Örfá orð um Titanicslysið

Þessa bloggfærslu skrifaði ég fyrir þremur árum en ég endurbirti hana með smábreytingum nú þegar nákvæmlega 100 ár eru liðin frá því að Titanic sigldi á borgarísjakann illræmda. Það er gjarnan vitnað í þennan dramatíska atburð við ýmis tækifæri enda slysið fyrir löngu orðið að einskonar tákni sem harmleikur allra tíma – harmleik sem hefði mátt koma í veg fyrir með örlítið meiri varkárni og fyrirhyggju. Þarna á líka vel við eins og oft er sagt að stórslys verða ekki nema eftir röð mistaka. Þessi atriði ásamt öðrum staðreyndum eru tekin hér saman þótt ég nefni ekki öll smáatriði, sumt af þessu eru umdeild atriði og ekki alltaf víst hvar ábyrgðin liggur. Auk þess hafa ýmsar langlífar missagnir hafa verið í gangi. Sjá t.d. síðuna: (Titanics myths).

Systurskip Titanic var númer tvö í röð þriggja systurskipa sem White Star Line skipafélagið lét smíða. Hið fyrsta, Olympic, hóf farþegasiglingar tveimur árum fyrr en það var eitthvað örlítið minna en Titanic og átti farsælan feril. Þriðja skipið Britannic var sjósett árið 1914 og var aðallega nýtt sem sjúkraskip í stríðinu en það sökk á Miðjarðarhafinu árið 1916 eftir að hafa siglt á tundurdufl. Skipin voru stærri og búin öflugri vélum en gerðist á þeim tíma og gátu því flutt fleiri farþega á skemmri tíma en keppinautarnir gátu boðið upp á.

Oft hefur verið sagt að Titanic hafi átt að vera ósökkvandi en slíkar yfirlýsingar komu reyndar aldrei frá skipafélaginu sjálfu, hins vegar átti það að illsökkvanlegt enda útbúið sínum frægu skilrúmum sem áttu að koma í veg fyrir að sjór gæti flætt um allt skipið ef gat kæmi að því. Skipið gat haldið sjó þótt tvö samhliða hólf fylltust nema fremst þar sem fjögur hólf máttu fyllast.

Titanic átti ekki að setja hraðamet eins og oft er haldið fram enda þótti ekki ráðlegt að keyra vélarnar á fullu afli í þessari jómfrúarferð auk þess sem ákveðið var að sigla dálítið lengri leið sunnar en venjulega til að forðast hafís. Til stóð hins vegar að prufukeyra vélarnar á fullu afli undir lok siglingarinnar en til þess kom aldrei. Metnaðurinn og markmiðið var hinsvegar fyrst og fremst að halda áætlun í þessari fyrstu ferð.

„Dularfulla skipið“ Californian
Fjórum dögum eftir að Titanic lét úr höfn frá Sauthampton á Englandi var skipið komið langleiðina yfir hafið og að varasamasta hluta leiðarinnar því óvenju mikið var af hafís og borgarísjökum suður af Nýfundnalandi enda hafði veturinn verið kaldur á þessum slóðum. Tilkynningar um ísjaka fóru að berast frá nágrannaskipum, en það skip sem var nálægast Titanic var flutningaskipið Californian, það hafði stöðvað ferð sína og sendi loftskeytamanni Titanics þá tilkynningu að þeir væru umkringdir hafís. Eftir að fleiri slíkar tilkynningar fóru að berast svaraði loftskeytamaðurinn að lokum með þessum orðum: „Shut up, shut up. I am busy. I am working Cape Race“ sem þýddi að vakthafandi loftskeytamaður á Titanic kærði sig ekki um slíkar truflanir enda var hann upptekinn við að senda almenn skeyti frá ferþegum til Cape Race á Nýfundnalandi. Þetta afgerandi svar varð hinsvegar til þess að slökt var á fjarskiptatækjum um borð í Californian og loftskeytamaðurinn þar lagðist til svefns. Frekari samskipti urðu ekki milli skipana sem þó eru talin hafa verið í sjónmáli hvort við annað nóttina örlagaríku. Californian hefur stundum verið nefnt dularfulla skipið en kom t.d. hvergi fram í síðustu stórmyndinni sem gerð var um Titanicslysið.

Siglt áfram þrátt fyrir viðvarnanir
Þrátt fyrir hafíssviðvaranir hélt Titanic siglingu sinni áfram. Því er haldið fram að Bruce Ismay framkvæmdastjóri skipafélagsins sem var um borð hafi gefið skipstjóranum Edward J. Smith þá fyrirskipun, en tvennum sögum fer að því. Ismay þessi hefur annars verið afgreiddur með réttu eða röngu skúrkurinn um borð sem hugsaði mest um að bjarga eigin skinni þegar á reyndi, ólíkt Smith skipstjóra sem stóð sína vakt allt til enda, en skipstjórinn er annars annars sá maður sem ber ábyrgð á sínu skipi og þar með sjóferðinni sjálfri.

Um kl 23:40 þann 14. apríl sáu vaktmennirnir tveir uppí varðturni skipsins stóran borgarísjaka óþægilega nálægt framundan. Því miður höfðu þeir ekki sjónauka meðferðis því hann hafði óvart gleymst í Sauthampton. Smith skipsstjóri var ekki lengur á vakt en sjötti stýrimaður skipsins Murdoch brást við með þvi að gefa fyrirskipun um að stöðva skrúfur skipsins, setja á fulla ferð afturábak og stýra skildi skipinu til vinstri eins og mögulegt var (orðað sjálfsagt öðruvísi á sjómannamáli). Í fyrstu leit út fyrir að þetta hafi verið vel sloppið en því miður varð útkoman versta mögulega gerð af árekstri sem hugsast gat við þessar aðstæður. 

Rétt viðbrögð við yfirvofandi árekstri?
Það er auðvitað enginn hægðarleikur að stöðva eða taka krappar beygjur þegar risaskip eins og Titanic er annarsvegar. Einhverntíma heyrði ég í útvarpinu vangaveltur um hvort rétt hefði verið að setja skrúfur skipsins í bakkgír á sama tíma og taka þurfti krappa beygju. Skrúfa skipsins er einmitt staðsett þannig að hún vinni með stýrinu og það að snúa skrúfunni afturábak hefur því hugsanlega unnið gegn virkni stýrisins. Einnig má líka segja eftirá, úr því að svona fór, að best hefði hreinlega verið að sigla skipinu beint á ísjakann en þannig hefði stefnið auðvitað stórlega laskast og áreksturinn orðið harður en vegna skilrúmanna hefði sjórinn ekki flætt inn í fleiri en fjögur hólf og skipið því haldist á floti. Tíminn sem var til taks var auðvitað allt of lítill til að taka yfirvegaðar ákvarðanir, en ekki treysti ég mér til að dæma um hvort ákvörðun stýrimanns hafi verið samkvæmt handbókinni eða tekin í einhverskonar panikástandi.

Áreksturinn
Lengi var talið að ein stór 95 metra rifa hefði myndast framarlega á hægri síðu skipsins sem sjórinn hefði flætt inn um. Rannsóknir á flaki skipsins hafa hinsvegar leitt í ljós að frekar var um að ræða margar minni sprungur og smágöt hér og þar sem varð þess valdandi að sjór flæddi inn um 5 fremstu hólf skipsins. Þessi göt opnuðust þegar samskeytin milli stálplatnanna hrukku í sundur hvert af öðru en ekki vegna þess að gat hafi komið á plöturnar sjálfar enda skipið smíðað úr úrvalsstáli þess tíma. Hinsvegar er ljóst að sami styrkur hefur ekki verið í festingunum sem hélt þeim saman

Titanic sekkurSkipið sekkur
Eftirleikurinn þegar skipið var að sökkva er flestum kunnur en slæm nýting á þeim takmarkaða fjölda björgunarbáta sem voru í boði, var þó kannski alvarlegastur. Björgunarbátar skipsins voru 20 talsins og gátu samanlagt borið 1,178 manns en sjálfsagt hafði mönnum ekki dottið í hug að til þeirra þyrfti að grípa á svona illsökkvanlegu skipi. Sjósetning bátanna gekk hægt fyrir sig í fyrstu en í fyrsta bátnum sem var sjósettur voru aðeins 12 manneskjur, aðallega konur og börn af fyrsta farrými. Lægri klassa farþegar voru hins vegar læstir í neðri hluta skipsins framanaf og þar voru þeir auðvitað mun meðvitaðri um að skipið væri að sökkva.

S.O.S.
Neiðarsendingar frá Titanic fóru að berast til nærliggjandi skipa fljótlega upp úr miðnætti en því miður var ekkert þeirra skipa sem námu sendingarnar svo nærri að vænta mætti björgunar í tæka tíð. RMS Carpathia var þeirra næst en átti þó fjögurra tíma siglingu að Titanic. Því miður voru skipverjar á nágrannaskipinu Californian glórulausir um að nokkur hætta væri á ferðum þótt þeir hafi séð neyðarflugeldana frá Titanic. Skýringin gæti verið sú að flugeldunum var ekki skotið á loft á þann hátt sem reglur segja til um þegar um neyðartilfelli er að ræða, en samkvæmt þeim átti að skjóta flugeldum upp með einnar mínútu millibili en ekki 6-7 eins og gert var í þessu tilfelli. Californian var aðeins í 16 kílómetra fjarlægð frá Titanic og hefði getað verið komið á staðinn á klukkutíma. Jafnvel hefur komið fram að stjórnendur skipsins hafi ekki vitað að skipið sem þeir sáu í fjarska hafi verið sjálft Titanic enda tæknin ennþá frumstæð á þessum tíma.

Björgunin
Farþegaskipið Carpathia kom loks á slysstað um klukkan fjögur um nóttina, einum og hálfum tíma efir að Titanic hvarf í hafið. Tölur eru dálítið á reiki um hversu margir fórust en alls voru það 705 manneskjur sem var bjargað og náðu þar með að komast á leiðarenda til New York. Talið er að 2.223 manneskjur hafi verið um borð þegar það lagði úr höfn sem þýðir að 1.518 hafi ýmist horfið í hafið eða króknað úr kulda í ísköldum sjónum.

Titanicslysið vakti að vonum heimsathygli og allskonar áleitnum spurningum var varpað fram til að fá skilning á því hvernig þetta gæti gerst. Ýmsar reglur voru hertar í kjölfarið til að auka öryggi eins og að fjöldi björgunarbáta ætti alltaf að vera í samræmi við fjölda fólks um borð og loftskeyti þurftu að vera vöktuð allan sólarhringinn. Ýmislegt mætti segja hér í lokin um það hvernig ófyrirséðar hættur koma upp í síbreytilegum heimi framfara. Ég læt mér þó nægja að minna fólk á að fara varlega í umferðinni.

- - - - - 

Nokkrar heimildir:
http://www.webtitanic.net/frameimage.html
http://www.titanichistoricalsociety.org/articles/titanicmyths.asp

Hér er nokkuð ýtarleg bloggfærsla á íslensku:
http://www.hugi.is/saga/articles.php?page=view&contentId=4050523


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það sem mér fannst athugavert við myndina um Titanic sem sýnd var í sjónvarpinu, á laugardag, var að stýrimaður gaf skipun um að beygja á stjórnborða, en það er til hægri að ég best veit. þannig beygði hann að ísjakanum.

Hvort stjórnborði var til hægri 1912 veit ég ekki.

en í minni tíð hefur alltaf verið talað um stjórnborða til hægri.

Bakborði til vinstri.

Ingi R. Árnason (IP-tala skráð) 15.4.2012 kl. 11:20

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég hef séð vangaveltur um þetta atriði en svo virðist sem stýrimaður hafi í raun gefið þessa skipun sem í þá daga hafi einmitt þýtt að beygja til vinstri. Þetta séu leyfar að því að áður en snúningstýri komu til sögunnar þá var stýrinu ýtt til hægri til að beygja til vinstri. Þekki þetta samt ekki mjög vel en reyndar eru fáir til frásagnar af þeim þarna komu við sögu. Þarna gæti líka verið misskilningur sem snýst um að fyrsta viðvörunun um ísjakan hljóðaði þannig: "Isberg right ahead".

Emil Hannes Valgeirsson, 15.4.2012 kl. 13:33

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þetta voru nú ekki "Örfá orð" en fróðleg samt. Kannski örfá í samhengi þess sem skeggrætt og skrifað hefur verið um málið. Það allt hefur vafalaust ummál og þyngd nokkurra Titanic skipa.

Jón Steinar Ragnarsson, 15.4.2012 kl. 16:38

4 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Stjórnborð er til hægri og hefur alltaf verið að því er ég best veit.  Það er vegna þess að á tvístöfnungum sem stýrt var með ár þá var hún ævinlega hægramegin og þá snéri stýrimaðurinn bakinu í bakborð.  Þetta er svona en þann dag í dag að þegar menn fara á smá bát með utanborðsmótor þá sitja þeir vinstra megin við mótorinn og stýra með hægri hendinni og snúa bakkinnu í bak.

Mér þykir líklegt að ef þessi orð eru fengin úr sjórétti fyrir um hundrað árum síðan, þá stafi þau af því að fyrst hafi verið beygt til vinstri til að komast úr stefnu við jakann og síðan til hægri til að slá skutnum ekki  harkalega utaní. 

Niðurstöður úr skoðunum á skrokknum hundrað árum síðar benda til að skipið hafi strokist við jakann miðskips, þannig að ætla má að stjórntök í brúnni þessa örlaga nótt hafi verið að þessu leiti rétt.  Hvað svo sem líður með orðin stjórnborð og bakborð fyrir hundrað árum síðan.    

Hrólfur Þ Hraundal, 15.4.2012 kl. 17:39

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta er það sem stýrimaður á að hafa sagt þegar hann gafi skipstjóra skýrslu:

"An iceberg Sir. I hard a starboarded and reversed the engines and I was going to hard-a-port around it, but she was too close. I couldn't do anymore".

(http://www.titanicandco.com/iceberg.html)

Emil Hannes Valgeirsson, 15.4.2012 kl. 19:31

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Jú, er það ekki. Að hann sagði sko hart í stjór - og þá meinti hnn að snúa stýrinu alveg fúll til hægri - sem átt að verða til að skipið beygði á bakborða. Held það.

Reyndar hefur maður heyrt það að áhöfnin hafi beygt í ranga átt miðað við skipun og hvort sonur eins Stýrimannsinns eða undirforingjans hafi ekki sagt það í bók og haft eftir föður sínum. Eg held að það sé samt um deilt.

Eg held að yfirleitt sé talið að með því segja: Hart í stjór - að þá hafi verið beint að snúa styrisbúnaði skipsins til hægri - til að skipið sneri til vinstri. Einfalt.

það sem skipunin gekk reyndar líka útá var að stoppa skipið eða hægi á vélum oþh. og það vara barasta flókið ferli á svo stóru skipi að ætla samtímis að beygja til vinstri. Sumir vilja meina að það að hægja á skipinu og reyna að stoppa hafi í raun seinkað eða hamlað turning getu skipsins til vinstri.

þannig að það er alveg margt í þessu.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 15.4.2012 kl. 20:43

7 Smámynd: Trausti Jónsson

Titanicaðdáendum má benda á mjög litríka og skýra frásögn Archibald Gracie ofursta af slysinu. Hann var einn fárra farþega sem komust af eftir að hafa lent í sjónum um leið og skipið sökk, en dó reyndar innan við ári síðar - sagðist hafa ofreynt sig. Frásögnin birtist sem framhaldssaga í sunnudagsblöðum Morgunblaðsins 1914, byrjaði 29. mars eins og lesa má í blaðinu á blaðsíðu 685, 1914 og ætlar engan enda að taka. (Sjá timarit.is). Ekki er ótrúlegt að frásögnin sé finnanleg einhvers staðar á netinu á frummálinu.

Trausti Jónsson, 16.4.2012 kl. 23:56

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk fyrir þessa ábendingu Trausti, ég er búinn að lesa fyrsta hlutann og hann lofar góðu.
Eftir að ég birti þennan uppfærða pistil hef ég séð heimildarmyndir um slysið á erlendum sjónvarpsstöðvum og ýmislegt hefur skýrst betur og því má ég til með að bæta hér fleiri örfáum orðum við.
Rifurnar sem mynduðust á síðu skipsins við áreksturinn urðu vegna þess að hausarnir á hnoðnöglunum sem festu stálplöturnar saman, hreinsuðust af vegna núningsins við ísjakann. Þannig skutust hnoðnaglarnir inn eins og kampavínstappar og rifur mynduðust á plötuskilunum eins og um saumsprettu væri að ræða. Það er því ekki hægt að kenna lélegum stálplötum um slysið, en hnoðnaglarnir kunna hinsvegar að hafa verið ótraustir. Ljóst er þó að mjög litlu hafi munað að enginn árekstur yrði enda rakst Titanic ekki á jakann, frekar er hægt að segja að skipið hafi strokist við hann.
Skipið sökk með stefnið beint niður en oftast velta svona skip á hliðina þegar svona mikill sjór kemst inn. Hefði slagsíða komið á Titanic og það oltið hefði sjósetning björgunarbáta orðið mun erfiðari og manntjón meira. Við það að skipið sökk með stefnið beint niður, þá reyndi um of á burðarþol skipsins þegar skuturinn reis upp að aftan með um 23° halla. Kannski engin furða þótt skipið hafi klofnað enda var Titanic mjög langt skip miðað við breidd og með fjóra níþunga gufukatla. Gallað stál er því ekki einhlít skýring á því að það brotnaði.
Nágrannskipið California var í sjónmáli þegar Titanic sökk. Stjórnendur reyndu hvað þeir gátu til að koma neiðarsendingum yfir með því að blikka ljóskösturum á kerfisbundinn hátt. Allt kom þó fyrir ekki því mjög mikið flökt var á skyggninu vegna mikillar tíbrár (eða hillinga) enda var loftið mjög stillt og kalt. Um borð á California vaknaði grunur um að kannski væri verið að senda einhver skilaboð en vegna ljósaflöktsins var ekkert hægt að lesa úr þeim. Mönnum fannst því líklegast að hér væri bara um hvern annan flöktandi ljósagang að ræða. Óljóst atriði er að á meðan bjart var urðu hillingarnar líka til þess að Titanic reis hátt upp úr hafinu og leit út eins og stutt kubbslaga skip. Stjórnendur California áttuðu sig því ekki á að hið mikla Titanic væri þar væri á ferð.
Um rétt eða röng viðbrögð við árekstri ætti ég að segja sem minnst um. Það munaði sáralitlu að enginn árekstur yrði og ef svo hefði verið hefði þetta orðið glæst sigling allt til enda. Ljóst er þó að skipinu var siglt allt of hratt miðað við aðstæður, sem reyndar voru óvenjulegri en stjórnendur skipsins gátu ímyndað sér miðað við þær takmörkuðu upplýsingar sem þeir höfðu fengið. Síðasta hafísaðvörunin fyrir árekstur sem kom California fór til dæmis aldrei út úr loftskeytaklefanum vegna þess að afleysingarmaðurinn þar var svo upptekinn við prívatsendingar farþega.

Emil Hannes Valgeirsson, 17.4.2012 kl. 12:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband