Kúbuhatturinn 20 ára

með hattinn

Á þessum degi 26. júlí er við hæfi að rekja tilurð hattsins sem ég er með á smámyndinni. Þetta er nefnilega ekki hvaða hattur sem er því hann tengist sjálfum Fidel Castro fyrrverandi Kúbuleiðtoga traustum böndum og er ennþá sem nýr þó ég hafi átt hann í 20 ár. Þó ég sé ekki með hattinn svona dags daglega, þá nýtist hann mér oft vel, ekki síst þegar sólin skín beint á mig er ég sit við tölvuna á sumarkvöldum.

Kúba moksturEn það var annars þannig að í júlímánuði árið 1989 fór ég ásamt nokkrum Íslendingum og fjölda annarra Norðurlandabúa í vinnuferð  til Kúbu til að leggja hönd á plóg til að stuðla að framgangi byltingarinnar og fá í staðinn ýmsa fræðslu um land og þjóð með smá rommi saman við. Á myndinni hér til hliðar má einmitt sjá mig í átökum við kúbanskan jarðveg í mikilli hitasvækju, sem sést þó ekki á myndinni.
Það var svo í fjórðu viku ferðarinnar, eða þann 26. júlí, sem öllum hópnum var boðið á stóran útifund þar sem leiðtoginn Fidel Castró hélt eina af sínum miklu ræðum. Þar kemur einmitt hatturinn við sögu því þá fengum við í hópnum þessa fínu stráhatta gefins til að vera með á fundinum. Á hattinum stendur SIEMPRE EN 26 Ciego de Avila, eða: ÁVALLT ÞANN 26. Ciego de Avila (sem er bærinn þar sem fundurinn var haldinn). Í ræðu sinni (sem ég hlustaði á með aðstoð túlkunartækis) rakti Fidel allt það sem hafði áunnist á þeim 30 árum sem sem liðin voru frá dögum byltingarinnar. Var það auðvitað löng upptalning og þarf varla að taka fram að undirtektir tugþúsunda innfæddra voru á afar jákvæðum nótum, þótt þeir hafi ekki fengið hatta eins og við Norðurlandabúarnir í hinni svokölluðu Brigada Nordica sjálfboðaliðasveit.

Þessi dagur, 26. júlí er að vísu ekki byltingardagurinn á Kúbu. Hinsvegar markar hann eiginlegt upphaf byltingarhreyfingar þeirra Castró og félaga þegar þeir gerðu misheppnaða árás á herbækistöð þann 26. júlí árið 1952. Í kjölfarið voru þeir handteknir, stungið í steininn og síðan sendir í útlegð í Mexíkó. Þar kynntust þeir Che Guevara og upphugsað var nýtt byltingarplan sem endaði með falli einræðisherrans Batista í ársbyrjun 1959. Það þýðir að Kúbanska byltingin er orðin 50 ára. Hatturinn er hinsvegar 20 ára í dag og Castró og byltingin enn á lífi, þótt heilsunni sé eitthvað farið að hraka. Þannig var nú það.

Castró fundur

Brigada Nordica-hópurinn með splúnkunýja hatta á útifundi með Castró 26. júlí 1989.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Var möguleiki að fá vinnu í fangabúðunum?

Kristján Sigurður Kristjánsson, 26.7.2009 kl. 14:13

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta er svona ertuhætturaðlemjakonunaþína-spurning sem er ekki hægt að svara.
Nema þú sért að meina Bandarísku Guantanamo fangabúðirnar, en þær tóku til starfa seinna. 

Emil Hannes Valgeirsson, 26.7.2009 kl. 17:23

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Margir eru örugglega á höttunum eftir þessum höttum.

Þorsteinn Briem, 26.7.2009 kl. 18:35

4 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Nei ég meina að mér finnst það skrítið að hafa gengið í lið með glæpamönnum og skammast sín ekki fyrir það. Eða er Castro kanske ekki glæpamaður?

Kristján Sigurður Kristjánsson, 26.7.2009 kl. 19:39

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ef svo er þá er ég bara samsekur, en það má auðvitað líta á ýmsa sem glæpamenn og þá er víða að finna. Byltingin á Kúbu fólst ekki síst í því að færa framleiðslu og auðlindir landsins í hendur heimamanna en þær voru áður að mestu í eigu erlendra stórfyrirtækja, aðallega Bandarískra. Það gerðist svo síðar að byltingunni var lýst sem sósíalískri þegar bandalag komst á við Rússa enda áttu Kúbanir ekki í önnur hús að venda þegar viðskiptabanni var komið á af Bandaríkjamönnum. Ógæfa Kúbu fólst svo ekki síst í því að þeirra hlutverk meðal kommúnistaríkja var að framleiða sykur fyrir Austurblokkina. Það leiddi til mikillar einhæfni enda fóru Kúbanir mjög illa út úr hruni Evrópukommúnismans á árunum eftir 1989. En ég skammast mín ekkert fyrir að leggja þriðja heims þjóðum lið þótt deila megi um stjórnarfarið.

Emil Hannes Valgeirsson, 26.7.2009 kl. 20:29

6 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Menn hafa vissulega átt kost á að leggja "þriðja heims þjóðum" lið. 1936 gafst íslenskum ungmennafélögum kostur á áð berjast bæði með og móti Franco. Ungu fólki gafst líka kostur á að berjast með félögum Castro í "þriðjaheiminum" í Suðurameríku og líka í Angóla. Ungum mönnum gafst líka kostur á að vera leyniskyttur í stríðinu í Júgóslavíu fyrir smánargreiðslu, sumir fengu meira að segja að lifa skemmtilegu kynlífi með múslímastelpum.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 27.7.2009 kl. 22:25

7 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ekki má gleyma hinum góða kosti að vinna frítt fyrir svipaða herra í hinu heilaga Ísrael.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 27.7.2009 kl. 22:33

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég var nú bara að grafa þarna fyrir undirstöðum að leikskóla í litlu þorpi.

Emil Hannes Valgeirsson, 27.7.2009 kl. 22:55

9 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Já eftilvill er ég ekki alveg sanngjarn. Nú er ég undir sterkum áhrifum eftir að hafa horft á myndina um síðustu daga Hitlers sem byggð er á frásögn ungs ritara hans. Hún sagðist í upphafi myndarinnar hafa verið ung og saklaus en í lok myndarinnar segir hún það enga afsökun og hafi gert sér grein fyrir því löngu seinna þegar hún gekk framhjá minnismerki jafnöldru sinnar sem var hengd fyrir andstöðu við sama Hitler.

Mér er einnig hugsað til sjálfs mín 1976 þegar ég var að læra undir það að vera tekinn í Einingarsamtök Kommunista þá átján ára. Ég hætti eftir sex mánaða lærdóm þar sem ég gat ekki hugsað mér að myrða Geir Hallgrímsson þáverandi forsetsráðherra.

Því get ég tekið undir með ritaranum: Það er engin afsökun að vera ungur.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 27.7.2009 kl. 23:34

10 Smámynd: Kama Sutra

  Flottur hattur á flottum karlmanni.

Kama Sutra, 27.7.2009 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband