Hversu gott eða slæmt var veðrið í júní?

Eins og ég gaf í skyn í síðustu færslu þá ætla ég nú að skoða veðurfarslega einkunn nýliðins júnímánaðar sem fengin er út úr veðurskráningarkerfi mínu og bera saman við fyrri ár. Fyrir þá sem enn ekki vita þá hef ég haldið úti linnulausum veðurdagbókarskráningum frá því í júní 1986 og nota til þess mínar eigin skráningaraðferð sem á að lýsa hinu dæmigerða veðri í Reykjavík á hverjum degi. Aðferðin byggist á því að skipta veðrinu í fjóra þætti: sól, úrkomu, vind og hita og getur hver þáttur verið neikvæður, í meðallagi eða jákvæður. Út frá þessu gef ég svo hverjum degi einkunn á skalanum 0-8. Núll stig fær dagur sem hefur alla þættina neikvæða en átta stiga dagurinn hefur alla þættina jákvæða. Hvort tveggja er að vísu sjaldgæft. Þegar allir dagar mánaðarins hafa fengið sína einkunn er lítið mál að að finna meðaleinkunn mánaðarins sem verður þá auðvitað veðureinkunn mánaðarins.

Nýliðinn júnímánuður fékk samkvæmt þessu kerfi einkunnina: 4,4 sem eiginlega er ekki nógu gott því meðaleinkunn allra skráðra júnímánaða er 4,7. Þetta er samt nokkuð frá því versta því lélegasta júní-einkunnin er 3,6 frá árinu 1988. Allra besta einkunnin fékkst hins vegar árið 2012 í fyrra, 5,9 stig, sem kannski hljómar ekki mikið en á þessum kvarða er það alveg rosalega gott.

Að þessu sinni fékk aðeins einn dagur 7 í einkunn en það var síðasti dagur mánaðarins, 30 júní. Út á hann var ekkert að setja nema goluna sem þýddi að vind-þátturinn var í meðallagi en hinir þrír voru jákvæðir, eða: 1+2+2+2=7. Enginn dagur fékk þó núll eða eitt stig en tveir fengu tvö stig. Það voru 1. og 27. júní sem báðir fengu sín stig fyrir að úrkoman var ekki óþægilega mikil og vindurinn ekki bagalegur. Annað var hinsvegar neikvætt. Einungis þrír dagar fengu sex stig en til þess að sumarmánuður nái sér á strik þarf sú góða einkunn að koma upp mun oftar. Flestir dagar mánaðarins voru því að dóla sér í kringum meðallagið eða þar undir.

Aðrar og hefðbundnari veðurgreiningar læt ég aðra um en hér kemur súlurit yfir veðureinkunnir allra skráðra júnímánaða 1986-2013. Undir því er lauflétt útlistun á því helsta sem einkenndi mánuðina í Reykjavík - hafi eitthvað yfirhöfuð einkennt þá.

Júní einkunnir 1986-2013

1986 4,0  Svalt og afar sólarlítið. Úrkomusamt framan af.
1987 5,1  Sólríkur og þurr mánuður.
1988 3,6  Sólarminnsti júní frá upphafi mælinga. Oft kaldar og hvassar sunnan- og suðvestanáttir.
1989 4,4  Kalt í byrjun þegar Páfinn kom. Síðan hvasst en sólríkt í lokin.
1990 4,5  Þungbúið framan af en sólríkt og gott eftir 17. júní.
1991 5,3  Mjög sólríkt og þurrt. Norðanáttir eða hafgola ríkjandi.
1992 4,0  Kaldur mánuður. Jónsmessuhretið skall á fyrir norðan 23.-24. júní.
1993 4,6  Nokkuð tíðindalítið.
1994 4,5  Nokkuð kalt. Lýðveldishátíðin haldin á Þingvallavegi.
1995 4,3  Frekar tíðindalítið en heldur dapurt í heildina.
1996 4,6  Nokkuð tíðindalítið.
1997 5,1  Sólríkt, þurrt og hægviðrasamt en ekki hlýtt.
1998 5,3  Sólríkt, þurrt og hægviðrasamt með hlýjum dögum seinni partinn.
1999 4,4  Nokkuð tíðindalítið en frekar dapurt í heildina.
2000 4,6  Frægastur er mánuðurinn fyrir Suðurlandsskjálftana.
2001 4,6  Svalt framan af en betra þegar á leið. Sól og þokubakkar síðustu vikuna.
2002 4,9  Óvenju hlýtt lengst af og mesti hiti sem mælst hefur í júní: 22 stig þann 11.
2003 4,6  Hæsti meðalhiti í júní fram að þessu. Annars fremur sólarlítið og blautt.
2004 4,9  Yfirleitt hlýtt og gott
2005 5,0  Aftur yfirleitt hlýtt og gott
2006 4,1  Úrkomusamt og almennt frekar dapurt
2007 5,0  Byrjaði illa en stórbætti sig með sól, þurrki og hlýindum þegar á leið.
2008 5,3  Hlýtt, mjög sólríkt og þurrt en frekar vindasamt framanaf
2009 4,9  Nokkuð breytilegt en þó hægviðrasamt
2010 5,2  Góður og mjög hlýr mánuður sem bætti meðalhitametið frá 2003.
2011 4,9  Svalt framan af en hlýnaði síðan ágætlega. Slæmt norðaustanlands.
2012 5,9  Allt við það allra besta. Hlýtt, sólríkt, þurrt og hægviðrasamt. Toppmánuður!
2013 4,4  Sólarlítið og almennt síðra en undanfarin ár. Þó ekki kalt.

 


mbl.is Sviknir um 90 sólskinsstundir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband