Valhöll að fornu og nýju

Hótel ValhöllValhöll á Þingvöllum er fallin í valinn, varð grillinu að bráð. Eins og brunavarnarmenn voru búnir að vara við varð bruninn skjótur og breiddist út eins og eldur í sinu. Það höfðu ýmsir haft horn í síðu Valhallar og töldu hana lítt merkilegt samansafn af misgömlum byggingum sem varla hæfðu þessum heilaga stað. Hugmyndir voru því uppi um að rífa þetta hreysi og byggja þess í stað virðulega nútímabyggingu sem þing lýðveldisins hefði til afnota á tyllidögum. Hótelrekstur og kaffisala fyrir almenning þótti að sama skapi ekki viðeigandi á þessum helgistað sem er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Óbreyttir gestir voru samkvæmt þessu betur komnir á útjaðri svæðisins vildu þeir þiggja veitingar, þótt almenningur geti auðvitað alltaf étið sitt nesti á brúnum Almannagjár.

Valhöll var, hvað sem hver segir, fallegt og reisulegt hús, byggt í hinum þjóðlega burstabæjarstíl en sá stíll var tilraun á sínum tíma til að koma á fót íslenskum húsagerðarstíl með hinn íslenska torfbæ sem fyrirmynd. Það var ekki nóg með að fegurð umhverfisins gerði húsið fallegra heldur gerði fegurð hússins Þingvelli líka fallegri en þannig er einmitt háttað með hús sem standa í góðri sátt við umhverfi sitt. Kannski verður ekkert byggt þarna aftur í nánustu framtíð. Ef hinsvegar verður byggt þarna er auðvitað ekki sama hvernig það hús mun líta út. Nærtækast er að endurbyggja Valhöll í sinni gömlu þjóðlegu mynd allavega hvað framhliðina varðar en þó þannig að öllum nútímabyggingastöðlum sé framfylgt.

Nýtímabyggingar geta auðvitað líka verið fallegar en það er samt allur gangur á því. Ný Valhöll getur haft skírskotar til hinnar upprunalegu Valhallar sem samkvæmt Ásatrúnni var bústaður Óðins. Þar bjuggu einnig þeir sem fallið höfðu í valinn og gátu haldið þar áfram sinni uppáhaldsiðju sem var að berjast á daginn og drekka á kvöldin. Seinni tíma Valhallarmenn voru hins vegar þekktir fyrir að græða á daginn og grilla á kvöldin. Sá gróði fór hins vegar aðeins úr böndunum rétt eins og eldurinn í Valhallargrillinu á Þingvöllum.

Valhöll hin nýja


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Finnst gamla byggingin bara nokkuð falleg og vekur endurminningar úr barnæsku.Seinni myndin er af húsi sem hæfir betur í Varsjá eða æfingaverkefni í rússneskum eftirstríðsáraarkitektúr.

Hörður Halld. (IP-tala skráð) 15.7.2009 kl. 15:37

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ætli það verði nokkuð byggt á þessum reit aftur? Væntanlega verður fundinn annar staður fyrir svona starfssemi...

Annars er mín persónulega meining sú, að ef að það ætti að byggja þarna eða í nágreninu, þá ætti að gefa arkitektum lausan tauminn og sjá hvað út úr því myndi koma. Svo ætti velja bestu hugmyndina, ég er viss um að það gætu komið margar góðar hugmyndir út úr því, bæði nýmóðins og í burstabæjarstíl, það gæti verið gaman að sjá hvað okkar góðu arkitektar hefðu upp á að bjóða. Byrja bara með autt borð í boði hins nýja Íslands

Sveinn Atli Gunnarsson, 15.7.2009 kl. 18:55

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Því ekki að byggja 30 hæða turn svo víðsýni ríki. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.7.2009 kl. 19:16

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Já við getum kannski fært þann sem er á Höfðatorgi, hann er ekki í notkun hvort sem er

Sveinn Atli Gunnarsson, 15.7.2009 kl. 19:25

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég er svo íhaldssamur þegar kemur að svona málum að ég vil helst hafa allt eins og það var á Þingvöllum, en það má þó endurbæta. Húsið á neðri myndinni fer sennilega betur þar sem það er í dag á Háaleitisbraut 1 í Reykjavík.

Emil Hannes Valgeirsson, 15.7.2009 kl. 19:51

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það eru væntanlega margir sammála þér í því Emil. Ég myndi vilja, ef sú staða kæmi upp, sjá eitthvað  sem passaði inn í umhverfið þarna, þó það yrði ekki endilega eins og það var. Það er í raun það sem ég átti við í fyrstu athugasemdinni minni.

Sveinn Atli Gunnarsson, 15.7.2009 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband