Vestast í Vesturbænum

Á sólríkum eftirmiðdegi miðvikudaginn 24. júní fór ég í smá vettvangsskoðun á leið heim úr vinnu til að skoða borgarumhverfið við sjávarsíðuna vestast í Vesturbænum. Þarna kennir ýmissa grasa þar sem gamli tíminn mætir þeim nýja. Stundum er þó ekki alveg ljóst hvert leiðinn liggur í uppbyggingu svæðisins eða hvort um sé að ræða uppbyggingu yfirleitt. Hér koma nokkrar myndir.

vestast1

Hlésgata er splunkuný gata sem liggur niður að uppfyllingum þar sem áður var Daníelslippur. Ekki er þó traffíkinni fyrir að fara á þessu einskinsmannslandi.

vestast2

Við Mýragötuna hefur þessi gamli steinbær staðið tímans tönn með miklum sóma. Ef öll uppbyggingaráform svæðisins ganga eftir er hætt við að húsið verði ofurliði borið af nútímalegum stórhýsum. Þau áform virðast þó hafa siglt í strand í bili. Húsið sem í byggingu þarna á bakvið er reist á grunni gömlu Hraðfrystistöðvarinnar og þar var bloggarinninn við störf í þrjú sumur á menntaskólaárunum.

vestast3

Héðinshúsið gamla og umhverfi þess í vestur er afar frjálslegt. Þetta er líka eitt myndskreyttasta hús landsins en svo virðist sem fegrunarnefnd borgarinnar hafi hafið gagnsókn því búið er að mála hluta hússins í grænum litatón. Græna byltingin er kannski hafin og kannski munu þeir mála malbikið grænt í framhaldinu.

vestast4

Meira af „Grænu byltingunni“.

vestast5

Talandi um skrautleg hús þá er þetta ef til vill toppurinn í húsagerðarlist borgarinnar en þetta tvíbýlishús er vel falið í stóru húsaporti við Holtsgötu. Að grunni til er þetta steinbærinn Stóra-Sel sem var byggður árið 1884. Lögbýlið Sel á sér þarna langa sögu eða allt aftur til 14. aldar en við bæinn er kennd Selsvör þaðan sem menn réru til fiskjar í gamla daga.

vestast6

Hvaðan skyldu þessu fákar hafa komið? Er þetta ef til það eina sem eftir er af gamla Tívolíinu í Vatnsmýrinni? Spyr sá sem ekki veit.

vestast9

Við ströndina hjá Eiðsgranda er umhverfið allt hið snyrtilegasta. Merkilegt líka að einhver best heppnaði arkitektúr borgarinnar skuli þjóna virðulegu hlutverki skólpdælustöðva.

vestast7

Að lokum kemur hér steyptur göngustígur við nýleg fjölbýlishús yst við Eiðsgranda. Stígurinn liggur eiginlega ekki neitt nema að skilti þar sem stendur: ALLUR AKSTUR VÉLKNÚINNA ÖKUTÆKJA BANNAÐUR Á LÓÐINNI. Öllu vestar en þetta nær Vesturbærinn ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Að mínu mati er vesturbærin,hjarta Reykjavíkur.

Númi (IP-tala skráð) 24.6.2009 kl. 23:41

2 identicon

Þeir hljóta að hafa verið nýbúnir að sópa, vegna þess að ég hjóla ansi mikið þarna um og þá eru allta glerbrot um allar götur.

kveðja Rafn.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 18:10

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Gekk Hlésgötu í kvöld og það var einkennilegt að sjá strandbyggðina frá nýju sjónarhorni.

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.6.2009 kl. 21:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband