Fjörið að fjara út í Bárðarbungu

Nú er um hálft ár liðið frá því atburðarásin hófst í Bárðarbungu sem leiddi til eldgossins mikla í Holuhrauni. Mjög hefur dregið úr allri virkni upp á síðkastið og spurning hvort umbrotunum fari að ljúka hvað úr hveru. Minnkandi virkni má meðal annars sjá á jarðskjálftakortum Veðurstofunnar en þar hefur allt frá því í ágúst mátt sjá stjörnumerkta jarðskjálfta yfir þremur á stærð á hverju korti og oftast marga slíka með upptök í Bárðarbungu. Nú er þessum stjörnuskjálftum farið að fækka mjög á kortunum en hvert þeirra sýnir skjálftavirkni tvo sólarhringa aftur í tímann, eða 48 tíma. Nú í morgun varð sá tímamótaatburður að enginn slíkur skjálfti var merktur inn, bara minniháttar punktaskjálftar undir þremur að stærð. Væntanlega dettur þó einhver inn fyrr en síðar, en það líður greinilega lengra á milli þeirr en áður.

Bárðarbunga 21. feb 2015

- - - -

Svo við rifjum aðeins upp upphaf atburðanna í fyrra þá hófst fjörið á fögrum sumarmorgni, sem var laugardagurinn 16. ágúst. Þá mátti sjá óvenjuþétta smáskjálftavirkni í Bárðarbungu og augljóst að eitthvað var að gerast eða allavega eitthvað kannski að fara að gerast.

Bárðarbunga 16. jan 2014

Skálftunum fjölgaði og dreifðu sér um stærri svæði og nokkrum dögum síðar voru kortin orðin æði skrautlegt, samanber þetta hér að neðan frá 20. ágúst. Auk virkni í Bárðarbungu var skjálftavirkni farin að færast í norðaustur og ljóst að kvika var á hraðferð. Skildi hún koma upp og þá hvar? Dyngjujökull lá undir grun, eða jafnvel sandarnir þar norður af.

Bárðarbunga 20. jan 2014

Þjóðin fylgdist spennt með. Á Vaðöldu norðaustur af söndunum var gott útsýni yfir vettvanginn og þar var Míla búin að snara upp vefmyndavél og þann 23. ágúst kom frá henni  þessi mynd sem sýnir ókunnan hálendiskappa með rjúkandi foksand í baksýn, en ekkert gos.

Mila 23.ágúst 2014

Sama dag og þessi mynd var tekin var haldin menningarnótt í Reykjavík og komu þá misvísandi fréttir af mögulegu gosi undir jökli sem kannski var ekki gos. Einhverjar sprungur sáust nokkru síðar í jöklinum. Ekki var ljóst hvort eitthvað væri að gerast og ekki alveg vitað um ástæðu þess sem ekki var vitað hvort að væri að gerast.

Að morgni hins 29. ágúst hófst svo loksins gos í Holuhrauni en það stóð engan vegin undir væntingum eftir allan þennan forleik og lognaðist í raun út af fyrir hádegi.

Mila 29.ágúst 2014

Var þetta allt og sumt? Nei reyndar ekki. Síðdegis sama dag og fyrsta haustlægðin herjaði á okkur með stormi og úrhelli, þann 31. ágúst, hófst svo hið eiginlega gos. Það stendur enn – eftir því sem síðast fréttist. Ég á allnokkrar Mílu-skjámyndir af því en þær munu bíða birtingar þar til í næstu bloggfærslu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Því er við að bæta að stuttu eftir birtingu bloggfærslunnar bárust fréttir af þriggjastigaskjálfta. Ekki þó í Vatnajökli, heldur í gömlu góðu Kötlu:

„Í nótt kl. 02:26 (21. feb.) varð grunnur jarðskjálfti að stærð 3,3 undir vestanverðri Kötluöskju. Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið. Engin merki eru um breytingar á vatnshæð eða rafleiðni í nærligjandi ám.“ (VÍ 21. feb. kl. 10:24)

Emil Hannes Valgeirsson, 21.2.2015 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband