Frá Sólinni í Reykjavík til Plútó á Suðurlandi

Stærðir og fjarlægðir í himingeiminum er með þeim hætti að gott getur verið að setja þær í eitthvað jarðneskt samhengi sem við þekkjum, en það er einmitt það sem ég ætla að reyna hér. Í fréttum undanfarið varðandi dvergstjörnuna og fyrrum reikistjörnuna Plútó, hefur komið fram að hlutfallsleg stærð hennar gagnvart Jörðu sé álíka og golfkúla gagnvart fótbolta. Út frá þeim upplýsingum datt mér í hug að taka samanburðinn lengra og reikna út restina af sólkerfinu ásamt fjarlægðum í sama skala.

Sól, Jörð og Plútó

Ef Jörðin er fótbolti og Plútó golfkúla þá reiknast mér til að þvermál sólarinnar sé um 24 metrar og mætti því líkja henni við myndarlegan loftbelg, kannski af stærri gerðinni. Sé þessi guli loftbelgur settur niður á miðjan Austurvöll, er í framhaldinu hægt að reikna hvar reikistjörnurnar eru niðurkomnar í sama hlutfallslega skala og raða þeim upp austur eftir borginni og lengra austur í sveitir þar til við komum að litlu golfkúlunni einhverstaðar lengst á miðju Suðurlandi, eins og ég geri nánar grein fyrir neðan myndar.

Sólkerfi Suðurland

Guli Sólar-loftbelgurinn myndi sóma sér vel beint fyrir ofan Jón Sigurðsson á miðjum Austurvelli. Þaðan höldum við á vit reikistjarnanna og gefum okkur að þær raði sér í beinni línu frá sólinni. Byrjum á að ganga upp Skólavörðustíginn og upp á Skólavörðuholtið. Þar rétt handan Hallgrímskirkju, hittum við fyrst fyrir Merkúr, á stærð við appelsínu í brennandi sólarhitanum. Áfram er haldið í sömu átt þar til komið er að Venusi á miðju Klambratúni. Hann er ögn smærri en Jörðin sem einmitt er að finna í fótboltastærð við Kringlumýrarbraut. Við höldum áfram og komum að Mars sem er eins og brennó-bolti að stærð, nálægt Hagkaupum í Skeifunni.

Nú fara fjarlægðir að aukast og við erum komin út fyrir borgina nálægt bænum Gunnarshólma eða Silungapolli, þegar við komum að Júpíter sem stærðarinnar bolta, um 2,4 metrar í þvermál. Satúrnus með sína fögru hringi er síðan skammt frá Litlu kaffistofunni, heldur minni en Júpíter eða um 2 metrar á stærð. Enn aukast fjarlægðir er við förum að nálgast ystu reikistjörnurnar. Úranus er þarna stuttu áður en komið er að Ölfusárbrú tæpir 90 cm að breidd og loks Neptúnus, litlu minni, stutt frá Hellu. Þá er bara eftir að finna Plútó-litla í golfkúlustærð sem getur verið dálítil snúið því fjarlægðin frá sólu er breytileg vegna sporöskjulaga brautargöngu. Hann getur verið rétt innan við sporbaug Neptúnusar en þegar Plútó er fjærst sólu, gætum við þurft að leita hans langleiðina að Skógarfossi. Meðalfjarlægðin í þessum hlutfallsskala er hinsvegar um 102 kílómetrar og getum því sagt að að meðaltali gætum við fundið litlu Plútó-golfkúluna svona rétt við afleggjarann að Austur-Landeyjum. Við erum þarna komin nokkuð langt frá loftbelgnum niðrí Reykjavík en þó ekki nema eitt örlítið hænuskref í gjörvöllum víðáttum alheimsins enda dugar þá litla Íslandið okkar skammt sem viðmiðun.

- - -

Útreikningar er gerðir út frá tölulegum heimildum af Stjörnufræðivefnum og birti ég þetta með þeim fyrirvara að reiknikúnstir hafi ekki brugðist mér.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband