Svakalega hlýtt yfir jörðinni í febrúar

Ég minntist eitthvað á það í lok janúar að fróðlegt yrði að sjá hvernig gervitunglamælingar á hita jarðar myndu bregðast við El-Nino ástandinu í Kyrrahafinu. Nú eru tölur fyrir febrúarmánuð komnar í hús og niðurstaðan er skýr: Stórt stökk upp á við og svo mikið reyndar að enginn mánuður, frá upphafi gervitunglamælinga árið 1979, mælist með meira frávik frá meðalhita. Þetta má sjá á línuritinu sem sýnir þróun hitans í neðri hluta lofthjúps en samkvæmt gervitunglamælingum UAH (University of Alabama in Huntsville) mældist febrúar 0,83°C yfir meðallagi. UAH er annar tveggja aðila sem framkvæmir svona gervitunglamælingar. Hinir aðilarnir koma frá Kaliforníu og skammstafast í daglegu tali RSS (Remote Sensing System). Þeir hafa einnig birt sínar febrúartölur og er þær reyndar enn hærri eða +0,97°C.

UAH febrúar 2016

Fram að þessu höfðu hlýindi fyrri hluta árs 1998 borið höfuð og herðar yfir aðrar uppsveiflur og gnæft yfir allt annað eins og illsigranlegur hraundrangi sem minnir útlitslega á þann sem finna má í Öxnadal. Nú er hins vegar kominn annar toppur, enn hærri. Spurning er síðan hvort toppnum sé náð í ljósi þess að það var aprílmánuður sem toppaði árið 1998. Það er þó vel mögulegt að toppnum sé náð núna en óvenjumikil hlýindi á norðurslóðum eiga sinn þátt að hlýindum að þessu sinni og hefur hafísinn einmitt fengið að kenna á því. Sumir binda þó vonir við komandi La Nina ástand sem óhjákvæmilega tekur við næsta vetur og ljóst að hitaferillinn skilar sér þá aftur niður – jafnvel niður fyrir núllið.

Nú er það svo að vantrúarmönnum um hlýnun jarðar af mannavöldum, hefur verið tíðrætt um að ekkert hafi hlýnað á jörðinni í einhver 18 ár. Sú fullyrðing hefur einmitt verið rökstudd útfrá niðurstöðum gervitunglaathugana á vegum UAH og RSS sem ber nokkuð vel saman nú um stundir. Það eru einmitt 18 ár síðan síðasta stóra uppsveifla var í hitagögnum þessara aðila og eins og nú kom sú mikla uppsveifla í kjölfar mjög öflugs El Nino ástands í Kyrrahafinu. Hitatoppurinn núna kemur því ekki á óvart. Það má segja að fastlega hafi verið búist honum enda búið að vera öflugt El Nino ástand undanfarið og vitað að hiti í neðri hluta lofthjúps er mjög næmur fyrir þessum El Nino/LaNina sveiflum í Kyrrahafinu. 18 ára pásunni í þessum gagnaröðum er allavega lokið, hvað sem síðar verður.

Um áreiðanlega gervitunglagagna umfram hefðbundnar mælingar á jörðu niðri má alltaf deila enda er eitthvað gert af því. Þær gagnaraðir sem byggja á mælingum á jörðu niðri sýna heldur meiri hlýnun eftir 1998 og samkvæmt þeim var árið 2015 afgerandi hlýjasta árið. Gervitungl mæla ekki hitann við yfirborð jarðar en leggja í stað þess áherslu hitann í 1 til 8 km hæð. Þetta er því alls ekki sama loftið sem er verið að mæla. Báðar aðferðirnar segja þó sína sögu en eiga vissulega báðar við sín vandamál að stríða, þurfa leiðréttinga við og eru sífellt í endurskoðun. UAH gagnaröðin sem nú er í notkun heitir t.d. Version 6,0 beta5. Það má koma fram að umsjónarmenn hennar eru þekktir sem vel volgir efasemdamenn um hlýnun jarðar af mannavöldum og eru því í mismiklum metum eftir því hver dæmir. Síðasta stóra endurskoðunin kom fram í fyrra og er ennþá í prufukeyrslu. Í þeirri endurskoðun var hiti síðustu ára lækkaður dálítið þannig að hlýnunin eftir 1998 varð nánast engin. UAH gagnaröðin varð þar með líkari RSS gagnaröðinni sem einmitt sýndi litla eða enga hlýnun eftir 1998. Teikn eru þó á lofti um að RSS-menn séu að uppfæra sína gagnaröð í átt til meiri hlýnunar eftir 1998 og þá meira í áttina að athugunum á jörðu niðri. Þeir sem taka saman gögn um þróun hita yfirborðs jarðar hafa einnig gengið í gegnum sínar endurskoðanir og þá gjarnan í átt til meiri hlýnunar, eins og tilfellið var á síðasta ári (t.d. NASA-Giss, NOAA og HadCrud). Sjálfsagt hafa menn sínar ástæður fyrir þessum endurskoðunum. Í tilfelli gervitunglamælinga eru menn til dæmis að glíma við misgömul og misáreiðanleg gervitungl í þessum nákvæmisvísindum (sbr. greinargerð frá Roy Spencer hjá UAH: Version 6.0 of the UAH Temperature Dataset Released og þessi tilkynning frá RSS: Release of RSS V4.0 TMT and TTT Air Temperature Data)


En flækjum þetta ekki meira. Hlýjasti mánuður í sögu gervitunglamælinga er nýliðinn febrúar – og úr því að þeir hjá UAH segja það þá hlýtur það að vera rétt. Niðurstöður athugana á jörðu niðri liggja fyrir síðar í mánuðinum.

Best að enda þetta á myndinni hér að neðan frá honum Bob Tisdale þar sem borin er saman hitaþróun jarðar frá 1979 til janúar 2016 samkvæmt athugunum gervitungla og yfirborðsmælinga. (Ath. hér er febrúar 2016 ekki kominn inn)

Graf Bob Tisdale


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Konungs annáll 1340: Vetur svo góður að menn muna vart annað.

Skálholts annáll 1340: .Vetur svo góður að enginn mundi annan slíkan. Fundust egg undan fuglum í Flóa nær miðri gói, á öskudaginn og oftar síðan a einmánuðum.

Ég spekúlera oft hvort þessum annálum hafi aldrei verið flíkað í sambandi við gróðurhós áhrif af mannavöldum en þessi annáll er veður útdráttur

Íslenskir annálar og aðrar gamlar veðurheimildir.

Uppskrift.Sigurður Þór Guðjónsson. 

Valdimar Samúelsson, 5.3.2016 kl. 19:19

2 identicon

Hver er ástæðan fyrir þessum óvenjulega köldum og snjóþunga vetri á meðan það er svona heitt alls staðar i kringum okkur?

albert (IP-tala skráð) 5.3.2016 kl. 21:13

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er nú þannig að þegar við tölum um meðalhita á jörðinni þá er það öll jörðinn sem er undir. Hiti á einstökum stöðum eins og á Íslandi getur hagað sér allt öðruvísi en á jörðinni í heild. Við höfum vissulega farið á mis við hlýindi sem hafa verið víða umhverfis okkur í vetur enda vill það gjarnan vera svo að kuldatíð á Íslandi þýðir gjarnan hlýindi víða í Evrópu. 

En svo eru alltaf sveiflur í þessu frá ári til árs og tíðarfar er fljótt að breytast til hins verra eða hins betra. Úr sömu heimild og Valdimar vísar í er þetta sagt um árið 1341:

"1341. V. Skálholtsannáll: Snjó vetur svo mikill fyrir sunnan land að engi vissi dæmi til annas þvílíks. Lagði á fyrir vetur og hélst til sumars og fylgdi fjárfellir mikill alls háttar. "

Emil Hannes Valgeirsson, 5.3.2016 kl. 23:08

4 identicon

ekki er það heitara a Íslandi og ekki i Astraliu kannski er það bara  i háloftunum þar sem venjulegt fólk er ekki með hitamæla

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 6.3.2016 kl. 03:41

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Emil. Veistu hvort það hafa farið framm einhverjar mælingar á rakastigi á 5 kílómetra dýpi síðustu 30 - 40 árin, og þá hvort þar gæti verið um einhver frávik frá meðaltalinu að ræða?

Magnús Sigurðsson, 6.3.2016 kl. 07:44

6 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Sæll Emil og þakka þér margt ágæt. 

Það hefur bæði verið kaldara og heitara á jörðinni áður en menn urðu til og við landnám á Íslandi þá voru Jöklar mun minni en þeir eru í dag og fara þeir nú aftur minnkandi.

Ég hef þess vegna ekki verulegar áhyggjur af hitastiginu en því meiri áhyggjur  af þessu sískítandi fólki sem þegar er orðið allt of margt og mengar höfin.   

Hrólfur Þ Hraundal, 6.3.2016 kl. 08:39

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já, venjulegt fólk er yfirleitt með sína hitamæla heima hjá sér og nokkuð nálægt jörðu. Kvikasilfrið þokast misvel upp eftir því hvar fólk býr sumstaðar dregst það saman, jafnvel þótt um sé að ræða heitasta mánuð sem mælst hefur á jörðinni. En þessi methiti er þó ekki bara í háloftunum. Í hefðbundnari hitamælahæð er meðalhiti jarðar búinn að vera í methæðum síðustu mánuði og hlýjasta árið var í fyrra.

Ég skil ekki hvað Magnús er velta fyrir sér nema ef átt er við rakastig í 5 km hæð en ekki dýpi. Sjálfsagt eru til mælingar um það. Raki í lofti getur aukist með auknum hita, því heitt loft getur innihaldið meiri raka en kalt loft. Rakastigið sjálft þarf þó ekki endilega að aukast.

Það hefur verið vissulega bæði verið mun kaldara og heitara á jörðinni til forna. Eftir að síðasta jökulskeiði lauk hurfu jöklar á Íslandi nær alveg en svo fóru þeir smám saman að myndast á ný og stækka með ýmsum hléum og tilbrigðum og voru stærstir nálægt aldamótunum 1900. Þessi langtímaþróun á stækkun jöklanna er í samræmi við það að á hærri breiddargráðum hefur hádegissólin verið að lækka á lofti að sumarlagi síðustu árþúsundin og mun halda því áfram nokkur árþúsund í viðbót vegna  langtímasveiflna í halla jarðar gagnavart sólu. Heimskautsbauginn er því alltaf að færast örlítið norðar með hverju ári. Auk þess er svo önnur langtímasveifla sem veldur því að jörðin er núna fjærst sólu þegar sumar er á norðurhveli. Samanlagt ætti þetta að valda stækkandi jöklum nema eitthvað annað komi til - eins og til dæmis aukinn gróðurhúsaáhrif.

Menn geta haft áhyggjur af hinu og þessu. En jafnvel þótt engin ástæða sé til að hafa áhyggjur þá eru ný heimsmet alltaf merkileg. Heimsmet í stangarstökki er til dæmis merkileg út af fyrir sig þótt það raski ekki ró okkar.

Emil Hannes Valgeirsson, 6.3.2016 kl. 11:52

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er ekki nema von að þú skiljir ekki svona pælingu Emil, því að rakastigið á 5 km dýpi snertir okkur sennilega lítið sem ekki neitt, en ef það færi stöðugt hækkandi í 5 km hæð mættum við biðja fyrir því að himnarnir hryndu ekki í höfuðið á okkur einn daginn.

Magnús Sigurðsson, 6.3.2016 kl. 12:35

9 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

RSS er víst búið að uppfæra reikniaðferðir sínar enda hefur lengi legið fyrir grunur um að þeir hafi verið með innbyggða skekkju sem jókst með tímanum til kólnunaráttar.

Línurit yfir RSS niðurstöður má finna hér:
http://images.remss.com/msu/msu_time_series.html

Meðalhitun á áratug þessi 36 ár sem mælt hefur verið er uþb. 0,17 gráða.

Þó ekki sé auðvelt að sjá það berum augum á línuritinu frá UAH efst á síðunni hjá þér þá sýnir sú reikniröð hlýnun upp á 0,12 gráður á sama tíma.

Svo varðandi núverandi El Nino og hvað tekur við: Tvær misvísandi nálganir í spáforritum leiða til mismunandi niðurstaðna. Önnur nálgunin gerir vissulega ráð fyrir að La Nina taki við á seinni hluta ársins, en önnur nálgunin sýnir að byrji að hlýna aftur á seinni hluta árs - að ENSO verði áfram í jákvæðum fasa út árið og fram á næsta ár. Báðar spárnar má finna hér: http://www.cpc.ncep.noaa.gov/products/analysis_monitoring/lanina/enso_evolution-status-fcsts-web.pdf

Fyrri spáin heitir IRI/CPC og er sú sem stuðst er við opinberlega. Hana má finna á glæru 24, seinni spáin heitir NCSP CFS og er á glæru 25.

Brynjólfur Þorvarðsson, 6.3.2016 kl. 16:11

10 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Í sambandi við RSS þá hafa þeir uppfært hluta af sínum gögnum með nýjum reiknaðferðum, þ.e.Mid-Trophospere (TMT) og Tropical Trophospere (TTT) sem heita núna 4,0. En samkvæmt núverandi upplýsingm er Lower-Trophosphere (TLT) ennþá óbreytt en það er einmitt það sem oftast er vísað í og er sambærilegt línuritinu sem ég birti fyrir UAH. Samkvæmt linknum frá RSS sem ég er með í pistlinum stendur greinilega til að leiðrétta það líka.

Sjáum til með La Nínu. Venjan er sú að slíkt ástand komi upp í kjölfar El Nínó en svo virðist sem hlutlaust ástand sé nú allt eins líklegt í haust samkvæmt spám.

Emil Hannes Valgeirsson, 6.3.2016 kl. 16:52

11 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Það virðist sem helstu rök þeirra sem afneita hnattrænni hlýnun sé að hrynja til grunna. Hingað til hafa þeir getað sérvalið gögn frá gervihnöttum og tímabundnar sveiflur í hafísnum hafa stundum verið þeirra haldreipi - en núna er eiginlega ekkert fyrir þá til að halda í, nema einstaka fréttir af snjó hér og þar og jú, kaldi pollurinn við Ísland.

Höskuldur Búi Jónsson, 7.3.2016 kl. 10:46

12 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Menn finna alltaf eitthvað, eins og að það hafi verið hlýtt til forna, kalt á Íslandi núna, þetta séu bara náttúrulegar sveiflur, allt sólinni að kenna eða þakka, það sé alveg að fara að kólna, hitamælingar séu svindl og svínarí og síðast en ekki síst að það sé bara fínt að það hlýni í heiminum (sérstaklega hjá okkur). 

Emil Hannes Valgeirsson, 7.3.2016 kl. 17:25

13 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Rétt hjá þér - en það eru sífellt fleiri sem sjá í gegnum slíka afneitun. Verst væri samt ef næsti forseti USA reynist afneitari.

Höskuldur Búi Jónsson, 8.3.2016 kl. 09:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband