Tvær veðurmyndir og einn staur

Það hefur verið fjölbreytilegt skýjafar í nágrenni Reykjavíkur undanfarið þótt sólin hafi líka skinið glatt. Bólstraskýin hafa fengið að bólgna út í friði í hægviðrinu þegar sólin segir til sín og greinilega er nægur raki í lofti til að framkalla hressilegar skúradembur inn til landsins. Svo hefur sjávarþokan einnig látið á sér kræla en hún er þó fljót að hverfa þegar sólin hækkar á lofti. Allt getur þetta verið ákaflega myndrænt.

Þokuský

Fyrsta myndin er tekin í hádeginu þriðjudaginn 11. ágúst og er horft frá Seltjarnarnesi yfir á Eiðsgrandann. Mikil rakaþétting greinilega í fullum gangi niðri við sjávarmál en hæstu húsin standa uppúr. Í fjarska hafa bólstraskýin stigið upp. Það er ekki oft sem maður sér svona blöndu og ekki stóð þetta lengi því þokan var horfin skömmu síðar.

 

Skúraský Nesstofa

Kvöldið áður þann 10. ágúst mátti sjá þetta myndarlega skúraský inn til landsins en það er Nesstofan sem er í forgrunni. Uppstreymið sem myndaði þetta skúraský var þó að syngja sitt síðasta enda sólin óðum að setjast. Skýið var því ekki nema svipur hjá sjón þegar á leið.

 

Staur

Á sama tíma þarna úti á Nesi mátti sjá þennan gamla staur umflotinn sjó í kvöldflóðinu. Áður fyrr hefur hann sjálfsagt haldið upp raflínu út í Gróttuvita. Í dag er hann eiginlega bara staurblankur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mikið eru þetta skemmtilegar myndir! Ég fer að hallast að því sem Siggi (nimbus) segir - að veðurblogg sé eina almennilega bloggið.

Og takk fyrir Esjupælingarnar - myndirnar og það allt saman. Ég hef Esjuna fyrir augum í hvert sinn sem ég lít upp og hef mjög gaman af þessum Esjupælingum þínum.

Lára Hanna Einarsdóttir, 12.8.2009 kl. 01:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband