Glæsilegur loftsteinagígur í Kanada

Pingualuit Crater

Á norðanverðum Labradorskaga í Kanada er að finna mjög reglulega hringlaga stöðuvatn sem úr lofti sker sig algerlega úr umhverfinu. Þetta er loftsteinagígurinn Pingualuit Crater sem uppgötvaðist eftir flug Bandarískrar herflugvélar árið 1943 og er talinn hafa myndast fyrir einum 1,4 milljónum ára. Þrátt fyrir að svo langt sé síðan gígurinn myndaðist er hann ennþá afar reglulegur í lögum, þvermál stöðuvatnsins er um 3,4 kílómetrar og dýpið er 267 metrar. Til samanburðar þá er Öskjuvatn í sama stærðarflokki og 220 metra djúpt.

Þessi loftsteinagígur hefur lifað af mörg ísaldarskeið á þessu hrjóstruga svæði og hann hefur engin tengsl við nálægar ár og vötn. Það gerir hann síðan mjög athyglisverðan til rannsókna að í honum hafa varðveist setlög frá hlýindaskeiðinu fyrir síðustu ísöld og ættu þau að geyma nákvæma loftslagssögu svæðisins lengra aftur í tímann en nú þekkist.

Greinileg ummerki eftir loftsteina eru annars ekki víða að finna á jörðinni. Bæði er það vegna þess að lofthjúpurinn ver okkur gegn loftsteinaregni að langmestu leiti en líka vegna þess að yfirborð jarðar er í sífelldri þróun og eyðir fljótlega öllum sýnilegum ummerkjum, ólíkt því sem gerist t.d. á tunglinu. Það hefur sjálfsagt gengið mikið á þarna þegar loftsteinninn féll en auðvitað fer engum sögum af því. En hversu vel hann hefur varðveist má kannski skýra með því að lengst af hefur hann verið varðveittur undir hreyfingarlausum ísaldarjökli en þess á milli er svæðið kalt, hrjóstrugt og algerlega án eldvirkni.

Nánar:

http://www.ottawa.rasc.ca/articles/odale_chuck/earth_craters/pingualuit/index.html

http://dailyheadlines.uark.edu/11974.htm 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband