Harðindavetur framundan

Kerhólakambur

Í fyrravetur urðu ákveðin umskipti hér á landi sem og víðar sem benda ótvírætt til þess að veturinn sem framundan er verði með alharðasta móti. Við þekkjum úr sögunni lýsingar á alvöru harðindavetrum sem fengið hafa nöfn eins Píningsvetur, Lurkur, Svellavetur og á síðustu öld var það Frostaveturinn mikli. Það á eftir að koma í ljós hvað komandi vetur mun verða kallaður, en mér dettur í hug nöfn eins og Gengisfellingavetur, Fjármagnskostnaðarvetur, Verðbólguvetur, Uppsagnavetur, Gjaldþrotavetur og svo framvegis. Kannski eru þetta þó full óþjál nöfn, kannski mun hann einfaldlega bara heita Þrotavetur eða Þrotaveturinn mikli. Harðindi á vorum dögum eru semsagt ekki lengur bundin við duttlunga náttúrunnar eins og áður því nú er það hið manngerða fjármálakerfi sem ræður afkomu okkar. En ólíkt þeim vanda sem stafar af náttúruöflunum er fjármálavandi eitthvað sem við sem þjóð komum okkur sjálf í með ofmetnaði og hina óbilandi bjartsýni að leiðarljósi.

Það getur verið að einhver kannist við þennan texta sem ég skrifaði kvöldið 28. september í fyrra og lauk við hálftíma eftir miðnætti. Strax morguninn eftir að bloggfærslan birtist gerðust svo þeir atburðir sem mörkuðu upphaf fjármálahrunsins. Það má því segja að þarna hafa ég náð að vara þjóðina við komandi hörmungum, þó kannski hafi sú viðvörun komið helst til of seint. Eins og sést þá beitti ég ísmeygilegri aðferð til að villa um fyrir saklausum lesendum um innihald bloggfærslunnar, en fyrsta athugasemdin kom fljótlega frá Láru Hönnu Einarsdóttur sem sagði: (með leyfi fundarstjóra)

„Sjúkkit… ég hélt að fyrirsögnin ætti við veðrið! Ætli einhverjir kalli þetta ekki Kreppuveturinn mikla eða Hallærisveturinn hörmulega. En við þreyjum þorrann að venju, trúi ég.“

Kannski ekki svo mikið „Sjúkkit … “ getum við sagt nú að ári liðnu. 

Það gerðu annars flestir sér grein fyrir því í fyrrahaust, að það yrði á brattan að sækja í fjármálalífi landsins þótt fæstir hafi átt von á þeim harðindum sem áttu eftir að skella á eins og hendi væri veifað. Þáverandi Dómsmálaráðherra var til dæmis ekki betur með á nótunum en svo að boðskapur hans helgina fyrir hrun snérist um lögregluembættismál í Reykjanesbæ:

tveir bloggarar

Ég hef annars ekkert að ráði fjallað um kreppuharðindin og allt vesenið þeim tengd. Þar ræður ekki síst ströng ritstjórnarstefna mín sem bannar allt slíkt hér á þessu bloggi. Hins vegar hef ég stöku sinnum farið í kringum mín eigin lög og reglur og fjallað óbeint um ástandið og orsakir þess. Þar á ég við bloggfærslur eins og Íshafið og hinn kaldi veruleiki og Medúsa flekinn þar sem ég leitaði á náðir myndlistarsögunnar. Það sem ég skrifaði um Titanicslysið og jafnvel Britney Spears má líka líta á í þessu ljósi ásamt ýmsu fleiru. Það verður þó að segjast eins og er að ég hef ekki alveg fundið taktinn í þeirri almennu reiðibylgju sem einkennt hefur umræðuna og þrátt fyrir að ég hafi stundum mætt á mótmælafundi á Austurvelli síðasta vetur var hugurinn oft allt annarsstaðar en hann átti að vera.

Ég hef heldur ekki alveg fundið taktinn í þeirri reiðibylgju, sem orðið hefur til þess að margir bloggarar hafa yfirgefið þetta bloggsamkvæmi uppá síðkastið. Ég ætla að halda hér áfram á meðan ég nenni og hef eitthvað að skrifa um og það samkvæmt minni eigin ritstjórnarstefnu. Alltaf finnst mér þó að það sé farið að styttast í þessu hjá mér. Ég mun þó halda áfram að vara þjóðina við komandi hörmungum ef mér finnst ástæða til. Það er kannski vegna þess sem ég kom með þessa endurtekningu - mér finnst nefnilega full ástæða til að vara við komandi efnahagslegum harðindavetri, en hvet í leiðinni alla til að klæða sig vel á næstu dögum.

(Undirstrikuð orð eru tengiliðir á viðkomandi bloggfærslur)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:

Þakka aðvörunina - ei veldur sá er varar

, 29.9.2009 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband