Medúsa flekinn - þegar vonin vaknar

Medusa flekinn

Eitt af hádramatískustu verkum myndlistarsögunnar var afhjúpað í París árið 1819 en það var verkið Medúsa flekinn eftir Franska málarann Théodore Géricault. Málverkið er afar stórt eða heilir 7 metrar á breidd og vakti strax mikla athygli og aðdáun þegar það var sýnt, en jafnframt reiði hjá sumum. Hér segir frá umdeildum atburðum sem áttu sér stað í raun og veru eftir að freigátan Medúsa steytti á skeri undan ströndum Vestur-Afríku árið 1816 undir stjórn skipstjóra sem var yfirlýstur andstæðingur Napóleons og að mörgum talinn vanhæfur til að stýra skipi. Alls voru um 400 manns um borð en auk áhafnar var þarna meðal annars Landstjórinn í Senegal ásamt herliði sínu en förinni hafði verið heitið til Frakklands. Almennilegir björgunarbátar voru ekki til taks fyrir alla um borð og því þurfti fjöldi hinna lægra settu að sætta sig við að láta sig reka um hafið á illa búnum fleka. Eftir tveggja vikna ólýsanlegt harðræði var þeim fáu flekaverjum sem lifað höfðu hörmungarnar af, blessunarlega bjargað um borð í skip sem þarna kom að.

Svona hástemmdar örlagamyndir eru algengar í listasögunni en það sem gerði þessa mynd sérstaka á sínum tíma var að hér er um að ræða raunverulegt fólk af lægri stigum samfélagsins og má þar örugglega kenna áhrifa frá Frönsku byltingunni, en fram að þessu höfðu aðallega valdahetjur og persónur í guðatölu fengið að prýða svona mikilfengleg málverk á striga. Géricault kaus að sýna í mynd sinni það dramatíska augnablik þegar skipbrotsmenn sjá lífsbjörgina í miklum fjarska en geta ekki vitað hvort eftir þeim hafi verið tekið. Öll uppbygging myndarinnar er hugsuð til að auka á áhrifamátt hennar, mennirnir á flekanum mynda einskonar þríhyrning sem leitar upp til hægri þar sem hinir örmagna eru fremst, en efstur er sá sem veifar skipinu í fjarska út við sjóndeildarhring. Annar þríhyrningur hallast hinsvegar í hina áttina til vinstri og þar er þanið seglið sem beinir flekanum í öfuga átt þarna í ólgusjónum.

Hin veika von í miðri örvæntingunni er sem sagt umfjöllunarefni þessarar myndar. Hér er illa statt fólk út á reginhafi og ekkert nema björgun kemur til greina og við sem horfum á myndina getum auðvitað huggað okkur við að svo fór þarna að lokum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

takk fyrir þetta.

Greta Björg Úlfsdóttir, 14.10.2008 kl. 21:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband