Hafís kominn inn á Faxaflóa

hafis_1aprilÉg hef fylgst nokkuð vel með hafískortum undanfarið enda þróunin síðustu daga verið nokkuð óvenjuleg og kannski engin furða miðað við þá veðráttu sem við höfum búið við undanfarið. Eins og sést á meðfylgjandi korti frá Bandarísku hafísrannsóknarmiðstöðinni sést hvernig stór hafísbreiða hefur safnast fyrir vestur af landinu og virðist vera kominn langleiðina inn að Faxaflóa. Þegar ísinn er komin svona nálægt landi má búast við að hann lendi í strandstraumum sem ber hann enn nær landi þrátt fyrir að vindurinn blási í gagnstæða átt.

Það er auðvitað mjög merkilegt að hafísinn komi að landinu svona sunnarlega því venjulega kemur hann fyrst að landi á norðanverðum vestfjörðum, en þetta er þó ekkert einsdæmi enda hegðar náttúran sér ekki alltaf eins og hún er vön. Það hefur annars mikið verið talað um að hafísinn sé að minnka svona almennt sem afleiðing af hlýnandi loftslagi, en þessi staða núna er greinilega ekki í samræmi við það sem skýrir kannski hvers vegna lítið hefur verið um þetta fjallað. Kannski þykir þetta of óþægileg frétt.

Hvað sem því líður þá er ástæða til að fylgjast vel með hafísnum að þessu sinni og hver veit nema við förum brátt að sjá hafísbreiður héðan úr Reykjavík og kannski sést hann nú þegar frá efstu byggðum. Mér fannst ég jafnvel sjá áðan þegar ég leit út á flóann að himinninn væri bjartari en venjulega í vestri sem gæti skýrst af endurkasti íssins. Óneitanlega fer maður líka að hugsa um ísbirni, en þó að það sé viss hætta á svoleiðis heimsóknum þá er það nú alltaf undantekning að slíkt gerist enda kunna ísbirnir best við sig á ísnum sjálfum.

Nánar um stöðu hafíssins má sjá hér: http://nsidc.org/cryosphere/glance/ 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

http://www.feykir.is/archives/7973

Þetta eru nú meiri villimennirnir sem eftir eru í þessum eyðibyggðum.

Zombie (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 09:36

2 Smámynd: Loftslag.is

Það er greinilegt að kólnun jarðar er byrjuð eins og menn spáðu á áttunda áratugnum. Litla ísöldin?

Loftslag.is, 1.4.2009 kl. 10:00

3 identicon

Þetta minnir óþægilega mikið á árið 1979, en það ár var kaldasta árið hér á landi á 20. öldinni.  Það ár kom t.d. ekkert sumar.  Það voru þrálátur norð-austanáttir rétt eins og núna og svalt allt árið.  Eini mánður þess árs þar sem hiti var yfir meðallagi var, furðulegt nokk, desember.

Jú, ég er sammála þér, Emil, það er byrjuð ahleimskólnum, þó svo að sértrúarsöfnuðurnir um kenninguna um hlýnun Jarðar afneiti því sem hverju öðru guðlasti og helgisspjöllum.  Allir þeir sem halda því fram að það fari kólnandi á Jörðinni eru nánast réttdræpir í þeirra augum.  Það er nefnilega bannað að halda því að alheimshlýnunin sé fjarstæða.

Árið 2003 var hlýjasta árið á núverandi öld, og frá og með seinni hluta árs 2004 hefur farið kólnandi á Jörðinni, þrátt fyrir að þeir sem aðhyllast hlýnun Jarðar reyni að sýna fram á annað með "lærðum" greinum.

Við erum að fara inn í álíka loftlagsskeið og var hér á árunum upp úr 1960 og fram undir 1985, en á þessu tímabili kólnaðir töluvert hér á norðurhjaranum og hafískomur voru hér af og til, t.d. 1965, 1968 og 1979.

Loftur Viðarsson (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 11:27

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Satt að segja veit maður ekki hverju á að trúa þessa dagana. Allavega er umræðan mjög misvísandi, hlýnun, kólnun eða jafnvel lítil ísöld framundan. Það verður þó að hafa í huga að hafísinn við Ísland er oft í hámarki um þetta leiti og kannski að meðaltali mestur einmitt þennan mánaðardag.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.4.2009 kl. 12:42

5 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Sæll Emil !

Eitthvað virðist þessum ísmálum út af Faxaflóa vera málum blandið.  Norska ískortið frá því í gær sýnir ekkert í þessa veru:

http://retro.met.no/images/image_000132_1238588138.jpg

Það danska frá því 28. mars sýnir dálítið þykkildi sem teygir sig til austurs, en nær þó aðeins að 31°W.  Sá staður er langt undan landi sé miðað við Reykjanes.

http://www.dmi.dk/dmi/index/gronland/iskort/iskort_-_ostgronland.htm

Ískortin eru unnin að mestu út frá tunglmyndagögnum og þykir mér líklegast að eitthvað hafi skolast til hjá  Bandarísku hafísrannsóknarmiðstöðinni við úrvinnslu á ísjaðarins við Austur-Grænland. Hafískort Ingibjargar Jónsdóttur frá því í gær gefur til kynna að ísinn er tiltölulega langt undan Vestfjörðum fyrir árstímann.

http://www3.hi.is/~ij/hafis/index.php

Með kveðju

Einar Sv

Einar Sveinbjörnsson, 1.4.2009 kl. 12:44

6 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Er ekki 1.apríl í dag.?

Ragnar Gunnlaugsson, 1.4.2009 kl. 16:14

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Tja, því er ekki að neita að 1. apríl er einmitt í dag og af því tilefni gerði ég dálitlar tilfærslur á kortinu svona í tilefni dagsins. Ég vona að menn séu ekki farnir að grípa til vopna til að takast á við ísbirni eða gera aðrar ráðstafanir sem þessi vitleysa hefur gefið tilefni til, en eins og Einar bendir á er ekkert sérstakt að gerast með hafísinn þessa daganna.

Ég veit annars ekki til þess að hafís hafi nokkru sinni borist inn á Faxaflóa, því eftir því sem mér skilst þá eru hafstraumarnir þannig að hafísinn þarf að hringa sig um landið austanvert og með suðurströndinni áður en hann nær að Faxaflóa og það gerast varla nema í hálfgerðu ísaldarástandi.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.4.2009 kl. 18:13

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég trúi öllu illu upp á veðurguðina um þessar mundir hvað sem dagatalinu líður. En Hafís hefur samt borist eitthvað inn á Faxaflóa eins og þú getur séð í annálunum t.d. 1695 og oftar á 17. öld. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.4.2009 kl. 19:04

9 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Skammastu þín Emil. Það er ljótt að plata saklaust auðtrúa fólk

---

Án gamans:

"1695. Óvanalega miklir hafísar. Ís rak um veturinn upp að Norðurlandi og lá hann fram um þing, norðanveður ráku ísinn austur fyrir og svo suður, var hann kominn fyrir Þorlákshöfn fyrir sumarmál og sunnudaginn fyrstan í sumri (14. apríl) rak hann fyrir Reykjanes og Garð og inn á fiskileitir Seltirninga og að lokum að Hvalseyjum og í Hítarós, fór hann inn á hverja vík. Hafði ís ei komið fyrir Suðurnes innan 80 ára, þótti því mörgum nýstárlegt og undrum gegna um komu hans. Þá mátti ganga á ísum af Akranesi í Hólmakaupstað (Reykjavík) og var ísinn á Faxaflóa fram um vertíðarlok rúmlega, braut hann skip undan 6 mönnum fyrir Garði, en þeir gengu allir til lands". 

Þór Jakobsson segir þetta í erindi sínu "Um hafís fyrir Suðurlandi - frá landnámi til þessa dags"

Ágúst H Bjarnason, 1.4.2009 kl. 20:24

10 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Krækjan að grein Þórs var ekki rétt hér fyrir ofan. Þessi er líklega betri:

http://www.vedur.is/hafis/frodleikur/nr/326

Ágúst H Bjarnason, 1.4.2009 kl. 20:27

11 Smámynd: Loftslag.is

Helvíti góður... ég tékkaði allavega á tenglinum og hljóp því einu sinni apríl í dag

Loftslag.is, 1.4.2009 kl. 21:10

12 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Æ, það er svo gaman að geta platað svona einu sinni ári. En nú veit ég hinsvegar að hafísinn hefur borist inn á Faxaflóa á 17. öld og kannski fyrr, en þá var nú líka hálfgerð ísöld í gangi. Eitthvað af þeim ís gæti þó verið lagnaðarís. Af heimildunum sem þið vísið í að dæma virðist ísinn einmitt koma inn á Faxaflóa eftir að hafa hringað landið úr austri, svipað og gerist á Svalbarða, þar er t.d. vestuströndin núna íslaus eins og venjulega.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.4.2009 kl. 21:38

13 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Jamm.

 Það er víst 1. apríl!

Eiríkur Sjóberg, 1.4.2009 kl. 21:46

14 Smámynd: Loftslag.is

Mig minnir að það hafi komið svona ísfrétta-aprílgabb fyrir sirka 10-15 árum í ríkissjónvarpinu, man einhver eftir því?

Loftslag.is, 1.4.2009 kl. 21:50

15 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það virðist enginn muna eftir því, Höski.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.4.2009 kl. 23:59

16 identicon

Malína (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 23:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband