Um hæstu fjöll Norðurlanda

Öræfajökull

Það er auðvitað alveg bráðnauðsynlegt að hafa á hreinu hvaða fjall er hæst í hverju landi og ekki síður hvort það fjall sé hærra en hæsta fjallið í næsta landi. Yfirleitt er slíkur samanburður ekki erfiður eins og til dæmis þegar kemur að hæsta fjalli á Norðurlöndunum sem er óumdeilanlega í Noregi. Ja … nema Grænland sé talið með Norðurlöndum þótt það sé í Ameríku. Málið vandast þegar kemur að samanburði á hæsta fjalli Íslands og hæsta fjalli Svíþjóðar, Kebnekaise, en það fjall hefur einmitt verið í fréttunum vegna flugvélar sem flogið var á það. Samanburður á hátindum Norðurlanda kemur hér:

GaldhöppingenNoregur. Hæsta fjall Noregs og þar með Norðurlanda, ef við teljum Grænland ekki með, er Galdhöpiggen, 2.469 metrar. Fjallið er í miðju Jötunheimahálendinu þar sem norsku fjöllin er hæst og mest. Næst hæsta fjallið er Glittertind sem einu sinni var talið það hæsta, en vegna snjóbráðnunar hefur það lækkað dálítið og er nú talið 2.464 metrar. Hlýnandi loftslag mun þó ekki breyta neinu fyrir 
Galdhöpiggen því hæsti tindur þess stendur bjargfastur upp úr jökli.

Ísland. Eins og við vitum þá er Hvannadalshnúkur hæsti tindur Íslands. Talan 2.119 metrar hefur ætíð verið greypt í huga okkar sem lukum skólagöngu á síðustu öld. En svo var farið að mæla með nýjustu tækni og ný hæð tilkynnt með viðhöfn: 2.110 metrar (nákvæm mæling 2.109,6). Hnjúkurinn hafði því skroppið saman um 9 metra og það sem verra var, hæðin komin niður fyrir hæsta fjall Svíþjóðar. Þarna var ekki bara um að kenna nýjum mæliaðferðum því toppur Hvannadalshnúks er ístoppur og þar með breytilegur á hæð en fer lækkandi til lengri tíma litið nema loftslag fari kólnandi á ný. Væntanlega er þó ekki langt niður á fast og ekki ástæða til að óttast að hann lækki niður úr öllu valdi.

KebneakaiseSvíþjóð. Hæsta fjallið, Kebnekaise er í norðurhluta Svíþjóðar nálægt landamærunum við Noreg. Það er yfirleitt sagt vera 2.111 metrar á hæð og þar með 1 metra hærra en Hvannadalshnúkur. En nú er það svo að toppur Kebnekaise er einnig gerður af ís sem þýðir að hæðin er ekki endanleg. Og viti menn, eftir endurmælingu kemur í ljós að vegna hlýnunnar og minnkandi snjóalaga er hæð fjallsins ekki nema 2.106 metrar þannig að Hvannadalshnúkur hefur aftur vinninginn.

HaltiFinnland er frægara fyrir ótal vötn frekar en ótal fjöll, en þau eru varla að finna nema allra nyrst. Landamæri Noregs og Finnlands liggja þannig að mjór angi sem tilheyrir Finnlandi teygir sig til norðvesturs inn í norska fjallgarðinn en þar er einmitt hæsta fjall Finnlands. Nefnist það Halti og er 1.365 metrar. Reyndar er þessi hæsti punktur fjallsins Noregsmegin við landamærin en hæsti punktur fjallsins sem tilheyrir Finnlandi er nokkru lægri eða 1.324 metrar sem er því opinberlega hæsti punktur Finnlands.

Slættartindur

Færeyjar eru mjög hálendar og þar eru fjöll eins og há og plássið leyfir. Það hæsta er Slættartindur á Norðurhluta Austureyjar 882 metrar og er hæðin því í stíl við Esjuna en líkist meir Skarðsheiði í útliti með sínum hvassa tindi. Meira hef ég ekki um málið að segja.



MøllehøjDanmörk á engin fjöll en þar eru þó ýmsar hæðir sem bungast upp yfir 100 metrana. Mjög litlu munar á allra hæstu hæðunum á Jótlandi suður af Himmelbjerget. Hæsti náttúrulegi punktur landsins samkvæmt nýjustu og nákvæmustu mælingum er nú talinn vera Møllehøj, 170,86 metrar, sem liggur rétt við Ejer Bavnehøj 170,35 metrar. Yding Skovhöj er á sömu slóðum og er aðeins hærri eða 172,54 metrar ef talin er forn víkingahaugur sem þar er. Um þetta fjallaði ég nýlega í sérstökum pistli: Um hæstu hæðir Danmerkur.

GunnbjarnarfjallGrænland. Það er eiginlega ekki hægt annað en að minnast á okkar næsta nágranna enda eru hæstu fjöll Grænlands alvöru fjöll. Gunnbjarnarfjall nefnist það hæsta og er 3.694 metrar á hæð (3.700 metrar skv. eldri mælingum). Það er eiginlega í næsta nágrenni við Ísland, eða beint norðvestur af Hornbjargi. Toppur Gunnbjarnarfjalls rís upp úr jökli við austurströndina og er um leið hæsti tindur norðan heimskautsbaugs og er nefnt eftir Gunnbirni Úlfssyni sem fyrstur norrænna manna villtist til Grænlands. Þetta svæði á Grænlandi er jarðfræðilega skylt Íslandi því þarna eru fjöllin gerð úr basalthraunlögum eins og á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi og einnig Færeyjum, enda tengist þetta allt heita reitnum okkar og opnun Atlantshafsins á sínum tíma.

Hin mikla ísbreiða Grænlands er að meðaltali í um 2.100 metra hæð. Hæsta bunga jökulsins hefur hinsvegar mælst 3.290 metrar en sú tala er auðvitað breytingum háð. Það er ansi langt niður á fast á Grænlandsjökli því þykkt jökulsins er á við hæðina sem þýðir að láglendissvæði eða jafnvel innhaf yrði eftir ef jökullinn færi. Slíkt er ekkert að fara að gerast á næstunni og hefur ekki gerst í hundruð þúsundir ára að minnsta kosti.

Líkur hér umfjöllun um fjöll að þessu sinni.

- - - -

Heimildir eru aðallega af Wíkipedíunni.

Ljósmyndina af Öræfajökli tók ég nálægt Krikjubæjarklaustri í ágúst 2006


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Takk Emil, þá er þetta komið í reglu. 

Ég var í sveit á Hnappavöllum líklega fimmtíu og fimm og við engjaheyskap á heitum dögum man ég eftir því hvernig loftið titraði þegar brast í jöklinum.  Mér var sagt að í jöklinum væru að opnast nýjar sprungur.   Mér þótti þetta allt mjög dulafult og magnað að skinja loftið titra.

Hrólfur Þ Hraundal, 25.3.2012 kl. 07:34

2 identicon

Ég vil þakka Emil fyrir upprifjun lærdómi frá því 1953-55 þá voru ekki komnar þær nýjustu mælingar sem finnast í dag. En nú veit ég betur. Betra er seint en aldrei. Kveðja.

Jóhanna (IP-tala skráð) 25.3.2012 kl. 08:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband