Íslensk fjöll á Grænlandi

SermitsiaqJarðsaga Grænlands er ákaflega löng og slagar hátt í sögu jarðarinnar. Elsta bergið sem fundist hefur á Grænlandi er fornt sjávarberg nálægt Nuuk, um 3,8 milljarða ára gamalt en til samanburðar er Jörðin talin um 4,5 milljarða ára og heimurinn allur eitthvað nálægt 15 milljörðum. Grænland hefur þó yfirleitt ekki verið til sem slíkt fyrr en bara tiltölulega nýlega eftir að Atlantshafið opnaðist. Fram að því, eða á myndunartíma þess, gat það verið í tvennu lagi eða hluti af stærri meginlöndum á eilífu flakki um jörðina og oftar en ekki á Suðurhveli. Fjöllin eru líka misgömul, gjarnan massífir berghleifar t.d. úr gabbró þ.e. fyrrum sjávarset sem umbreyst hefur í djúpberg sem síðar átti eftir að þrýstast upp í fellingafjöll við árekstra meginlandsfleka. Þannig eiga Grænlensku fjöllin mun meira sameiginlegt með Norsku fjöllunum og raunar flestum öðrum fjallgörðum heldur en hinum nýtilkomnu Íslensku.

Basaltfjöll Grænland
En það eru líka til kunnuglegri fjöll á Grænlandi því beint norðvestur af vestfjörðum má finna dæmigerða basalt-hraunlagastafla eins og eru svo algengir hér á blágrýtissvæðum Íslands. Þessir Grænlensku basaltstaflar eru hinsvegar öllu hærri og hrikalegri en okkar enda hvíla þeir á traustum grunni meginlandsfleka ólíkt því sem gerist hér þar sem fjöllin hvíla á mun mýkri skorpu og síga því niður eins og steinn á svampdýmu. Þarna má líka finna hæstu fjallstinda Grænlands og ber þar hæst Gunnbjarnartind, um 3.700 metrar á hæð, eða Hvítserk eins og hann hefur stundum verið kallaður hér á landi. Sjá má Gunnbjarnartind einhverstaðar á myndinni hér að ofan.

Svona basaltfjöll eru samsett úr storkubergi sem verða til þegar hvert hraunlagið leggst yfir annað í milljónir ára. Reglulegir hraunlagastaflar eru rakin vísbending um langvarandi jöklaleysi á viðkomandi stað því hraun renna ekki yfir stór landssvæði undir jökli eins og kunnugt er. Eftir að ísaldajöklar tóku að herja á norðurhveli fyrir um 2-3 milljónum hafa svo jöklarnir verið duglegir við að tálga firði og dali í berglagastaflana og víða skilið eftir hvassa fjallstinda.

GrænlandsreiturÞessi Grænlensku basaltfjöll eru náskyld okkar eigin fjöllum enda eru þarna að finna yngstu bergmyndanir Grænlands. Sameiginleg uppspretta er líka heiti reiturinn, eða möttulstrókurinn, sem nú er staddur einhverstaðar undir Bárðarbungu. Möttulstrókur þessi mun eiga sér langa sögu ef hugmyndir um hann eru réttar því talið er að hann sé langt að kominn. Hafi eitt sinn verið undir Kanadíska heimskautasvæðinu en síðan siglt rólega í suðaustur, farið yfir Grænland fyrir 40-70 milljónum ára og sé nú einmitt staddur hér á landi þessi ármilljónin og tengist eldvirkni Atlantshafshryggjarins. Nákvæmara og réttara er reyndar að segja að möttulstrókurinn sé kyrr á sínum stað en allt fyrir ofan sé á hreyfingu. En allavega þá hefur strókurinn skilið eftir sig ummerki á sinni yfirferð í formi eldvirkni með tilheyrandi storkubergi og basalthraunlögum sem einmitt eru Grænlensku basaltfjöllin sem finna má á afmörkuðum svæðum sitthvoru megin jökuls. Kortið sýnir basaltsvæði tengd heita reitnum með svörtum og gráum lit en tölurnar segja til um ferðalag reitsins í milljónum ára.

Spurning er hvernig sambandi heita reitsins og Atlantshafshryggjarins sé háttað í raun. Ekki er ólíklegt að ferðalag heita reitsins austur yfir Grænland sé stór ástæða fyrir því að Atlantshafið opnaðist að lokum okkar megin við Grænland því framan af, eða á meðan heiti reiturinn var vestanmegin, átti gliðnunin sér stað þeim megin Grænlands. Þetta stökk í gliðnun Atlantshafsins er síðan ástæða þess að Grænland er sérstök eyja.

Samsvarandi basalt-hraunlagastafla af sama uppruna er einnig uppistaðan í Færeysku fjöllunum og einnig þeim Skosku að hluta. Þegar þau hraun runnu var heiti reiturinn að koma austur undan Grænlandi og Atlantshafið að opnast á milli Grænlands og Evrópu. Mikil flæðigos voru á svæðinu á þeim tíma og ekki ólíklegt að sama hraunlagið geti verið að finna í Færeyjum og á Grænlandi. Það hraunlag væri þá töluvert eldra en elstu hraunlög á Íslandi enda myndaðust þau ekki fyrr en eftir að opnun Atlantshafsins var komin vel á veg.

Kortið fengin af síðunni: Reykjanes Ridge Expedition en ég er þó búinn að gera skýrari gula punkta með tölum. Birtist hjá mér áður í bloggfærslunni: Af hverju er Ísland til?

Efri ljósmyndina tók ég sjálfur Nálægt Nuuk í Grænlandi en neðri ljósmyndin er fengin héðan: http://www.summitpost.org/users/bergauf/41964

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Enn einn skemmtilegur og fræðandi pistill frá þér Emil. Takk!

Ólafur Eiríksson, 17.5.2012 kl. 18:28

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk fyrir það Ólafur. Þessi pistill var búinn að vera lengi í deiglunni.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.5.2012 kl. 00:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband