Snjóleysi á Vestur-Grænlandi

Við skulum byrja á því að líta á gervihnattamynd sem var tekin í dag - eins og stundum er sagt í veðurfréttunum. Ísland er í horninu niðri til hægri en svo er Grænland þarna í öllu sínu veldi. Það hefur vakið athygli mína í öllum vetrarharðindunum sem ríkt hafa beggja vegna Atlantshafsins að á austurströnd Grænlands er sáralítinn snjó að finna þar til komið er sjálfri jökulröndinni. Þetta á sérstaklega við um svæðið innan hringsins sem ég hef dregið upp en þar er jökulröndin afar skýrt mörkuð. Svæðið er norðan heimskautsbaugs suður af Diskoflóa og ætti að mínu viti að vera á kafi í snjó nú undir lok vetrar. En er þetta eðlilegt?

Grænland 13. apríl

Þessi vetur sem senn er á enda hefur verið óvenjulegur að mörgu leyti. Vetrarhörkur hafa verið talsverðar í Norður-Evrópu og víða í Bandaríkjunum. Hér á landi hefur snjónum verið mjög misskipt á milli landshluta. Á suðvesturlandi hefur verið mjög snjólétt en á norður- og austurlandi hefur meira og minna verið hvítt í allan vetur, ef undan er skilinn hlýindakaflinn í febrúar. Austanáttir hafa lengst af verið ríkjandi hér á landi í vetur en suðvestanáttin algerlega heillum horfinn og þar með einnig éljagangurinn hér á suðvesturhorninu.

Á Grænlandi er sjálfsagt eitthvað óvenjulegt á ferðinni líka. Allavega hefur verið hlýtt þar á vesturströndinni og miðað við þessa loftmynd hefur einnig verið þurrt því varla eru það rigningar sem valda snjóleysi svona norðarlega til fjalla á Grænlandi. Væntanlega mun þetta snjóleysi hafa sín áhrif á jöklabúskap þessa mikla jökulhvels því gera má ráð fyrir að lítið hafi safnast fyrir þarna vestanmegin í vetur, hvað sem segja má um ástandið okkar megin.

Í heiðríkjunni vestan Grænlands sést að hafísinn heldur sig fjarri Grænlandsströndum vestanverðum en þar er reyndar ekki mikinn ís að finna alla jafna. Það sést hinsvegar grilla í Austur-Grænlandsísinn fyrir norðan Ísland sem heldur sig sem betur fer fjarri okkar ströndum. Ísinn er þó kominn suður fyrir Hvarf þarna allra syðst á Grænlandi þaðan sem hann er farinn að berast með straumum vestur- og norður fyrir eins og lög gera ráð fyrir.

Best að enda þetta á hitafarsmynd frá NASA þar sem sést hvar hitar og kuldar héldu sig um miðjan mars síðastliðinn á norðurhveli. Já það er ekki um að villast hvar hlýindin voru á þeim tíma og líklega má segja að þetta sé nokkuð dæmigert fyrir veturinn.

Hiti NASA mars 2013

Myndin er fengin frá NASA Earth Observatory á slóðinni: http://earthobservatory.nasa.gov/IOTD/view.php?id=80804. Þar má líka lesa um ástæður þessara óvenjulegheita.

Efri myndin er einnig frá NASA: http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/subsets/?mosaic=Arctic

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þegar ég dvaldi upp í Ilulissat við Discoflóann í hitteðfyrra var mér sagt að flóinn sem hafi verið þakinn massívum ís í gegnum allar aldir á vetrum, leggi nú ekki lengur og hafi ekki gert í tæp 10 ár. Ekki er veitt á hundasleðum lengur heldur á bátum og eru menn bara nokkuð ánægðir með það þarna. Ístunganí Ísfirðinum hopar líka skuggalega hratt og þessi tignarlegi skriðjökull heyrir brátt sögunni til sem skríður þarna í sjó fram með mikilfenglegum sporðaköstum.

Það er hlýnun þarna og það veruleg. Allir í Ílulissat eru fullkomlega meðvitaðir um það. Þetta á sér líka lengri sögu en margur heldur en bráðnunin eflist frá ári til árs svo Róunin er skuggaleg. En eins og ég segi, þá kvartaGrænlendingarnir ekki. Þetta hefur verið gott fyrir efnahaginn, þótt Royal Greenland flytji raunar megnið af arðinum úr landi eins og nýlenduherrum sæmir.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.4.2013 kl. 02:26

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef fylgst af áhuga með veðrinu á Grænlandi í mörg ár og síðstu árin hefur verið áberandi hve oft hlýjar tungur lofts hafa komið upp með Nýfundnalandi og farið norður með vesturströndinni, oft langt í norður og staðið við í marga daga.

Á svæðinu sem þú sýndir eru 200 kílómetrar í beinni loftlínu frá sjó og upp til Kangerlussuaq (Syðri-Straumfjarðar), eða tvöfalt lengri vegalengd en mest þekkist hér á landi, svo að það er mjög lítil úrkoma þarna innst.

En það er nýtt í þessu hve hlýtt og þurrt er utan, en stafar á stundum af því að vindátt verður austanstæð með hnjúkaþey, sem er bæði þurr og hlýr.

Ómar Ragnarsson, 14.4.2013 kl. 13:56

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég þakka ykkur fyrir þessar viðbótarupplýsingar. Til að fá samanburð þá leitaði ég af eldri loftmyndum af Grænlandi. Ástandið í fyrra var greinilega mjög frábrugðið því sem er í dag ef marka má mynd sem má finna á þessum link:

http://lance-modis.eosdis.nasa.gov/cgi-bin/imagery/single.cgi?image=crefl1_143.A2012103154000-2012103154500.2km.jpg

Að vísu ekki eins góð mynd, en sýnir þó venjulegra ástand og alhvíta vesturströnd Grænlands á svipuð tíma í fyrra eða þann 12. apríl 2012.

Emil Hannes Valgeirsson, 14.4.2013 kl. 19:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband