Stóra planið um fjármálamiðstöðina Ísland

„Ég á mér þann draum að í framtíðinni verði Ísland þekkt um víða veröld sem alþjóðleg fjármálamiðstöð. Að hér á þessari litlu og hjartfólgnu eyju starfi kraftmikil alþjóðleg fyrirtæki, sem hafa kosið að eiga hér höfuðstöðvar vegna ákjósanlegra skilyrða af hálfu stjórnvalda, vegna þess mannauðs sem í landinu býr og vegna mikils og góðs stöðugleika, hvort sem er í efnahaglegu eða stjórnmálalegu tilliti.“

Kannski er ekki alltaf sanngjarnt að rifja upp gömul ummæli sem sögðu voru við allt aðrar aðstæður en ríkja í dag, en orðin hér að ofan mælti Halldór Ásgrímsson á Viðskiptaþingi í febrúar árið 2005. Samanber þessi orð fer ekkert á milli mála að Halldór eins og aðrir stjórnmálamenn bera hag þjóðarinnar fyrst og fremst fyrir brjósti í öllum sínum orðum og gerðum. Grunnurinn að hagsæld íslendinga og öflugu velferðarkerfi átti að vera öflugt alþjóðlegt fjármálalíf hér á landi sem átti að þróast í þeim hagstæðu skilyrðum sem stjórnvöld ætluðu að skapa með víðsýni og áræðni. Þetta var STÓRA PLANIÐ. Hér í fjármálaparadísinni miðri áttu síðan að rísa stórhýsi og stoltar menningarbyggingar fjármagnaðar af kaupahéðnum en hraðbrautir áttu síðan að liggja um sund og göng til ört stækkandi úthverfanna þar sem almenningur bjó í sínum myntkörfulánuðum smáhöllum. Fallvötn og jarðorku landsins átti svo að virkja til að afla orku fyrir stóriðjur sem áttu að tryggja blómlegt mannlíf á landsbyggðinni.

Því miður eða sem betur fer var Stóra planið aðeins of stórt fyrir okkar litlu og hjartfólgnu eyju, nema vera skildi að stjórnmálamennirnir hafi verið of stórir fyrir okkur. 

- - - - - - 

NEÐANMÁLS: Orð Halldórs eru fengin af bloggsíðu Björns Inga Hrafnssonar (sjá Hér) en þar má finna ræðu Halldórs um Fjármálamiðstöðina. Umrædda bloggsíðu Björns fann ég hinsvegar í gegnum bloggpistil Egils Helgasonar frá 16. janúar.

Stóra planið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ár & síð

Svo ekki sé nú minnst á LSD (lang stærsta drauminn):

Hvernig getur Ísland orðið ríkasta land í heimi?
Hannes H. Gissurarson (2001)

Ísland er þegar með ríkustu löndum heims. En það getur orðið ríkast, segir Hannes H. Gissurarson, prófessor, í þessari fróðlegu og skemmtilegu bók. Hann lýsir auðlegð þjóðanna í aldanna rás og sýnir fram á tengsl atvinnufrelsis og hagsældar. Hann rekur sögu Íslendinga úr fátækt í bjargálnir og tekur dæmi af litlum löndum á jaðri stórra markaða sem hafa hagnast mjög af því að lækka skatta og veita alþjóðlega fjármálaþjónustu. 

Ár & síð, 19.1.2009 kl. 00:26

2 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Þetta er góð vísun í Björn Inga og hvaðan hann sótti, og sækir, umboð sitt. En eins og menn vita þá eru þessir draumar ekkert úr sögunni þrátt fyrir skipsbrotið. Menn halda sér aðeins til hlés eins og er en munu brátt stíga fram og byrja að reifa slíkar hugmyndir aftur. Og þeir hafa sko alls ekki misst völdin hér á landi heldur sitja sem fastast í skjóli nýrra andlita.

Torfi Kristján Stefánsson, 19.1.2009 kl. 11:09

3 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Já ekki gleyma því að það þurfti í sýn Hannesar og Halldórs að fá hingað stórfyrirtækin meðal annars sem skattborgara þessa  lands okkar og hafa af þeim starfsemi í leiðinni einnig sem hefur margfeldisáhrif út í þjóðfélagið. Þetta virðist hafa tilfinnanlega skort í raunveruleikanum eins og hann var. Menn tóku ódýrt lán og endurlánuðu og rak svo í þrot þar sem enginn var sjóðurinn til að greiða afborganir þegar enginn lánaði gjaldeyri utan úr heimi.

Í stað tekna af starfsemi slíkra fyrirtækja á stormskerinu var til óhemju fjöldi skúffufyritækja í öðrum löndum eins og Tortula eyju sem soguðu lánsfá út úr íslenskum bönkum og greiddu hér enga skatta né skyldur.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 19.1.2009 kl. 16:25

4 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fjármálamiðstöðin Ísland með íslenska krónu er galin. Ekkert er til fyrirstöðu að gera landið að fjármálamiðstöð eins og fleiri eyjar hafa gert, en forsendan að því er að nota dali eða aðra alþjóðlega mynt.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 19.1.2009 kl. 18:34

5 identicon

Ekki að ég sé að mæla snillingunum bót hér á landi, reyndar langt frá því,  en veit einhver um alþjóðlega fjármála miðstöð í dag sem stendur undir nafni.  Eru þær ekki allar fallnar, city, wall street et al.  Allir virðast hafa lifað á lánum og sömu glæpa vinnubrögðin viðhöfð allstaðar.  Hagnaður af reglulegri starfsemi virðist hafa verið fjarlægt hugtak.

itg (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 18:46

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Varstu ekki að hugsa um að blogga um bók Halldórs Björnssonar Gróðurhúsaáhrifin og loftslagsbreytingar.

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.1.2009 kl. 10:11

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Jújú, ég er eiginlega búinn að skrifa en það hafa verið svo mikil læti allstaðar að ég ákvað að bíða aðeins með birtingu. Aldrei að vita nema ég skelli þessu í loftið í kvöld.

Emil Hannes Valgeirsson, 23.1.2009 kl. 10:38

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já, það eru meiri lætin! Og meira að segja geðprýismaður eins og ég var með læti á blogginu!

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.1.2009 kl. 14:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband