Sundskýlan í Feneyjum

sundskýlan

Það hafa verið nokkrar umræður um framlag Íslands til Feneyjartvíæringsins í ár ekki síst eftir að listamaðurinn Þórður Grímsson steig fram og líkti þessu sjónarspili við nýju fötin keisarans, nú síðast í laugardagsblaði Moggans. Einnig kemur fram gagnrýni á kostnaðinn við þetta sýningarhald. Það þykir allavega mörgum frekar kyndugt að halda uppi listamanni í sex mánuði suður í Feneyjum þar sem hann málar reykjandi og drekkandi félaga sinn á speedo-sundskýlu og að vegsama þetta allt að auki sem einhverja ógurlega snilld.

Ég hef reyndar haft mínar efasemdir um ágæti Ragnars Kjartanssonar sem myndlistarmanns en miðað framlag hans til æðri lista er auðvelt að fá á tilfinninguna að hann sé annaðhvort ofmetinn kjáni eða gegnheill snillingur. Eftir að hafa velt þessu aðeins fyrir mér er ég hinsvegar búinn að átta mig á því að hann er nær því að vera en sannur snillingur heldur en hitt. 

Í Lesbókargein fyrir nokkrum vikum var t.d. haft eftir Ragnari að við Íslendingar værum bestir þegar við erum amatörar og við hefðum oft náð langt á þeim forsendum, þetta kæmi sér hinsvegar illa þegar um bankastarfsemi er að ræða. En það er eitthvað við þennan hæfileikasnauða amatörisma sem höfðar til mín. Ef Ragnar væri snilldarmálari þá gengi verkið ekki upp þarna í Feneyjum. Nýju fötin keisarans er kannski rétt skilgreining en ekki í neikvæðum skilningi því verkið er einmitt nýju fötin keisarans og á að vera það. Ég lít því á þennan gjörning í heild sinni sem upphafningu á hinu harmræna hæfileikaleysi þar sem ekkert nema ósigur í rómantískur anda mun blasa við í lokin. Staður og stund skipta þarna líka máli enda eiga Feneyjar sér mikla menningarsögu, þeir lögðu sin skerf til endurreisnarinnar með Feneyjarmálurunum og þarna er listamaðurinn staddur í 600 ára gömlum salarkynnum innan um alla myndlistarhefðina og málar eina mynd á dag með How to Paint bókina við höndina.

Með sundskýlugjörningnum í Feneyjum vaknar líka sú sígilda spurning hvað sé list og hvar eru mörkin á milli listar og hreinnar vitleysu. Mér finnst þetta óþarfa vangaveltur því það sem gert er í listrænum tilgangi hlýtur alltaf að vera list, sama hversu vitleysan virðist mikil. Það er heldur ekkert sem bannar hæfilega gamansemi í myndlist. List má vera alvarleg með háfleygum boðskap, en það er þó ekkert sem segir að svo eigi alltaf að vera. Fólk má auðvitað hafa sína persónulegu skoðun á því hversu merkilegt því finnist viðkomandi listaverk vera en bæði hin sterku neikvæðu og jákvæðu viðbrögð við sundskýlugjörningnum í Feneyjum ýtir undir þá skoðun mína að hér hafi vel tekist til. 

- - -

In THE END langar mig að bæta við hádramatískum endi kvikmyndarinnar Dauðinn í Feneyjum, sem gerð var eftir skáldsögu Thomas Mann, tónlistin er úr 5. sinfóníu Gustaf Mahler.  

Myndirnar með pistlinum eru úr grein Ragnar í New York Times:

http://www.nytimes.com/2009/06/04/arts/design/04icel.html


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Karl

51 milljón er náttúrulega mikið í lagt. En það er kannski hluti af gjörningnum? "Listaverkið" væri ekki jafn frábært ef ævintýri Ragnars og félaga kostaði bara einhverjar skitnar 5 millur...

Einar Karl, 30.6.2009 kl. 22:41

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Peningar hafa ekkert með innihald gjörningsins að gera. En annars virðist fólk hugsa lítið um annað en peninga þessa dagana.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.7.2009 kl. 13:44

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það kemur reyndar fram í fréttinni sem Einar Karl tengir í að kostnaður sé 23 milljónir.  En hvað um það, sniðugur gjörningur hjá Ragnari engu að síður, megi honum ganga sem best með þetta.

Sveinn Atli Gunnarsson, 1.7.2009 kl. 18:01

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þá kostnaður ríkisins að sjálfsögðu

Sveinn Atli Gunnarsson, 1.7.2009 kl. 18:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband