Bæjarins besti júní?

Nú eru liðin 26 frá því ég hóf mínar eigin veðurskráningar fyrir veðrið í Reykjavík. Þetta hef ég gert sjálfum mér til gagns og gamans en upphaflega stóð aldrei til að halda út þessum skráningum lengur en bara sumarið 1986. Reyndin varð þó önnur. EInhversstaðar hef ég sagt að ég sé heimilisveðurfræðingur en starfsemin fer aðallega fram í stofunni heima, sem er því nokkurskonar einkaveðurstofa.

Eitt af því sem hefur viðhaldið skráningaráhuganum er einkunnakerfið sem byggist á því að ég gef hverjum degi einkunn á skalanum 0-8 eftir ákveðnu kerfi sem byggist á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, hita og vindi. Eftir hvern mánuð reikna ég svo út meðaleinkunn mánaðarins og þannig get ég borið saman veðurgæði einstakra mánaða og jafnvel ára. Auðvitað er samt alltaf álitamál hvernig skilgreina á gott eða slæmt veður og svo getur verið allur gangur á því hvernig einkunnir einstaka mánaða endurspegla raunveruleg veðurgæði. Um þetta hef ég skrifað nokkrum sinnum áður eins og sumir ættu kannski að kannast við.

Það telst mjög gott ef mánuðir ná 5,0 í meðaleinkunn en afleitt ef mánuður nær ekki 4,0 þannig að einkunnabilið er ekki mjög mikið. Fram að þessu er versti skráði mánuðurinn, janúar 1989, með 3,3 í einkunn. Sá besti hefur hinsvegar verið júlí 2009, með afgerandi bestu einkunnina 5,8. En nú hafa stórtíðindi orðið.

Júní 2012: Einkunn 5,9.
Já nú hefur það gerst að liðinn mánuður er ekki bara bæjarins besti júní-mánuður frá 1986, heldur er hann besti mánuður allra skráðra mánaða og hefur slegið út þann fyrrum besta: júlí 2009. Rétt er þó að taka fram að tekið er tillit til árstíðasveiflu í hita þannig að allir mánuðir árins geti átt sama möguleika á bestu einkunn.

Júní 2012Hér til hliðar sýni ég skráninguna fyrir nýliðinn júní. Þar má meðal annars sjá veðureinkunn dagsins í aftasta dálki. Hér á eftir kemur dálítil greinargerð um einstaka veðurþætti:

Sólardaga skrái ég sem heila eða hálfa daga og eru þarna 12 sannkallaðir sólardagar en 13 hálfskýjaðir. Þá eru ekki eftir nema 5 dagar þar sem sólin hefur varla látið sjá sig. Samtals eru þetta því 18,5 sólardagar sem er í flokki hins allra besta en þó ekki met samkvæmt mínum skráningum því árið 2008 var júní með 19,5 daga. Samkvæmt opinberum mælingur var þetta reyndar sólríkasti júní í Reykjavík síðan 1928 en þá skiptir máli að ég skrái veðrið eins og það er yfir daginn en ekki seint á kvöldin eða á nóttinni. Sólríkar vornætur skipta því ekki máli hjá mér.

Úrkoma var mjög lítil og skráði ég aðeins 5 daga með úrkomu en í öll skiptin var hún minniháttar eða skúrir í bland við sólskin, stundum að vísu nokkuð öflugar dembur. Gegnblautur rigningardagur var enginn. Ég vek athygli á dropa sem er teiknaður 7. júní í annars alauðum dálki fyrir framan einkunnina. Hann stendur fyrir blauta jörð (eða snjó) á miðnætti og er oftast miklu skrautlegri þetta. Mánuðurinn er því einn af þessum þurrkamánuðum sem einkennt hefur sumrin frá árinu 2007.

Hiti er skráður sem dæmigerður hiti yfir daginn. Táknin fyrir aftan hitatöluna segja til hvort dagurinn sé kaldur hlýr eða meðal. 19. júní flokkaðist sem kaldur (ferningur) en 8 dagar voru hlýir (hringur). Mánuðurinn byrjaði með hlýindum og var 4. júní hlýjasti dagur mánaðarins: 17 stig. Eftir smá slaka voru góð hlýindi aftur ríkjandi, sérstaklega síðustu 10 dagana. Í heildina var þetta hlýr mánuður sem var yfir meðallagi síðustu 10 ára og auðvitað langt yfir opinberu viðmiðunartímabili áranna 1960-1990.

Vindur er auðvitað mikilvægur þáttur þegar kemur að veðurgæðum. Í samræmi við önnur veðurgæði var þessi mánuður mjög hægviðrasamur og kannski það sem gerir útslagið með góða einkunn en til að ná meteinkunn þurfa allir veðurþættir gjöra svo vel að standa sig. Hlykkjóttar pílur eru áberandi í skráningunni og standa fyrir hægan vind. Tvöföldu strekkingsvinds-pílurnar eru hinsvegar hvergi sjánlegar. Í kassanum neðst til vinstri er samantekt á vindáttum. Norðvestan hafgoluáttin er tíðust á meðan sunnan- og suðvestanáttirnar eru í núlli. Þetta eru alveg rakin einkenni góðviðrismánaðar að sumarlagi hér í bæ og segir í raun það sem segja þarf. Samtals er vindstyrkur mánaðarins 43 en sú tala er fengin úr skráningarkerfinu og er með því lægsta sem ég hef skráð.

- - - -

Það er ágætis útrás fyrir veðurskrif að taka fyrir metmánuð eins og þennan. Ég ætla þó ekki að taka fleiri mánuði fyrir svona ýtarlega nema einhver mánuðurinn tekur upp á því að dúxa - nú eða kolfalla með fordæmalausum hætti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Skemmtileg veðurathugun :) Verið fremur svalt hér eystra en þó í heildina mun betra en í fyrra

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.7.2012 kl. 21:09

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég skrapp reyndar austur á Djúpavog fyrir nokkrum dögum og fékk að kynnast kaldri Austfjarðaþokunni. Kannski er þetta eitthvað að breytast því nú er dimmt yfir og blautt í Reykjavík.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.7.2012 kl. 23:11

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Mér varð einmitt hugsað til þín um daginn þegar ég var að spá í veðrið í mánuðinum - átti ekki von á öðru en að hann kæmi vel út í kerfinu þínu.

Sveinn Atli Gunnarsson, 2.7.2012 kl. 23:50

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Svo má líka nefna að maí var einnig mjög þurr og sólríkur og skráði ég samtals 19,5 sólardaga, einum meira en í júní. Enn hefur enginn mánuður náð 20 dögum. Maí fékk í einkunn 5,2 sem er gott en vindurinn var heldur of mikill til að mánuðurinn fengi afburðaeinkunn.

Emil Hannes Valgeirsson, 3.7.2012 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband