Eitt orð eða tvö?

„Málkenndin er í tómu tjóni“ var sagt í Morgunblaðsfrétt á dögunum. Kannski eru það ekki ný tíðindi. Eldri kynslóðir hafa sjálfsagt alla tíð talið sig tala betra mál en uppvaxandi ungdómurinn. Í þessari Morgunblaðsfrétt var aðallega verið að fjalla um samsett orð og óvissuna sem þjakar marga um hvenær á að skrifa err í samsettum orðum samanber fermingaveisla eða fermingarveisla en eins og við vitum sem erum komin af fermingaraldri þá hljótum við að skrifa fermingarveisla með erri ef um er að ræða eina fermingu og ekki fermast börnin tvisvar.

Annað og stærra mál í sambandi við samsett orð snýst um hvenær orð eru yfirleitt samsett. Ég er sjálfsagt ekki einn um að hafa tekið eftir að aukin losung er að komast á þau mál og jafnvel í virðulegum fjölmiðlum má sjá samsett nafnorð slitin í sundur samanber: Matvöru verslun, málara meistari og dómsmála ráðherra svo maður skáldi nokkur dæmi. Kannski eru þetta einhver áhrif frá enskunni sem fylgir ekki eins sterklega þeirri íslensku hefð að slengja saman nafnorðum, jafnvel í löngum röðum samanber þetta fræga dæmi:

Vaðlaheiðarvegavinnuverkfærageymsluskúraútidyralyklakippuhringur

en ekki:
Vaðlaheiðar vegavinnu verkfæra geymsluskúra útidyra lyklakippuhringur

eða jafnvel:
Vaðla heiðar vega vinnu verk færa geymslu skúra úti dyra lykla kippu hringur

Við steypum þó ekki nafnorðum saman í öllum tilfellum. Við skrifum Íslandssaga í einu orði en þegar orðaröðin snýst við er það saga Íslands. Þarna virðist ráða ferðinni svona almennt séð að ef eignarfallsorðið er nefnt á undan þá er orðið samsett en er annars í tvennu lagi samanber einnig: skipsvél og vél skipsins. Reyndar er alls ekki alltaf um að ræða eignarfall á fyrra orðinu, eins og haustlitir og flugvél en þá má grípa til þeirrar viðmiðunnar að ef fyrri hlutinn helst óbreyttur í beygingunni, þá er orðið samsett, sbr. hestöfl, hestöflum, hestafla.

Biblía og ÍslendingasögurEn svo kemur vandamál því í áðurnefndri frétt, birtist þessi mynd af nokkrum öndvegisritum heimsbókmenntanna en þar má meðal annars sjá Egils sögu og Laxdæla sögu í tveimur orðum. Í fljótu bragði hefði ég haldið að þessi heiti ættu að vera í einu orði eins og í tilfelli Egilsstaða en svo ef maður hugsar um Egils Appelsín skilur maður þetta betur. En þó ekki alveg. Þarna virðast ráða gamlar hefðir.

Einnig má svo nefna tilfelli þegar eignarfallsorð með greini eru notuð í fyrra orðinu eins og tíðkast gjarnan í dönsku en sést hér helst í hátíðlegra máli. Haföldur er eitt orð á meðan hinar hátíðlegu hafsins öldur eru tvö orð enda kominn greinir á fyrra orðið. Öldur hafsins eru líka tvö orð enda eignarfallið á seinna orðinu. Öldurhús er auðvitað eitt orð en svoleiðis hús eru sennilega kennd við eitthvað annað en haföldur þótt gestir slíkra húsa geti gerst óstöðugir og farið að stíga ölduna. Annars eru reglur og venjur um eitt orð eða tvö ekki einfalt mál og ekki tel ég mig vera neitt íslenskuséní þannig að í staðin fyrir að fabúlera meira um þetta er best að vísa bara í auglýsingu um íslenska stafsetningu þar sem fjallað er um eitt orð eða tvö.

 


mbl.is „Málkenndin er í tómu tjóni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir góðan pistil Emil. Ég er bara nokkuð sammála, eða eiginlega næstum alveg sammála þér.

Ágúst H Bjarnason, 3.3.2013 kl. 00:27

2 identicon

Þetta er ágætt hjá svo langt sem það nær. Ég vil þó benda þér á að Þórbergur Þórðarson veltir þessu einmitt fyrir sér í ágætri grein sem hann skrifaði í Tímarit Máls og menningar á árinu 1941. Ég var einmitt að lesa þetta um síðustu helgi, en tímaritið sá ég í safni Einars Mantyla í Klapparholti. Vildi bara benda þér á grein þessa.

VJE (IP-tala skráð) 7.3.2013 kl. 14:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband