Skonrokk, Meatlow og Skólaljóð

Seint á áttunda áratugnum hóf Sjónvarpið að sýna tónlistarmyndbönd í sérstökum dagskrárlið sem kallaðist Skonrokk eins og þeir muna sem þá voru uppi. Þetta voru auðvitað ómissandi þættir fyrir þá sem vildu fylgjast með því nýjasta í poppinu, diskóinu og rokkinu, allt undir öruggri handleiðslu skífuþeytarans og landfræðingsins Þorgeirs Ástvaldssonar. Þegar Skonrokk var á dagskrá var að sjálfsögðu allur skólalærdómur og svoleiðis lagður til hliðar því annars gæti maður misst af einhverju stórkostlegu og jafnvel ekki verið viðræðuhæfur daginn eftir. Eitt sinn fyrir um 30 árum hafði ég fengið það heimaverkefni að læra ljóð upp úr Skólaljóðum, en þar sem Skonrokk  var á dagskrá þetta kvöldið ætlaði ég að láta ljóðalærdóminn bíða þar til eftir þáttinn sem ég horfði á ásamt systrum mínum. Þegar síðasta myndband þáttarins birtist hvöttu systur mig bara til að drífa mig í ljóðalærdóminn enda virtist lokalagið ætla að verða leiðinlegt, flutt af ófrýnilegum þéttvöxnum söngvara sem enginn hafði heyrt um áður. Ég lokaði mig þá af og tók til við að læra ljóðið sem mig minnir að hafi verið Frjálst er í fjallasal eftir Steingrím Thorsteinsson. Þegar ég kom svo aftur fram í stofu, fullnuma í ljóðinu, fékk ég að heyra að lokalagið í Skonrokki hafi eftir allt saman verið „æðislega flott“ og að ég „hefði átt að horfa á það“. Við því var hinsvegar ekkert að gera úr því sem komið var.

Lagið sem var svona æðislega flott og sló í gegn eftir þennan Skonrokksþátt var hið mikla lag, Paradise by the dashboard light og er það í dag eitt af sígildum lögum rokksögunnar flutt af hinum fjallmyndarlega Meatloaf. Með honum á myndbandinu er söngkonan Karla DeVito en það mun það hinsvegar vera söngkonan Ellen Fooley sem á röddina.

Sjónvarpsnostalgía mánaðarins hjá mér að þessu sinni er Skonrokk.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Nostalgía, eðall. Bara nafnið á færslunni var nóg til að fá nostalgíukast.

Höskuldur Búi Jónsson, 31.3.2009 kl. 11:14

2 identicon

Ég er sammála þér varðandi lagið - þetta er þrusuflott stuðlag sem ég hef ótal sinnum dansað við um ævina.

En í mínum augum mun Meatloaf seint teljast fjallmyndarlegur (þú hlýtur nú að vera að djóka með það!) - þó ég viðurkenni að hann líkist kannski fjalli pínulítið  .  Ég man einmitt að ég hugsaði oft hvað ég vildi að það væri einhver flottari gaur en hann að syngja þetta lag...

Malína (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 00:17

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Fjallmyndarlegur hlýtur hann að teljast, en annars má líta á þessa samlíkingu sem tilraun til skáldlegrar tilvísunar í ljóðið „Frjálst er í fjallasal“ sem þarna var nefnt á undan.

Emil Hannes Valgeirsson, 3.4.2009 kl. 17:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband