Í hvað stefnir Reykjavíkurhitinn 2015?

Í fyrra tók ég upp á því að birta súlurit sem sýndi hvernig meðalhiti mánaðana í Reykjavík þróaðist yfir árið eftir því sem á það leið. Til viðmiðunar voru meðalhitar síðustu 10 ára og kalda opinbera meðaltalið 1961-1990 sem enn er í gildi. Þetta reyndist nokkuð áhugavert því árið þróaðist í að verða annað hlýjasta árið í Reykjavík og átti möguleika þar til í lokin að slá út metárið 2003 (6,1°C).
Nú þegar 5 mánuðir eru liðnir af árinu er staðan hinsvegar heldur betur önnur. Fjórir af þessum fimm fyrstu mánuðum hafa verið kaldari en kalda meðaltalið og ekki munaði miklu í mars sem rétt náði að slefa yfir það. Allir mánuðir ársins hafa að sama skapi verið nokkuð fyrir neðan meðalhita síðustu 10 ára og munar mestu nú í maí sem var 2,4 stigum kaldari, eins og sjá má á súluritinu.

Meðalhiti Rvik 5 2015
Súluritið sýnir ekki einungis hvernig mánaðarhitinn þróast því lengst til hægri eru nokkrar súlur yfir árshita. Þar vek ég athygli á fjólubláu tónuðuðu súlunum sem segja til um hvert stefnir með árshitann eftir því hvort framhaldið er reiknað út frá kalda meðaltalinu eða meðalhita síðustu 10 ára. Tölurnar sem út úr því koma eru 4,2°C og 4,8°C samkvæmt mínum útreikningum. Lægri talan (4,2) er merkileg því það þýddi að árið 2015 yrði langkaldasta árið það sem af er öldinni og það kaldasta síðan 1995 þegar hitinn var 3,8 stig. Ef hitinn hinsvegar nær sér á strik á ný og fylgir 10 ára meðaltalinu þá endar árið í 4,8 stigum sem er öllu skaplegra en þó það kaldasta síðan árið 2000 er hitinn var 4,5 stig.

Við vitum náttúrulega lítið um framhaldið. Ef kuldatíð ríkir áfram út árið er alveg mögulegt að árshitinn í Reykjavík nái ekki 4 stigum. Það er heldur ekki útséð með 5 stigin ef veðurkerfin stilla sér betur upp fyrir okkur - ekki skortir á hlýindin í heiminum um þessar mundir. Það má þó alveg afskrifa að árið 2015 ógni hlýindárinu 2014 sem sýnt er þarna með grænni súlu allra lengst til hægri.

Allt er þetta hið merkilegasta mál og ekki óeðlilegt að menn velti fyrir sér hvort hlýindatímabilinu mikla sem hófst með þessari öld sé lokið eða hvort þetta sé bara tímabundið bakslag sem jafnar sig á ný. Hlýindakaflinn undanfarin 14 ár hefur verið einstakur og hreint ekkert óeðlilegt að fá einhverja kólnun. Þetta er hinsvegar nokkuð brött kólnun og það strax eftir mjög hlýtt ár. Kuldamet eru þó varla í sjónmáli. Nema ef vera skyldi kólnunarmet á milli ára því mér sýnist að ef meðalhitinn 2015 í Reykjavík endaði undir 4,5 stigum þá yrði það mesta kólnun sem um ræðir á milli ára ef horft er á tímabilið eftir aldamótin 1900. Við erum þó kannski ekkert sérstaklega að óska eftir slíku meti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

 Athyglisvert

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.6.2015 kl. 23:26

2 Smámynd: Hörður Þórðarson

Grænlandsjökullinn bráðnar sífellt hraðar. Meira af köldu, fersku og þar með léttu vatni (sem getur legið yfir þyngri, saltari en hlyrri sjó) berst út í hafið umhverfis Grænland. Ekki væri ég hissa ef þetta hefði áhrif á hitastigið á Íslandi... Risastór ísmoli er að bráðna... Ég býst við því að kuldatrúarmenn haldi miklar hátíðir og gleðjist yfir þessu.

Takk, Emil.

Hörður Þórðarson, 2.6.2015 kl. 01:16

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þessi kólnun stafar nú sennilega bara af því að loft frá köldum slóðum hefur verið ríkjandi hér á landi síðan í desember en almennilegur skammtur af hlýju lofti hefur varla borist hingað síðan í nóvember sl. sem var mjög hlýr mánuður. Það má líka tengja þetta við sjávarkólnunina í Norður-Atlantshafi sem stafar af þrálátri útrás af köldu lofti frá Kanada í sl. vetur sem aftur tengist því veðurlagi sem ríkt hefur í N-Ameríku með köldu veðri við norðausturhluta N-Ameríku, miklum hlýindum í Alaska og þrálátum þurrkum og hlýindum við vesturströndina.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.6.2015 kl. 09:42

4 identicon

Þessi kólnun stafar nú sennilega bara af því að gervivísindi IPCC standast ekki Emil Hannes Valgeirsson, en auðvitað tipla bræðslumenn kringum þá staðreynd eins og heitan graut.

Kólnandi veðurfar drepur tuttugusinnum fleiri jarðarbúa en hlýnandi veðurfar, samkvæmt nýrri ritrýndri vísindagrein. Kólnandi veður á Íslandi er dauðans alvara - ávísun á versnandi þjóðarhag og samdrátt hjá almenningi.

Ég hef leyft mér að benda á komandi kuldaskeið í nokkur ár og fengið glósur og yfirlæti ykkar heimsósómahugsauða fyrir. Það fer að vera spurning hver er í afneitun ef svo fer fram sem horfir.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 3.6.2015 kl. 20:36

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sem sagt, kólnunin stafar af því að gervivísindi IPCC standast ekki. Mér finnst nú vænlegra að leita skýringa út frá veðuraðstæðum.

Emil Hannes Valgeirsson, 3.6.2015 kl. 22:03

6 Smámynd: Hörður Þórðarson

"Þessi kólnun stafar nú sennilega bara af því að gervivísindi IPCC standast ekki"

Það er gott að fá þessa vísindalegu skýringu á kuldanum, takk, Hilmar. Þú hefur kannski ekki tekið eftir þessu:

http://thinkprogress.org/climate/2015/05/22/3662117/2015-hottest-year-record-so-far/

"Last week NASA reported that this has been the Earth’s hottest January-April on record. This week, the National Oceanic and Atmospheric Administration (NOAA) confirmed that finding with its latest monthly report on global temperatures.'

Hvar er þetta "komani kuldaskeið", Hilmar?

Hörður Þórðarson, 3.6.2015 kl. 22:37

7 identicon

Án þess að ég vilji vera að þrátta við trúaða menn, EHV og HÞ, þá fer ég vinsamlegast fram á að menn sleppi útúrsnúningum og GISS-kunum.

Gervivísindi IPCC standast ekki, það er dagljóst. Meintir "vísindamenn" Veðurstofu Íslands hafa spáð allt að 6°C hlýnun á Íslandi á þessari öldi, í anda voodoo-vísinda IPCC. Íslendingar eru að ganga (hrapa) inn í kólnunarskeið.

"Last week NASA reported..." Þetta er orðinn ósköp þreyttur frasi HÞ - jafnvel heittrúaðir hljóta að sjá í gegnum uppsláttinn að Parísarráðstefnunni í lok þessa árs.

Reyndar get ég upplýst ykkur um að NASA gaf það út árið 1971 að einungis 50 - 60 ár væru í næstu ísöld. Samkvæmt "óskeikulum" útreikningum NASA eru því einungis 5 ár í ísöldina - og það er byrjað að kólna!

https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10206867866123586&set=gm.848897598515006&type=1

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 4.6.2015 kl. 10:02

8 Smámynd: Hörður Þórðarson

Ég má til með að benda á þessa góðu færslú frá ÓR:

http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1778009/

Hvað varðar Hilmar, þá telur hann líklega að hitastigið á heimsvísu fari einungis hækkandi vegna Parísarráðstefnunnar. Enda miklu sennilegri skýring en hlýnun af mannavöldum...

Hörður Þórðarson, 4.6.2015 kl. 19:23

9 identicon

Hækkun hitastigs í heiminum í tengslum við Parísarráðstefnuna er einmitt gott dæmi um Mann-gerða hnatthlýnun, Hörður Þórðarson.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 4.6.2015 kl. 19:37

10 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Til að skoða hitamálin í víðara samhengi þá er þetta staðan í dag, 4. júní. Allt í plús á heimsvísu.

http://emilhannes.blog.is/users/03/emilhannes/img/screen_shot_2015-06-04.jpg

Emil Hannes Valgeirsson, 4.6.2015 kl. 20:00

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Var 1979-1994 ekki mun kaldara á heimsvísu en 1997-2012?

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.6.2015 kl. 22:25

12 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Jú ætli það ekki, en það má kannski frekar orða það þannig að tímabilið 1997-2012 hafi verið enn hlýrra en 1979-1994. Talan +0,84°C er mjög há í ljósi þess að hlýnun jarðar síðustu 100 ár er eitthvað um 0,7 til 0,8 stig. Allavega þá er mjög hlýtt á jörðinni um þessar mundir hvað sem líður kuldum á okkar slóðum.

Emil Hannes Valgeirsson, 4.6.2015 kl. 23:08

13 identicon

Já Emil, við skulum skoða hitamálin í víðara samhengi:

Miðað við UAH v6 gervihnattamælingar 1979 - maí 2015.

Jörðin: Engin hlýnun í 18 ár og 4 mánuði!

Norðurheimskautið: Engin hlýnun í 13 ár og 2 mánuði!

Norðurhvel jarðar: Engin hlýnun í 18 ár og 2 mánuði!

Hitabeltið: Engin hlýnun í 21 ár og 8 mánuði!

Suðurhvel jarðar: Engin hlýnun í 20 ár!

Suðurheimskautið: Engin hlýnun í 35 ár og 9 mánuði!

 

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 5.6.2015 kl. 00:16

14 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

En það er allavega hlýtt núna.

Emil Hannes Valgeirsson, 5.6.2015 kl. 00:26

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Hún snýst nú samt!" wink

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.6.2015 kl. 08:39

16 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já, hún snýst og snýst. En ef einhverjir sakna hér athugasemda þá verður bara að hafa það enda eiga umræður að snúast um það sem tengist bloggfærslunni en ekki hvað einhver sagði um einhvern einhverntíma.

Emil Hannes Valgeirsson, 6.6.2015 kl. 20:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband