Fólksfjölgunarpistill

Á hverri mínútu sem líður má gera ráð fyrir að um 134 fleiri börn fæðist í heiminn umfram þann fjölda fólks sem gefur upp öndina á sama tíma. Í fljótu bragði virkar það kannski ekki svo mikið en þýðir þó að á einu ári fjölgar fólki í heiminum um tæpar 72 milljónir sem er heldur minni fjöldi en byggir Þýskaland en hinsvegar meiri fjöldi en allir Bretar eða Frakkar. Fólksfjöldinn í heimunum í dag er áætlaður um 6.750 milljónir og hefur fjölgað um einhverjar 700 milljónir frá ársbyrjun ársins 2000.

Eftir stutta skoðun þá sýnist mér vera gert ráð fyrir því að um miðja þessa öld hafi dregið nokkuð úr fjölguninni og þá verði fjöldi jarðarbúa kominn í 9-9,5 milljarða. Auðvitað er talsvert mikil óvissa í gangi og engin veit með vissu við hvaða mark fjölgun jarðarbúa muni að lokum stöðvast, það gæti allt eins gerst við 8 milljarða markið en langvarandi áframhaldandi fjölgun jafnvel upp í 20 milljarða er þó ekkert útilokuð í framtíðinni. Megnið af fólksfjölgun framtíðarinnar mun væntanlega eiga stað í fátækari hluta heimsins á meðan fólki mun frekar fara fækkandi á hinum þróuðu Vesturlöndum.

Ég man eftir mynd sé ég sá fyrir margt löngu í mannfræðikennslubók og leit út einhvernvegin eins og þessi hér að neðan. Á myndinni má sjá á einfaldan hátt hvernig fæðingar og dánartíðni fólks er tengd þróunarstigi samfélagsins og hvað áhrif það hefur á fólksfjölgun.

fólksfjölgun

Þarna má sjá að í vanþróuðum samfélögum er fæðingartíðnin há en dánartíðnin einnig. Þetta er það ástand sem mannkynið hefur lengst af verið í en mannfjöldin ræðst þá aðallega af náttúrulegum aðstæðum og mannfjöldin er í samræmi við það sem landið ber hverju sinni. Ýmis skakkaföll s.s. náttúrhamfarir eða plágur geta snarfækkað fólki en þegar aðstæður breytast til hins betra á ný er mannfjöldinn fljótur að ná sér á strik uns náttúrulegu hámarki er aftur náð. Breytingar á loftslagi eða búskaparháttum geta líka haft áhrif á náttúrulegt hámark.

Þegar framfarir urðu í læknavísindum ásamt ýmsum tækniframförum, urðu til þróunarsamfélög sem einkenndust að því að sífellt fleiri börn komust á legg á sama tíma og fæðingartíðnin hélst áfram há og útkoman mikil mannfjölgun. Vesturlönd komust á þetta stig á 19. öld en aðrir heimshlutar síðar. Þróunarlönd eru þau lönd síðan kölluð sem eru enn á þessu stigi og þar á fólksfjölgun heimsins sér aðallega stað.

Í þróuðum samfélögum vesturlanda er komið nýtt jafnvægi þar sem fæðingartíðnin er komin niður á sama plan og dánartíðnin og fólksfjölgunin dottin niður. Þetta er samt allt annarskonar jafnvægi heldur en í vanþróuðum samfélögum því hér ríkir meiri stöðugleiki þar sem fólkið er ekki eins háð duttlungum náttúrunnar. Það eru því helst samfélagslegar ástæður sem þarna hafa áhrif eins og hvort fólk hreinlega megi vera að því eða eru í aðstöðu til að eiga börn.

Mannfjöldaþróun heimsins mun samkvæmt þessu ráðast af því hvernig þróunarlöndum þriðja heimsins tekst að komast á það stig sem við á Vesturlöndum erum á, það getur verið langsótt og ekkert víst að það gerist svona yfirleitt. Hugsanlegt er jafnvel að einhverjum samfélögum hraki svo illa að jafnvægi skapist á ný með einhverskonar bakþróun sem einkennist af hárri dánartíðni eins og var til forna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er góð spurning hvers vegna svo illa gengur að hjálpa fátæku þjóðunum, þetta gerðist hjá okkur Íslendingum á nokkrum dögum að því virðist, allavega í samanburði við allt þetta basl án árangurs.

Hafðu samt engar áhyggjur af mannfjölgun, sameinuðu þjóðirnar með staðardagskrá 21 (plan fyrir 21. öldina) og hugumstórir menn með sína leiðsagnarsteina (sjá Leiðsögn NWO saurguð) eru með áætlanir bæði um að koma okkur vesturlandabúum niður á stig þróunarríkja (sjá Varnir gegn miðstéttinni) og fækka okkur öllum niður fyrir 500 milljónir með ófrjósemi og óvæntum drepsóttum.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 22:51

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég þekki lítið til þessa NWO fyrirbæris (New World Order) en hef annars ekki mikla trú á að nokkurt afl geti stjórnað að einhverju viti á heimsvísu, hvorki mannfjölda eða öðru þótt marga hafi dreymt um það.

Emil Hannes Valgeirsson, 7.1.2009 kl. 23:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband