Íslensku sauðalitirnir og þjóðernisrómantíkin

Þrotaveturinn mikli er farinn að hellast yfir okkar af fullum þunga og sér ekki fyrir endann á. Í þrengingum þessum er talað um að við Íslendingar þurfum að standa saman sem aldrei fyrr. Nú er um að gera að velja íslenskt, flagga íslenska fánanum, ganga í lopapeysum, borða skyr, (þó ekki að sletta skyrinu að óþörfu) og síðast en ekki síst eigum við að tala kjarnyrt íslenskt mál – enskuslettur tilheyra árinu 2007 enda „So last year“.

Emil og kindVið svífum ekki lengur á rósrauðu skýi líkt og áður því nú eru það sauðalitirnir og sem gilda. Þetta veit íslenska sauðkindin sem hér hefur þraukað í yfir þúsund ár og haldið í okkur í lífinu. Henni til heiðurs mun ég sjálfur birtast í sauðalitunum hér á síðunni, þar til vorar að minnsta kosti. Tekið er fram að á myndinni hér til hliðar er höfundur sá sem er til vinstri á myndinni.

Því miður vilja nú æði margir að við göngum í ríkjabandalag Evrópuþjóða og telja það skynsömustu leiðina fyrir okkur og til mikilla hagsbóta. Það má vel vera að út frá hagfræðinni einni saman sé það skynsamlegt að hræra okkur í sama graut og meginlandsþjóðirnar en það er líka margt annað sem gæti verið fjárhagslega skynsamlegt, eins og til dæmis að virkja alla fossa landsins og hætta að tala íslensku. Það gæti líka verið skynsamlegt fyrir okkur að hætta þessu basli öllu saman og flytjast búferlum á danskar heiðar. Við höfum alltaf þetta val sem er ágætt útaf fyrir sig en þá má ekki gleyma að það eru til önnur rök og jafngild heldur en köld hagfræði- og skynsemisrök. Þar á ég við hin einföldu tilfinningarök sem segir okkur hvað við viljum í raun.

Ég get alveg viðurkennt að ég er dálítill þjóðernisrómantíker af gamla skólanum sem líkar vel að búa í stórbrotnu landi og tilheyra þjóð sem er svolítið sér á báti með sínar sérviskur. Ekki það að ég telji okkur Íslendinga vera eitthvað yfir aðrar þjóðir hafnir því sjálfsagt erum við ekkert klárari í kollinum en gengur og gerist. Hæfileg þjóðernisrómantík þarf heldur ekki að þýða að við eigum að einangra okkur og hætta að taka þátt alþjóðasamfélaginu. Við Íslendingar erum hinsvegar auðlindaþjóð ólíkt meginlandsþjóðum Evrópu sem aðallega eru í því að selja hverri annarri sama kálið. Á okkar auðlindunum höfum við alltaf byggt okkar grunn og þær eigum við að eiga útaf fyrir okkur og nýta í góðri sátt við landið.

- - - -

Svona lokin verð ég að minnast á að eftir síðustu færslu þurfti ég í fyrsta skipti að beita ritskoðun hér á síðunni. Ástæðan var sú að grínari sem kallaði sig Pétur P. Proppé var með þrálátar kjánaathugasemdir sem ég gat ekki látið viðgangast endalaust. Ég áttaði mig þó fljótt á að þar var á ferðinni hrekkur í tilefni af óvinaviku í vinnunni hjá mér. Ég læt samt fyrstu athugasemdirnar frá honum lifa áfram enda viss húmor í þeim og tek svo fram að nú er búið að aflétta öllu ritskoðunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo sammála takk fyrir þetta. Kv

(IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 23:29

2 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Það er margt, sem hrjáir þjóðarlíkamann, ekki bara sú óværa, sem kennd er við útráss, heldur líka mjög svo alvarlegt innanmein og hefur það fengið að grassera í áratugi.

Þjóðin þarf á geisla(baugs)meðferð að halda.

Ásgeir Kristinn Lárusson, 7.12.2008 kl. 10:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband