aftur til ársins 1980. Í ráðleysi mínu í þessari stöðu datt mér í hug hvort ég gæti haft uppi á sjálfum mér, en þetta sumar fyrir 31 ári var ég sendisveinn hjá Sláturfélagi Suðurlands. Ég var búinn að finna út að dagurinn sem ég var staddur á væri 18. ágúst 1980 og með smá þolinmæði ætti ég að hitta sjálfan mig 14 ára gamlan með sendlatösku þarna fyrir utan Sláturfélagið, Lindargötumegin. Til að fara þangað hefði verið styttra að ganga Hverfisgötuna en ég ákvað frekar að fara Laugaveginn enda meira líf þar og meira að skoða.

Ég var dálítið farinn að venjast öllum þessum gömlu bílum á götunum og einnig yfirbragði fólksins. Bílarnir voru með léttara yfirbragði og ekki eins straumlínulaga og þeir eru í dag. Þjóðin var ekki komin með jeppadelluna en það mátti samt sjá stöku Bronco-jeppa og ekta Land-Rovera í klassíska stílnum. Fólkið sem ég mætti hafði enga hugmynd að ég tilheyrði næstu öld og ég skar mig ekkert sérstaklega úr fjöldanum. Það voru ekki margir erlendir ferðamenn þarna á Laugaveginum allavega ekki miðað við í dag þar sem annar hver maður talar erlendum tungum.

Allnokkur hús eru horfin í dag og önnur komin í staðinn. Stjörnbíó er þarna á sínum stað en svæðið þar í kring er orðið töluvert miðbæjarlegra en kannski ekki endilega skemmtilegra. Flestar verslanirnar sem ég gekk fram hjá eru nú horfnar, nema auðvitað Vinnufatabúðin. Þarna mátti sjá tískuverslanirnar Faco, Karnabæ, Adam og líka Evu og svo margar aðrar fleiri. Ég fór ekki lengra niður Laugaveginn en að Frakkastígnum og hélt áleiðis þangað niðureftir. Þarna var verslunin Framtíðin en hún hefur reyndar lengi tilheyrt fortíðinni. Það hefði getað verið gaman að kíkja inn í Lúllabúð við Hverfisgötu en þangað var ég stundum sendur til að kaupa eitt og annað fyrir skrifstofufólk Sláturfélagsins. En nú var ég kominn að þessu gamalgróna kjötvinnslufyrirtæki og tók mér stöðu við inngang portsins við Lindargötuna þar sem hvítu Sláturfélagsbílarnir óku inn og út. Þarna gerði ég mér vonir um að hitta sjálfan mig ef biði þolinmóður.

Ég hafði nóg um að hugsa á meðan á biðinni stóð. Hvað myndi gerast þegar upp kemst frá hvaða tíma ég er? Ég veit ekki til að nokkur hafi flakkað svona aftur um tímann og ég var hugsi yfir því, að ef ég hefði farið í svona flakk og gefið mig fram opinberlega þá hefði það örugglega vakið heilmikla athygli. Samt hefur aldrei verið talað um að það hafi gerst. Ég man heldur ekki eftir að ég hafi hitt einhvern á sínum tíma sem gæti verið ég sjálfur í eldri útgáfu en samt beið ég þarna eftir að hitta sjálfan mig 31 ári yngri. Um þetta hugsaði ég fram og aftur þar til allt í einu að ég kannast við strákling með sendlatösku sem kemur þarna á móti. Það var ekki um að villast, þetta var ég sjálfur sem nálgaðist.

Auðvitað er enginn hefð fyrir því hvernig maður ber sig að við svona aðstæður.
„Fyrirgefðu“ sagði ég og vakti þannig athygli mína á mér. „Geturðu nokkuð sagt mér hvað klukkan er?“
Ég leit á mig og mér fannst ég greina smá tortryggni í svipnum á mér áður en ég leit á úrið og sagði: „Hún er korter í tvö“.
Þarna sá ég að ég var kominn með bláa úrið sem ég keypti þetta sumar en týndi allnokkrum árum síðar á skemmtistaðnum Broadway.
Ég þakkaði fyrir og samskiptin urðu ekki meiri þarna. Þetta dugði í bili sem staðfesting á því að nú væru til tvær útgáfur af sjálfum mér á mismunandi aldri sem hlýtur að teljast nokkuð sérstakt.

Áfram og meira þurfti að hugsa. Hugsa og hugsa. Ég var kominn niður að Skúlagötunni en þar hefur umhverfið auðvitað gjörbreyst síðan 1980. Nema kannski Esjan sem var þarna á sínum stað. Snjóskaflarnir voru þó stærri og greinilegt að þeir voru ekki að fara að bráðna þetta sumar. En þá hringdi síminn. Já það var ekki um að villast – gemsinn í vasanum var að hringja og það árið 1980!
„Halló“ segi ég.
„Er þetta Emil?“ spyr ókunnug karlmannsrödd.
„Já. Það er hann.“
„Heyrðu … Eins og þú hefur örugglega tekið eftir, þá eru hlutirnir ekki alveg eins og þeir eiga að vera“
„Já, það er alveg greinilegt“ segi ég, en spyr svo „Hver ert þú?“
„Látum það liggja á milli hluta, en ég hef eftirlit með því að hlutirnir gangi rétt fyrir sig og það verður að leiðrétta þetta í hvelli.“
„Hvað meinarðu með eftirlit?“
„Það er heildareftirlitið, við tókum eftir þessu þegar þú hittir sjálfan þig en það á ekki að vera hægt. Eftir stutta stund munum við kippa þér aftur í þinn rétta tíma. Passaðu þig bara á því hvar þú ert“
„Passa mig á því hvar ég er hvað?“

Ég fékk ekki svar við þessu síðasta því þessi fulltrúi heildareftirlitsins eða hvað það nú var, hafði slitið samtalinu. Ég áttaði mig þó á því að ef ætti að kippa mér aftur í nútímann þá skipti máli hvar ég væri staddur enda ekki gott að fá heilt háhýsi ofan á sig við tímaleiðréttinguna. Ég flýtti mér frá Skúlagötunni og hljóp í átt að gamla húsinu sem einu sinni var Franski spítalinn en er tónlistarskóli núna. Þar gerðist það skyndilega og á svipstundu að tilveran breyttist á ný. Í stað Sláturfélagshúsanna voru stóru blokkirnar komnar og bílarnir voru ekki lengur gamlir. Ég var kominn til baka eins og ekkert hafði í skorist.

Eftir að hafa áttað mig, ákvað ég að hringja í vinnuna og sagðist ætla að taka mér frí það sem eftir væri dagsins. Meira gerðist ekki í þessu máli af minni hálfu og ég hef ekki orðið var við eftirköst af þessu óvænta tímaflakki mínu. Þó sá ég í einu dagblaðana daginn eftir, að eldri maður sagði frá undarlegu atviki sem hafði hent hann við Nóatúnið þegar einhver hafi beinlínis hlaupið hann um koll þar sem hann var á ferð á rafskutlu sinni og svo hefði maðurinn bara horfið á staðnum eins og jörðin hefði gleypt hann. Engin vitni að þessu atviki höfðu gefið sig fram, síðast þegar ég vissi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Skemmtileg frásögn Emil - ég ákvað að geyma lesturinn þar til allir hlutarnir væru komnir - sé ekki eftir því.

Þú mátt huga að tölunni 21 í textanum...mig grunar að það sé eitthvað bogið við hana.

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.8.2011 kl. 14:45

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk, Svatli. Rétt athugað, smá árafjöldaflakk í útreikningum.

Emil Hannes Valgeirsson, 24.8.2011 kl. 15:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband