Um stokka og steina ofan Bústaðavegar

Eins og stundum gerist hér á síðunni skal nú boðið upp á myndaspjall þar sem gengið er um eitthvert svæði borgarinnar og því lýst í máli og myndum sem fyrir auga ber. Að þessu sinni er það svæðið ofan Bústaðavegar sem stundum er kallað Litlahlíð og er einskonar litla systir Öskjuhlíðar. Á þessari litlu hlíð er víðsýni mikið, margt að skoða og líka margt sem hægt er að hafa skoðanir á. Þannig að þótt gönguferðin sé stutt er bloggfærslan frekar löng. Dagurinn er 7. júlí 2017.


Stígur Perla
Upphaf leiðangursins er þessi stígur sem liggur upp hlíðina og þegar litið er um öxl í vesturátt blasir Öskjuhlíðin við. Bústaðavegurinn aðskilur þessar tvær hæðir en Litluhlíð má þó kannski skilgreina sem hæðardrag. Stígurinn er lagður ofaná gamla hitaveitustokkinum sem veitir heita vatninu austan úr sveitum og upp í tankana undir Perlunni. Allt er í mikilli sumargrósku og eins og sést þá hefur lúpínan breitt úr sér sitt hvoru megin stígsins.


Hvalbök
Ekki þarf að ganga langt eftir stígnum þar til þessar sérstöku klappir blasa við. Þetta eru svonefnd hvalbök - menjar ísaldarjökulsins sem hér lá yfir þar til fyrir um 10 þúsund árum. Samkvæmt upplýsingaskilti er þetta um leið einskonar umhverfislistaverk er nefnist Streymi tímans, eignað listakonunni Sólveigu Aðalsteinsdóttur sem ákvað að svipta gróður- og jarðvegshulunni frá klöppunum svo þær fái notið sín. Hér áður stóð myndastytta Ásmundar Sveinssonar, Vatnsberinn, sem var fluttur niðrí bæ sem þótti meira við hæfi enda voru víst ekki margir slíkir hér á ferð á gullöld hinna eiginlegu vatnsbera.


Vatnstankur framhlið
Vatn kemur þó aldeilis hér við sögu því auk heitavatnsleiðslunnar er þarna einnig heilmikill geymir fyrir kalda vatnið - eða kaldavatnstankurinn - sem skartar þessu tilkomumikla súlnaverki á framhlið og gefur byggingunni fallegan klassískan svip.


Vatnstankur þak
Auðvelt er að komast upp á tankinn og þar er víðsýni til allra átta. Sérstakt er að standa ofan á hinu stóra og slétta þaki tanksins sem þakið er grjóti. Hér er horft í austur og sér til Hengils og Vífilsfells. Loftið er óstöðugt. Bólstraskýjað með köflum og úrkoma í fjarska, kannski of langt i burtu til að flokkast sem úrkoma í grennd. Þeir vita það sjálfsagt hjá Veðurstofunni sem þarna er einnig í mynd.


Lúpína Hallgrímskirkja
Stundum er sagt að Reykjavík sé byggð á sjö hæðum eins og Rómaborg og hér er horft af einni hæð til annarrar þar sem helgidómurinn blasir við á Skólavörðuholti. Í forgrunni er lúpínan allsráðandi og af sem áður var. Í hugum margra er lúpínan nánast heilög jurt sem ekki má skerða þrátt fyrir að hún leggi undir sig stór svæði víða um land, gróin sem ógróin, af sívaxandi hraða. Á þéttbýlissvæði eins og þessu er að vísu nægt framboð af öflugum plöntum sem geta blandað sér í baráttuna en því er ekki að heilsa víðast hvar. Sumir vilja meina að með lúpínuvæðingunni séum við að greiða til baka eitthvað sem við skuldum náttúru landsins en sú endurgreiðsla er ekki greidd í sömu mynt því lúpínan er innflutt framandi planta og flokkast sem ágeng jurt í viðkvæmri flóru landsins. Lúpínan er óskajurt hinna óþolinmóðu sem vilja græða landið allt, helst strax í dag með vaxtavöxtum og grilla svo um kvöldið.


Stokkur austur
Spölkorn austar breytir umhverfið um svip með borgaralegri gróðri. Stígurinn er hér raun gamli hitaveitustokkurinn sem upphaflega var lagður alla leið ofan úr Mosfellssveit á árunum kringum 1940. Lengi vel var yfirborð stokksins bogadregið en slétt yfirborðið hentar betur mannaferðum. Íbúðablokkin tilheyrir næsta hverfi og liggur Kringlumýrarbrautin í hvarfi þar á milli.


Hitamælingaskýli
Þá erum við komin að Veðurstofutúni sem er eitt af merkustu túnum landsins. Þann 30. júlí 2008 mældist hér 25,7 stiga hiti á klassískan kvikasilfurmæli í hitamælingaskýli og er það um leið hitamet í Reykjavík við slíkar staðalaðstæður. Samanburður í framtíðinni við hina ýmsu veðurþætti gæti orðið erfiður og þá erum við komin að öðru hitamáli því svo lítur út fyrir að búið sé að ákveða að þetta tún skuli brátt heyra sögunni til vegna stórfelldra byggingaráforma en í þeim felst meðal annars að Veðurstofan þarf að finna sér nýjan stað. Væntanlega þá einhversstaðar í fjarska frekar en í grennd enda ekki mikið eftir af opnum svæðum innan borgarinnar. Eiginlegar veðurathuganir myndu þá í raun leggjast af í Reykjavík sem væri mikill skaði en samfella í veðurathugunum á sama stað er mikils virði. Ekki síst nú á tímum þegar umræður um loftslagsbreytingar eru allsráðandi.


Gíraffi
Hvað sem loftslagsbreytingum líður þá hafa þær ekkert að gera með þennan gíraffa sem teygir sig upp úr einum garðinum í nærliggjandi einbýlishúsi. Hér hafa sjálfsagt verið gerð kostakaup á kjarapöllum.


Veðurstofa gróður
Enn breytir um svip og nú erum við komin að suðaustanverðri hlíðinni sem snýr að Bústaðavegi og horfum í átt að hinu virðulega húsi Veðurstofunnar. Hér er gróðurfarið allt annað en handan hæðarinnar. Upprunalegur gróðurinn í sinni fjölbreyttustu mynd fær hér að njóta sín á milli steina og birkiplantna sem virðast dafna vel í þessum sælureit. Þessi staður gæti einnig verið í bráðri útrýmingarhættu vegna fyrrnefndrar uppbyggingar sem á að slá á húsnæðisvandann. Ekki vil ég gera lítið úr honum. En kannski finnst yfirvöldum lítil eftirsjá í svona villigróðri í miðju borgarlandinu.


Holtasóley
Og auðvitað er svo þarna að finna þjóðarblómið sjálft, Holtasóley, sem stingur upp hvítum kollinum í umferðarniðnum og lætur sér fátt um finnast enda þekkir það ekki örlög sín frekar en aðrir. Fyrir þessu eilífðar smáblómi er hver dagur í það minnsta þúsund ár og þúsund ár varla nema einn dagur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband