Tíðindi af sjávarhitum

Sjávarhiti hefur verið eitt af hitamálunum í loftslagsumræðum einkum þá vegna skrifa um að Golfstraumurinn gæti verið að veikjast. Hvort það eigi við rök að styðjast, veit ég ekki en hér kemur alheimskort yfir sjávarhita sem sýnir stöðuna á hita yfirborðssjávar að viðbættu smá kroti frá mér. Heitu litirnir tákna að sjór er hlýrri en að meðaltali, en köldu litirnir tákna kaldari sjó og er þá tímabilið 1971-2000 haft til viðmiðunar.

Sjávarhiti mars 2015

Þarna má sjá, svo við við byrjum á okkar slóðum, að nokkuð myndarlegur blettur af köldum yfirborðssjó hefur náð bólfestu á hafssvæðinu suðvestur af íslandi. Þetta sætir nokkrum tíðindum og gæti verið vísbending kaldari tíð hér við land en verið hefur um allnokkuð skeið. Best er þó að fullyrða sem minnst um það, en síðustu 15 ár hafa reyndar verið mjög hlý hér við land og því ekkert óeðlilegt að eitthvert bakslag geti orðið.

En er þetta vísbending um veikari Golfstraum? Ég er ekki svo viss um það. Síðustu tvo vetur hafa verið töluverðar vetrarhörkur í austurhluta N-Ameríku og ekki óeðlilegt að það kalda heimskautaloft kæli Atlantshafið þegar það streymir burt frá meginlandinu og leggur um leið grunninn að stormlægðum og útsynningstíðinni sem við fáum að kenna á.

Ýmist athyglisvert er svo einnig að gerast á Kyrrahafinu og skal þar fyrst nefna veikburða El Nino sem hefur verið að burðast við að ná sér á strik á síðan í fyrravetur. Það hlýja ástand á miðbaugssvæði Kyrrahafsins er oftast ávísun á hnattræn hlýindi og svo er einnig nú. Eins og komið hefur fram þá marði árið 2014 það að vera hlýjasta árið hnattrænt séð síðan mælingar hófust og vel gæti farið að 2015 bæti um betur.

Svo er það Norður-Kyrrahaf en þar hef ég merkt inn hlýjan fasa af PDO (Pacific Decatal Oscillation) en það er nokkuð athyglisvert fyrirbæri sem ég hef stundum minnst á. Hlýr fasi á PDO einkennist akkúrat af því sem kemur fram þarna á kortinu, þ.e. hlýr sjór sem myndar skeifu út frá vesturströnd N-Ameríku en kaldur blettur ræður ríkjum á miðsvæðinu nær Asíu. Kaldi fasinn er svo alveg öfugur. Þessi hlýi fasi er nokkuð afgerandi um þessar mundir og hefur reyndar ekki verið eins afgerandi síðan fyrir aldamót. Það sem af er þessari öld hefur nefnilega kaldi PDO verið meira ríkjandi. PDO-sveiflurnar eru ágætlega þekktar og eru greinilegar á áratugaskala eins og sést á línuritinu hér að neðan:

PDO 1900-2015

Það hefur oft verið bent á, þótt samhengið sé óljóst, að PDO-áratugasveiflan í Kyrrahafinu fari saman við það hversu mikið eða lítið hlýnar á jörðinni. Þetta sé því ein af hinum náttúrulegum sveiflum sem ýmist ýta undir eða draga úr þeirri hlýnun jarðar sem annars ætti að vera í gangi. Vissulega er þó alltaf spurning um hvað sé orsök og hvað sé afleiðing. Allavega þá hefur lítið hlýnað á jörðinni í kalda PDO-fasanum eftir 1998, kannski þar til nú. Aftur á móti hlýnaði hratt á árunum 1976-1998 þegar PDO var hlýr eins og hann er skyndilega orðinn nú. Áratugina þar á undan (1945-1975) hlýnaði eiginlega ekki neitt á jörðinni, kólnaði ef eitthvað er og viti menn, PDO-var einmitt mjög svo í kalda fasanum þá. Línuritið yfir hitaþróun jarðar staðfestir það.

Hnatthiti 1900-2015+PDO

Þannig að. Ef þetta hlýja PDO ástand er komið til að vera um skeið, þá ætti heldur betur að fara að hlýna á jörðinni enda virðist hlýr PDO í Kyrrahafinu frekar stuðla að hlýjum El Ninjóum og fækka köldu systurinni La Nínu. Við hér á Íslandi gætum þó farið á mis við þá hlýnun á komandi misserum. En kannski þó ekki, kannski verður þetta allt alveg öfugt. Framtíðin er alltaf jafn ófyrirséð.

Til nánari glöggvunar vísa ég hér á útlensk PDO-skrif frá því í fyrra þar sem komið er inn á þetta. Er að vísu ekki búinn að lesa þetta allt sjálfur. Ath. Inngangurinn er ekki alveg "up-to-date": Warming may spike when Pacific Decadal Oscillation moves to a positive phase

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú verður nú að útskýra þetta betur Emil, þ.e. að það hafi lítið hlýnað á jörðinni eftir 1998. Ég hef a.m.k. talið mér trú um að mikil hlýnun hafi einmitt orðið um 1998 og haldist hlýtt síðan (var ekki einmitt El Nino í hámarki um aldamótin?).

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 28.3.2015 kl. 09:13

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Um eða eftir. Það er munurinn. 1998 var undir sterkum áhrifum öflugs El Nino og var langhlýjasta árið sem þá hafði mælst. Í kjölfarið kom svo upp nokkuð kalt La Nina ástand sem gerði árin 1999 og 2000 mun kaldari. Lítið hefur hlýnað eftir 1998 en nokkur vægari El Nino ár eru þó álíka hlý eða örlítið hlýrri Það virðst allavega þurfa mun vægara El Nino ástand en áður til að koma heimshitanum í hæstu hæðir.

Emil Hannes Valgeirsson, 28.3.2015 kl. 10:33

3 identicon

Ok.

Hér er svo spá sem virðist í samræmi við það sem þú segir Emil. Sumarið verði hlýtt um allan hnöttinn en þó nálægt hinu hefðbundna á Norðurslóðum (Íslandi, Bretlandseyjum og Vestur- og Norður-Evrópu):
http://www.vg.no/nyheter/innenriks/vaer-og-uvaer/spaar-varm-sommer-kloden-rundt/a/23418784/

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 28.3.2015 kl. 22:50

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já, takk fyrir þetta. Maður vill fara varlega í spár en samkvæmt þessu öllu saman þá gæti 2015 orðið kaldasta árið á Íslandi það sem af er öldinni, en á sama tíma hlýjasta árið á jörðinni.

Emil Hannes Valgeirsson, 28.3.2015 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband