Carl Sagan útskýrir fjórðu víddina

Það muna örugglega margir eftir þáttunum Cosmos sem sýndir voru í Sjónvarpinu árið 1981. Þar var á ferðinni stjörnufræðingurinn Carl Sagan sem leiddi áhorfendur í allan sannleikann um undur alheimsins bæði nær og fjær, eða að minnsta kosti svo langt sem þekkingin náði. Þetta voru alls þrettán þættir og nutu þeir talsverðra vinsælda víða um heim. Mikið var lagt upp úr myndrænum útskýringum þar sem Carl Sagan ferðaðist í kringum plánetur og heilu stjörnuþokurnar  á milli þess sem hann gekk um grösugar lendur jarðar.
Í myndbúti sem hér fylgir hefur Carl Sagan komið sér þægilega fyrir við skrifborð þar sem hann hefur búið til tvívíðan heim - FLATLAND - og gerir með því tilraun til að útskýra takmarkanir okkar til að skynja fjórðu víddina, ef hún er þá til.



Það mætti skrifa hér heilmikið um Carl Sagan og framlag hans til stjörnufræðinnar, en þó má nefna að hann kom mikið við sögu í undirbúningi ómannaðra könnunarferða á vegum NASA til reikastjarnanna auk þess sem hann var mjög áhugasamur um hugsanlegt vitmunalífi utan sólkerfisins. Carl Sagan er ekki lengur á meðal vor en hann lést árið 1996, 62 ára að aldri og er því kannski staddur á öðru sólkerfi þessa stundina. Til nánari fróðleiks um Carl Sagan má benda á ágætis grein á Vísindavefnum frá því í fyrra: http://www.stjornuskodun.is/venus/116-carl-sagan.

Þetta var sem sagt Sjónvarpsnostalgía mánaðarins.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nostalgía!  Ég man að ég komst í hálfgerðan trans við að horfa á þessa þætti.  Ég held ég hafi aldrei - hvorki fyrr né síðar - orðið eins gagntekin af nokkru öðru sjónvarpsefni.  Og þótt víðar væri leitað.  Þetta var einhvern veginn töfrum líkast.

Skyldi maður fá svipaða tilfinningu núna við að sjá þættina aftur?  Líklega ekki...

Malína (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 21:01

2 Smámynd: Loftslag.is

Þetta er algjör snilld - takk fyrir þetta.

Loftslag.is, 28.4.2009 kl. 22:18

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Fyrir mörgum mörgum árum keypti ég bókina The Fourth Dimension: A Guided Tour of the Higher Universes. Ég lá lengi yfir bókinni og naut þess vel.

 The Fourth Dimension: A Guided Tour of the Higher Universes

Ágúst H Bjarnason, 28.4.2009 kl. 22:29

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Svo má bæta því við að stundum er sagt að tíminn sé í rauninni fjórða víddin í tilveru okkar þótt það sé kannski ekki sama skilgreining og hjá eðlisfræðingum. Réttara væri ef til vill að segja að okkar heimur hefur þrjár víddir í rými og eina vídd í tíma (sem er bara lína því við getum ekki farið til hliðar í tímanum). Fjórðu víddina hef ég annars aldrei lagt almennilega á mig að skilja, en Fjórvíddarbókin sem Ágúst bendir á er þó örugglega áhugaverð.

Emil Hannes Valgeirsson, 28.4.2009 kl. 23:46

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Í september s.l. bloggaði ég um fjórðu víddina og undrabarnið Brian Green. Hann er með frábæran fyrirlestur á myndbandi þar. 

Fjórar víddir nægja ekki öllum. Strengjafræðingar vilja hafa þær tíu !!!

Sjá bloggið  Frábær fyrirlestur undrabarns um fjórðu víddina, strengjafræði og tilraunirnar hjá CERN ... Myndband

Ágúst H Bjarnason, 29.4.2009 kl. 08:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband