Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Nú komið að þeim árlega lið að bera saman snjóalög í Esjunni milli ára með myndum sem allar eru teknar fyrstu vikuna í apríl frá bensínstöðinni Klöpp við Sæbraut. Fyrsta myndin var tekin árið 2006 og með myndinni í ár eru þær orðnar níu talsins. Með hverri mynd læt ég fylgja hvenær Esjan varð alveg snjólaus frá Reykjavík séð. Það voru nokkrir skaflar sem ekki náðu að bráðna í fyrra eftir sumarið ómögulega en annars hefur Esjan náð að verða snjólaus öll sumur frá síðustu aldamótum, nema kannski árið 2011 þegar örlítill skafl varð sennilega eftir í Gunnlaugsskarði. Minnstur var snjórinn árið 2010 og hvarf hann allur það ár um miðjan júlí, sem er mjög snemmt. Spurning hvað verður upp á teningnum í ár. Talsverður snjór var í Esjunni nú í vetrarlok en með hlýindum undanfarna daga hefur mikið gengið á snjóinn. Það er þó heilmikið eftir og meira en verið hefur á sama tíma flest hin fyrri ár sem hér eru til viðmiðunar. Sambærileg snjóalög virðast hafa verið vorið 2008 en þá hvarf snjórinn upp úr miðjum september. Hvað gerist í ár ræðst svo að því hvernig sumarið verður og hvort eitthvað að ráði muni snjóa í efri hlíðar fram eftir vori. Þetta verður allavega tæpt í ár og ræðst sennilega ekki fyrr en alveg undir haust.

 

Esja 3. apríl 2014

Esja 3. apríl 2013

Esja april 2012

Esja april 2011

Esja april 2010

Esja april 2009

Esja april 2008

Esja april 2007

Esja april 2006

 

- - - - -
Í lokin er gráupplagt að minna á myndaseríuna mína Reykjavík alla daga ársins þar sem sjá má Esjuna 365 daga ársins 2011 eins og hún birtist frá Öskjuhlíðinni: http://www.365reykjavik.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Esja kemur bara asskoti vel undan vetri. Hugsanlega er meiri snjór uppi en áður en meðaltalið „virðist“ vera hið sama þessi níu ár.

Bestu þakkir fyrir þessar skemmtilegur myndir þínar og athuganir.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.4.2014 kl. 17:44

2 Smámynd: Már Elíson

Þakka þér fyrir þessa seríu. - Þetta er áhugavert fyrir veðurvita...eins og mig !

Reykjavík alla daga ársins 2011 var mjög gaman að skoða. Ég veit að það er vinna, en hefurðu

hug á að taka annað ár einhverntíma ?

Már Elíson, 6.4.2014 kl. 10:52

3 identicon

Þetta er mjög athyglisverð samantekt:

2006 - 2012, snjór horfinn . . .

2013 - 2014, snjór hvarf ekki.

Loftslagsbreytingar?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 6.4.2014 kl. 10:54

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þakka ykkur sömuleiðis. Hér koma stutt svör:

SS: Esjan kemur alltaf vel undan vetri svo lengi sem hún kemur undan vetri. Skaflar að þessu sinni eru öflugir miðað við þessi síðustu 9 ár. Myndin frá 2011 er ekki alveg marktæk því þá hafði snjóað stuttu áður í efri hlíðar. Eins og við þekkjum þá má alltaf búast við að það snjói stöku sinnum til fjalla fram á vor og jafnvel í byggð.

ME: Það er svo sem ekki á döfinni að taka aðra heilsársseríu af Esjunni en þó er aldrei að vita.

HH: Að snjór hverfi ekki eitt árið skrifast frekar á tíðarfar heldur en loftlagsbreytingar. En þetta er líka breytilegt eftir áratugum. Árin 1970-2000 mun snjórinn til dæmis aldrei hafa horfið í Esjunni frá Reykjavík séð en árin 2001-2010 hvarf hann öll árin. Á hlýindaskeiðinu á síðustu öld hurfu Esjuskaflar alloft en aldrei 10 sumur í röð samkvæmt upplýsingum sem ég hef viðað að mér úr ýmsum áttum. Loftslagsbreytingar eru, eins og við erum ósammála um: Undirliggjandi.

Emil Hannes Valgeirsson, 6.4.2014 kl. 12:41

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir fróðlega færslu Emil. Það er gaman að þessu, þó svo að duttlungar veðurs á hverjum tíma segi nú sennilega mikið til um hvernig Esjan lítur út á tilteknum degi (viku, mánuði, ári) - þá er fróðlegt að skoða þetta. Það er náttúrulega ekki hægt að álykta um loftslagsbreytingar á heimsvísu (ekki einu sinni staðbundið) út frá svona (fáum) myndum (enda aðrir þættir sem komið er inná varðandi þá umræðu almennt) - en þetta er þó fróðleg skjalfesting á hvernig Esjan kemur undan vetri á þessum árum á þessum tíma árs. En allavega, enn og aftur, takk fyrir þetta.

Sveinn Atli Gunnarsson, 6.4.2014 kl. 15:31

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hér þurfa menn að sætta sig við að ég tek út athugasemdir sem snúa ekki að því hvernig Esjan kemur út úr vetri. Já, það er nú bara svoleiðis.

Emil Hannes Valgeirsson, 6.4.2014 kl. 17:20

7 identicon

Góður Emil. Auðvitað má ekki minnast á gagnafúskið hér, það er alltof upplýsandi fyrir almenning. Þá er betra að horfa bara á skaflana í Esjunni :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 6.4.2014 kl. 17:28

8 identicon

sæll,

Það er gaman að sjá þessar myndir og bera saman. Þú virðist hafa gott lag á að stilla myndavélinni þannig upp á sama stað að þú fáir meira og minna alltaf sama sjónarhorn svo myndirnar verði eins.

Ein athugasemd; fjallið heitir Esja, ekki Esjan með greini. Það væri óskandi að þú lagfærðir í samræmi.

kv. Nonni.

Nonni (IP-tala skráð) 6.4.2014 kl. 17:36

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Nonni. Myndirnar eru teknar á svo til sama stað og með dálítið víðara sjónahorni. Ég sker þær síðan til eftir á þannig að þær sýni alveg sama hluta fjallsins.

Fjallið heitir vissulega Esja en hefur þá sérstöðu meðal fjalla að vera gjarnan nefnt með greini. Mér finnst það heimilislegt og hæfa Esjunni ágætlega.

Emil Hannes Valgeirsson, 6.4.2014 kl. 18:56

10 identicon

Sammála EHV varðandi Esjuna:

"Esja (oftast með greini, Esjan) er fjall á Kjalarnesi, sem nú er innan borgarmarka Reykjavíkur, og er eitt af einkennum höfuðborgarsvæðisins." (http://is.wikipedia.org/wiki/Esjan)

"Esjan stendur við Kjalarnes í Reykjavík og er eitt af einkennum höfuðborgasvæðisins." (http://esjustofa.is/esjan)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 6.4.2014 kl. 20:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband