Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Esjan skipar heiðursess á þessari bloggsíðu eins og glögglega má sjá á toppmyndinni. Þetta á ekki síst við í byrjun apríl þegar kemur að því að bera saman snjóalög í Esjunni milli ára með myndum sem teknar eru frá bensínstöðinni Klöpp við Sæbraut. Fyrsta myndin var tekin árið 2006 og með myndinni í ár eru þær orðnar átta talsins. Með hverri mynd læt ég fylgja hvenær Esjan varð alveg snjólaus frá Reykjavík séð. Spurningin er hvað verður upp á teningnum í ár. Er vorið komið? - eða farið? Nánar hér neðan mynda:

Esja april 2013

Esja april 2012

Esja april 2011

Esja april 2010

Esja april 2009

Esja april 2008

Esja april 2007

Esja april 2006
Snjóalög í Esjunni nú undir lok vetrar eru heldur minni en á sama tíma í fyrra, allavega miðað við þann góðvirðisdag sem mynd þessa árs var tekin en síðan þá hefur kólnað á ný og dálítið snjóað til fjalla. Minnstur var snjórinn árið 2010 og hvarf hann allur það ár um miðjan júlí, sem er mjög snemmt. Grunnurinn að núverandi snjósköflum er sennilega það sem lifði af hlýindakaflann mikla í febrúar en fyrri hluta vetrar hafði talsverð snjósöfnun verið í fjallinu. Spáð er kólnandi veðri næstu daga og bakslagi á þeirri vorblíðu sem hér var fyrstu dagana í apríl. Þó hlýtur að teljast líklegt miðað við fyrri ár að Esjan nái að hreinsa af sér allan snjó fyrir næsta haust en á þessari öld hefur það gerst á hverju ári, nema að sennilega vantaði herslumuninn árið 2011.

Eins og kemur fram þá skrái ég Esjuna snjólausa 18. september árið 2012 - í fyrra. Þá vildi reyndar svo til að síðasti skaflinn til að hverfa var ekki í Gunnlaugsskarði eins og venjan er. Sá skafl hvarf 4. september en litli lífseigi skaflinn vestur undir Kerhólakambi lifði hinsvegar til 18. september. Til að flækja málin þá snjóaði í Esjuna 10. september í fyrra en sá snjór hvarf aftur þann 21. september samkvæmt því sem ég hef punktað hjá mér. Ég læt þó dagsetninguna 18. september standa sem daginn sem snjór fyrri vetrar hvarf.

- - - - -

Til upprifjunar þá bendi ég á eldri bloggfærslu um skaflaleiðangur á Esjuna þann 9. ágúst í fyrra. http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1253901/

Einnig nota ég tækifærið til að minna á myndaseríu mína Reykjavík alla daga ársins sem tekin var árið 2011 en það var einmitt árið sem Esjunni tókst ekki alveg að verða snjólaus eftir hryssingslegt vor en þó ágætis sumar. http://www.365reykjavik.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband