Um hafís og mitt eigið bloggerí

hafís 18. febrúarNú fer sá árstími í hönd þegar hafísinn fer að gerast nærgöngull við landið. Það hafa ekki borist miklar fréttir af þessum landsins forna fjanda undanfarið enda hafa vindáttir fyrr í vetur ekki verið mjög hagstæðar til að beina þeim litla hafís hingað, sem í boði er á Grænlandssundi. En nú kann að vera breyting þar á því undanfarið hafa suðvestan- og vestanáttir verið algengar milli Íslands og Grænlands en þá safnast hafísinn einmitt fyrir útaf Vestfjörðum. Einnig hefur núna undanfarið verið lítið um norðaustanátt sem er ríkjandi þarna á vestfjarðamiðum og heldur hafísnum frá landinu. Á myndinni sem hér fylgir sést hafísbreiðan milli Íslands og Grænlands eins og Norska veðurstofan teiknar hana. Þetta er reyndar ekkert óeðlilegt miðað árstíma en þó sennilega það mesta sem sést hefur í vetur og samkvæmt veðurspám gætum við fengið hafísinn upp að landi á næstu dögum.

Og hvað ætlaði ég svo að segja um mitt eigið bloggerí? Jú, þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég skrifa um hafísinn, enda áhugasamur um allt sem tengist veðurfari á einhvern hátt. Mér finnst alltaf eitthvað spennandi við hafís, jafnvel þótt ég hafi aldrei séð svoleiðis því aldrei kemur hafísinn til Reykjavíkur. Fyrsta bloggfærslan mín núna í haust var reyndar um hafís og tengdist hafíslágmarkinu á norðurpólnum. En nokkru fyrr eða í janúar fyrir rúmu ári var ég þó næstum því byrjaður að blogga. Það sem mér lá á hjarta þá var að vara þjóðina við yfirvofandi hafískomu sem enginn virtist gera sér grein fyrir þegar vestan-stormi var spáð á Vestfjarðamiðum. Auðvitað kom hafísinn og það öllum að óvörum og fyllti meðal annars Dýrafjörð svo elstu menn mundu ekki annað eins. (Sjá mbl.frétt frá 27.jan.2007) En ef hafísinn kemur núna á næstu dögum held ég að það ætti ekki að koma eins á óvart, þetta er vel vaktað, aðstæður núna öllu hefðbundnari en var í janúar í fyrra og sennilega mun hafísinn ef hann kemur, ná landi á gamalkunnum ísaslóðum. En hvað sem gerist þá er ég allavega búinn að leggja mitt af mörkum til að vara þjóðina við!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband