Á flæðiskeri staddur

Hólmur

Könnun heimsins heldur áfram og að þessu sinni er ég staddur lengst úti á skeri vestur af Örfirisey. Ég er þó ekki illa staddur því skerið tengist landi á háfjöru og vitanlega var ég búinn að kynna mér sjávarföll í Almanaki Þjóðvinafélagsins. Mér var því öllu óhætt þegar myndin var tekin, sunnudaginn 6. maí klukkan hálf eitt í blíðskaparveðri á stórstraumsfjöru.

Hvað þetta heitir nákvæmlega skal ég ekki segja en talið er líklegt að þetta sé Hólmurinn sjálfur þar sem Dönsku kaupmennirnir héldu sig forðum áður en þeir fluttu sig til Örfiriseyjar vegna aukins ágangs sjávar. Síðan þá hefur land sigið enn meir þannig að nú fer allt á kaf í flóði, en þó ekki alveg því enn eru þarna myndarlegar grágrýtisklappir og skeljasandur sem þarinn fær ekki þrifist á. Grandinn sem tengir Hólmann við land, var mun lengri áður en landfyllingaræðið greip um sig. Örfirisey sjálf var tengd landi með svipuðum granda en þvert á hann kom Hólmagrandinn eins og sést á ljósmyndinni sem Sigfús Eymundsson tók frá Skólavörðuholti árið 1877.

Gamla Reykjavík

Á suðvesturhorni landsins er stöðugt landsig í gangi vegna nálægðar við eldvirka svæðið á Reykjanesskaga. Eitthvað hefur land því sigið á þeim 135 árum sem liðin eru frá því er þessi mynd var tekin og reyndar man ég ekki eftir að séð hólmana standa svona vel upp úr sjónum eins og þarna sést og liggur við að göngufært sé út í Akurey. Myndin hefur þó væntanlega verið tekin á stórstraumasfjöru sem kannski átti sinn þátt í að Sigfús ákvað að leggja leið sína þennan dag upp að Skólavörðu með ljósmyndagræjur sínar. Ekki ólíkt því sem ég gerði er ég hélt út á Hólmann.

- - - - -

Í framhaldi af af þessu má minna á bloggfærslu sem ég skrifaði fyrir þremur árum og fjallaði um þann möguleika að Reykjarvík, eins og hún hét upphaflega, hafi verið þarna í víkinni á milli Örfiriseyjar og Hólmanna. Forðum daga var nefnilega hverasvæði á litlu nesi við Örfirisey er nefndist Reykjarnes en það er nú sokkið í sæ.

Sjá: Hvar var hún þessi Reykjarvík?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Tómasson

Gaman að þessu. Takk fyrir þetta.

Heimir Tómasson, 14.5.2012 kl. 13:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband