Bestu veðurmánuðirnir sl. 21 ár

Miðbær ágúst 2006

Um daginn fjallaði ég um verstu veðurmánuðina í Reykjavík sem komið hafa sl. 21 ár samkvæmt mínum veðurskráningarbókum. Að þessu sinni verður öllu bjartara yfir því nú verða teknir fyrir þeir mánuðir sem ég tel vera veðurfarslega þá bestu hér í borginni. Eins og ég hef áður skrifað um er þetta allt byggt á mínum eigin veðurskráningum og einkunnakerfi sem ég nota til að meta veðurgæði á skalanum 0-8, en til þess að mánuður geti talist verulega góður þarf hann að fá meðaleinkunnina 5. Hér koma þá þeir mánuðir sem hæstu veðurgæðum hafa náð frá því ég fór að skrá veðrið sumarið 1986.

Einkunn 5,5 - júlí 2007. Þessi mánuður sem flestum ætti að vera í fersku minni frá sumrinu í fyrra fær þann heiður að vera útnefndur besti mánuðurinn hér, enda hefur hann allt til að bera sem prýða má almennilegan góðviðrismánuð: sólríkur, þurr, hlýr og hægviðrasamur. Meðalhitinn var 12,8°C sem gerir hann að næsthlýjasta júlímánuði frá upphafi, en mest komst hitinn í borginni í 21°C þann 13. júlí. Sólin skein af miklum móð fyrstu 17 dagana en eftir það varð aðeins köflóttara veður með nokkrum kærkomnum úrkomudögum en óvenjumiklir þurrkar höfðu staðið yfir frá því fyrri hlutann í júní.

Einkunn 5,4 - júní 1991. Þessi mánuður var einnig mjög eftirminnilegur góðviðrismánuður og einn af sólríkustu og þurrustu júnímánuðum sem komið hafa. Það gerist t.d. ekki oft hér í borginni að við fáum 9 léttskýjaða eða heiðskýra sumardaga í röð eins og varð dagana 13-21. júní. Hitinn í mánuðinum var hinsvegar bara í góðu meðallagi og því vermir hann 2. sætið hér.

Einkunn 5,3  Þessa einkunn hafa allnokkrir mánuðir fengið en hér eru þeir í tímaröð:

Maí 1995. Þetta er mánuður sem kemst kannski frekar óvænt í þennan hóp en þetta var alveg prýðisgóður vormánuður en þó aðallega hér suðvestanlands því víða annarstaðar voraði seint eftir mjög snjóþungan og kaldan vetur. Önnur skýring á góðri einkunn er sú að algerlega skorti slæma veðurdaga í mánuðinum.

Apríl 1998. Annar góður vormánuður hér. Mjög sólríkt var fyrri hlutann og svo mjög hlýtt seinni hlutann miðað við árstíma.

Júní 1998. Hlýr mánuður þar sem meðalhitinn náði að skríða yfir 10°C, en það hafði ekki gerst í júní í Reykjavík síðan 1966. Þar að auki voru þarna margir fínir sólardagar. Um kvöldið þann 4. júní hristist allt og skalf í borginni eftir jarðskjálfta upp á 5,3 stig á Hellisheiði.

Ágúst 2004. Fyrir utan almennt góðviðri er þessi mánuður frægastur fyrir hitabylgjuna miklu sem gerði daganna 8.-12. ágúst. Hitamet var sett í Reykjavík, 24,8°C þann 11. ágúst sem örugglega er einn af bestu góðviðrisdögum sem komið hafa í borginni. Þrátt fyrir óvenjumikil hlýindi er þetta þó ekki hlýjasti ágústmánuðurinn því enn hlýrra var að jafnaði í ágústmánuðinum árið áður eða 12,8°C en sá mánuður var heldur síðri að öðru leiti og kemst því ekki hér á blað.

September 2006. Enn einn mjög hlýr mánuður þar sem hitinn var 3,1 gráðum yfir meðallagi og því hlýjasti september síðan 1958. Aðrir veðurþættir voru þó í meðallagi. Sögulegur atburður átti sér stað þann 30. september á afmælisdegi mínum þegar Bandaríkjaher yfirgaf landið í góðu veðri og 11°C hita.

Einkunn 5,2 - júní 1997, mars 1999, október 2001, júlí 2004 og febrúar 2007.  Þarna má  sjá að vetrarmánuðir eru komnir á blað en þeir eiga sömu möguleika og aðrir því ég met hitafarið eftir árstíma. Svo farið sé fljótt yfir sögu þá var júní 1997 þurr, sólríkur en fremur kaldur og sömu sögu má segja um mars 1999. Október 2001 var sá næst hlýjasti sem komið hefur og góður að öðru leiti, júlí 2004 var sömuleiðis hlýr og góðviðrasamur. Svo að lokum febrúar 2007 sem var óvenju sólríkur.

Einkunn 5,1 - Nokkrir mánuðir hafa fengið þessa einkunn en ég ætla að láta nægja að nefna tvo þeirra.  Ágúst 1987 var mjög bjartur og góðviðrasamur mánuður og var á góðri leið með að slá alla aðra góðviðrismánuði út, þar til í lokin þegar haustvindar fóru að blása. Júlí 1991 er heitasti mánuður sem komið hefur í Reykjavík (13,0°C), en ýmis hitamet voru sett víða um land þegar gerði mikla hitabylgju dagana 6.-9. júlí.

Bestu sumrin (júní-ágúst) á þessu tímabili eru tvö og fá sömu meðaleinkunnina: 5,13. Meðalhiti þeirra beggja er sá sami 11.5°C og þau voru álíka sólrík. Sumarið 2004 var gott meira og minna allt sumarið nema um mánaðarmótin júlí og ágúst en svo kom hitabylgjan mikla sem minnst var á hér fyrr. Sumarið 2007 var hinsvegar mjög gott í heildina nema í upphafi og svo í lokin. Þótt sumarið hafi verið hlýtt, kom þó aldrei nein almennileg hitabylgja, en athyglisverðastir voru þó sennilega þurrkarnir fyrri hluta sumarsins bæði hér í Reykjavík og víðar um land.

Besti veturinn (nóv.-mars) er Veturinn 2000-2001 með einkunnina 4,62. Það sem einkenndi hann öðru fremur var óvenjulítil úrkoma, lítill snjór, bjart veður en frekar kalt. Eftir þennan þurra vetur voru snjóalög til fjalla svo lítilfjörleg að víða hurfu afar lífseigir snjóskaflar sumarið eftir, þar á meðal í Esjunni þar sem snjólaus Esja blasti við Reykvíkingum í fyrsta skipti síðan á hlýindaskeiðinu fyrir 1965.

Segjum þetta þá gott af blíðskaparveðrum enda nóg komið af upptalningum. Svo er bara að vona að sem flestir mánuðir bætist í þennan úrvalshóp á komandi árum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta þarf maður nú aldeilis að stúdera og athuga hvort eitthvað hreyfi við gullfiskaminninu - kærar þakkir!

Lára Hanna Einarsdóttir, 24.1.2008 kl. 17:08

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ekki batnar nú gullfiska-veðurminnið okkar með árunum, þannig að það er nú eins gott að vera búinn að punkta það niður.

Emil Hannes Valgeirsson, 24.1.2008 kl. 18:16

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég vildi nú sjá júlí 1991 þarna. Og sumarið 2003 í heild. Annars er það einkennilegt og ergilegt að ég var ekki á landinu í júní 1991 og heldur ekki í júlí 2007 meðan veðrið var best. Mér finnst heins vegar sól ekki sterkari en hitinn.

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.1.2008 kl. 20:10

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sæll Sigurður. Það er örugglega persónubundið hvaða þætti veðursins menn kunna best að meta, en í þessari tilraun minni til að meta veðurgæði eru allir þættirnir metnir jafnt og yfirleitt finnst mér það gefa nokkuð rétta mynd. Þú spyrð um júlí 1991, en sá mánuður er nú reyndar nefndur þarna með einkunnina með 5,1 sem er góð einkunn. Sumarið 2003 var náttúrulega eitt það hlýjasta sem komið hefur í Reykjavík og fékk heilmörg stig fyrir það en það voru heldur of margir sólarleysis og rigningardagar og á þessum skala fékk sumarið 2003 því einkunnina 4,8 sem er samt nokkuð gott. Og sjálfur var ég einnig svo óheppinn að missa af allra besta hluta sumarsins í fyrra því þá var ég staddur í rigningunni í Svíþjóð.

Emil Hannes Valgeirsson, 25.1.2008 kl. 20:51

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já, þetta er persónubundið en í þessu kalda landi finnst mér hitinn altaf sterkasti þátturinn, ég vil heldur dag með 18 stiga hita og sólarleysi en 15 stig með sól.

Sigurður Þór Guðjónsson, 28.1.2008 kl. 18:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband