Grösin okkar, stór og smá

Nú er hásumar og grösin gróa. Hér í Reykjavík hefur veðrið verið með þvílíkum eindæmum að miðaldra menn hljóta vart að muna annað eins. Það er þó hætt við því að gróðurinn sé ekkert sérstaklega hamingjusamur yfir þurrkatíðinni í borginni enda hefur varla rignt að nokkru ráði vikum saman. Þessi pistill fjallar annars um grös og grastegundir þær sem eru algengastar í umhverfi okkar. Ég fór nefnilega í grasaleiðangur einn sólskinsdaginn þar sem ég tók myndir af nokkrum grastegundunum og setti svo saman smá lesefni um hverja tegund fyrir sig. Á sínum tíma kynntist ég nefnilega grösum nokkuð og áttaði mig á að þar kennir ýmissa grasa og þegar grösin fá að spretta óslegin kemur í ljós úr hverju þau eru gerð. 

Háliðagras

 

Fyrst skal nefna Háliðagras en ég tek það fyrir fyrst vegna þess að það þroskast snemma sumars á undan flestum öðrum tegundum. Þetta er hátt gras með þéttan axarpunt á löngum stilkum sem ná oftast vel upp fyrir aðrar grastegundir. Flestir ættu að kannast við að hafa rennt fingrunum eftir stilkunum og um smáaxið sem reitist mjög auðveldlega af. Þetta er innflutt ræktunartegund sem hefur dreifst sér mikið og vex víða sem villt tegund í bæjum og sveitum, ekki síst á óræktuðu svæðum.

 Vallarfoxgras

 

 

Vallarfoxgras er einnig innflutt tegund og er svipað háliðagrasi en ekki eins hávaxið og þroskast seinna. Þetta er mjög uppskerumikil grastegund og er uppistaðan í túnræktun til sveita og er sennilega aðalnytjaplantan á Íslandi. Þótt sjá megi vallarfoxgras víða er það ekki mjög áberandi á óræktuðum svæðum því það þarf næringarríkan jarðveg. Axið er vel fast við stöngulinn og því ekki hægt að renna því af eins og á háliðagrasi.

Snarrótarpuntur

 

 

Snarrótarpuntur er mjög öflug grastegund sem vex víða villt og getur myndað háar og þéttar breiður og er punturinn stór og fyrirferðamikill. Þetta er ágætis landgræðsluplanta enda mjög harðger en er ekki góð túnplanta því hún myndar smáþúfur sem þykir ekki fínt í góðum grasflötum. Blöð snarrótarpuntsins þekkjast á því að þau eru hrjúf viðkomu að neðanverðu. 

Vallarsveifgras

 

 

 

 

Sveifgras finnst um allt land bæði sem villt planta og sem túngras, enda er hún harðger og myndar þéttan og góðan grassvörð. Sveifgras finnst því bæði í túninu heima sem og hátt uppi í fjöllum ef næring er til staðar. Blöðin eru frekar mjó og þekkjast á því að endinn á þeim er með nokkurskonar bátslagi. Ýmsar tegundir eru til af sveifgrösum og af þeim er vallarsveifgras frægast og algengast hér á landi.

Língresi

 

Ýmsar fíngerðar grastegundir má svo víða finna eins þetta língresi, en þegar kemur að þessum smærri grösum fer að vandast málið með flokkunina enda tegundir margar. Hálíngresi er til dæmis algengt í grasflötum ásamt túnvingli sem er einmitt á síðustu myndinni hér. Túnvingull er mjög algeng tegund allstaðar á landinu á láglendi sem og hálendi þótt ekki fari mikið fyrir henni enda er þetta er frekar mjóslegin planta með afar grönnum blöðum. 

Túnvingull

 

 

 

 

 

Það má nefna í lokin að þegar þetta er skrifað, er ég enn að jafna eftir frjókornaárásina sem ég varð fyrir í myndaöfluninni, sérstaklega þegar ég var innanum snarrótarpuntinn. Læt ég þetta því nægja af grösum.

Flestar myndirnar voru teknar í Reykjavík þriðjudaginn 21. júlí. Myndin af háliðagrasinu var tekin í júní, en myndin af túnvinglinum er fengin að „láni“ á netinu. Mér til halds og traust leitaði ég svo nokkurra upplýsinga á vefnum: http://www.floraislands.is/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Þakka pistilinn. Mér fannst fróðlegt að rifja upp kynnin við grösin frá því að ég var í heyskap fyrir margt löngu og svo var okkur húsmæðrakennaranemum gert að safna plöntum og pressa, þar á meðal grösum. Svo var að greina og skrifa allar upplýsingar, fundarstað og tíma.

Ekki hefur nú reynt mikið á þessa þekkingu í heimilisfræðikennslu, en gaman er að því að hafa þessa reynslu og þekkingu, þó auðveldast sé að fletta upp á síðunni sem þú notaðir.

Hólmfríður Pétursdóttir, 22.7.2009 kl. 16:58

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nú fer þessu sumargamni að ljúka og kuldaboli fer að stanga fólk.

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.7.2009 kl. 17:31

3 identicon

Já þetta minnti mig bara á sveitina í gamla daga. Hef tekið ómeðvitað eftir öllum þessum grösum.

Ólafur Unnar Kristjánsson (IP-tala skráð) 23.7.2009 kl. 12:16

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég var að vísu aldrei sendur í sveit, en þar er víst mikið af grösum.

Emil Hannes Valgeirsson, 23.7.2009 kl. 14:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband