Onedin skipafélagið

Dagskrá Onedin

Í eldgamladaga þegar ekki var búið að finna upp litasjónvarp eða vídeótæki hér á landi, safnaðist fólk fyrir framan sjónvarpstækin sín eftir kvöldmat ef ekki var fimmtudagur og horfði á dagskrána sem þar var í boði. Nokkurn veginn mátti fullyrða að fólkið í næsta húsi eða í næstu íbúð væri einnig að horfa á sjónvarpið og á sömu myndina enda bara ein sjónvarpsstöð í loftinu og þótti alveg feikinóg. Þetta átti ekki síst við þegar fínir breskir framhaldsþættir voru á dagskrá eins og Onedin skipafélagið sem voru sýndir í mörg ár á áttunda áratugnum og sögðu frá skipstjóranum James Onedin sem gerði út skipafélag sitt frá hafnarborginni Liverpool. Sjálfur horfði ég oft á þessa þætti og þá aðallega vegna stóru seglskipana sem léku stórt hlutverk í þáttunum og voru sjálfsagt fyrirmyndin af öllum þeim seglskipamyndum sem ég teiknaði um 10-12 ára aldurinn. Einnig höfðu þættirnir úrslitaáhrif á það hvaða enska fótboltalið varð fyrir valinu til að halda með um ókomin ár.

Þættirnir um Onedin skipafélagið er kannski ekki aðalmálið í dag, en þetta er hinsvegar sjónvarpsnostalgía mánaðarins – nýr dagskrárliður á þessari síðu og í fullum litum að þessu sinni. Hér má sjá upphaf allra fyrsta þáttarins. Upphafstónlistin sem setti svo sterkan svip á þættina er eftir hinn rússneska Aram Khachaturian og er úr balletverkinu Spartacus.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Jónsdóttir

Úff, það liggur við að maður sakni þessara gömlu góðu daga

Helga Jónsdóttir, 29.1.2009 kl. 22:49

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sjónvarpið fór alveg yfir í litinn árið 1978, fréttir og innlent efni, en í nokkur ár áður en þeim áfanga var náð var búið að senda út ákveðna þætti í lit ef ég man rétt og margir voru þá komnir með litasjónvarpstæki.

Það voru einkum hinir bresku úrvalsþættir sem voru sendir út í lit.

Ómar Ragnarsson, 29.1.2009 kl. 22:53

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Íþróttaþættir Ómars Ragnarssonar á mánudögum strax á eftir Onedin voru oft litríkir þótt þeir hafi verið í svarthvítu.

Emil Hannes Valgeirsson, 29.1.2009 kl. 23:13

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég er svolítið sammála Helgu... maður fær lauflétta nostalgíu... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 30.1.2009 kl. 02:06

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Yndislegt að rifja þetta upp, - ég var mikill aðdáandi þessara þátta. Var 13 ára þegar þeir voru sýndir! Man eftir upphafsstefinu sem spilað var; Lalalaa, lalalaa, lalalaa, lalalalalaa.....

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 30.1.2009 kl. 10:11

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Khatsjatúrían var merkilegt tónskáld sem tónlistafræðingar hafa tilhneigingu til að vanmteta. Aldrei fannst mér reyndar gaman af þessum þáttum. En hins vegar Sögu Forsythe-ættarinnar sem eru enn eldri þættir. Holmes var skratti góður!

Sigurður Þór Guðjónsson, 31.1.2009 kl. 11:06

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Allt það sem gerðist í landi í Onedin þáttunum fannst mér reyndar ekki eins spennnandi og sjóferðirnar. Saga Forsythe-ættarinnar var fyrir mína sjónvarpstíð en ég hef stundum heyrt þá þætti dásamaða af mér eldra fólki.

Emil Hannes Valgeirsson, 31.1.2009 kl. 13:04

8 identicon

Afsakið leiðinda smámunasemina:  Ekki sjöundi heldur áttundi áratugurinn.  Öðru nafni:  "The Seventies"...

Malína (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 00:41

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk fyrir smámunasemina, Malína.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.2.2009 kl. 10:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband