Nýjar myndir úr miðbænum - Breski herinn er mættur!

Maður heyrir það gjarnan þessa dagana að fólk sé búið að fá leið á þessu ICESAVE máli og öllum þeim skotgrafarhernaði sem viðgengst í umræðunni um það mál. Að vísu hefur ICESAVE málið aldrei verið hugsað sem eitthvert afþreyingarefni fólki til skemmtunar sem er hægt að fá leið á. En nú er runninn upp tími ákvarðanna og þolinmæði Breta og Hollendinga senn á þrotum, því auðvitað vilja þeir sjá til þess að við berum þá ábyrgð sem okkur ber, á þeim fjármunum sem við fluttum hingað til lands á kostnað grandvaralausra ICESAVE reikningshafa.
Það kom mér því ekkert sérstaklega á óvart þegar ég átti leið um bæinn í dag, að sjá innheimtuaðgerðir í undirbúningi þar sem erlent herlið er búið að hreiðra um sig á hernaðarlega mikilvægum stöðum í miðbænum. Því til staðfestingar koma hér nokkrar myndir:

Her Grjótaþorp

Þessi mynd er úr Grjótaþorpinu, en þar sá ég þessa vígalegu hermenn í skriðdreka á spjalli við liðsforingja sinn. Allt var þó með kyrrum kjörum enda hafði útgöngubanni verið komið á í hverfinu.
- - - - - 

Her Austurvöllur

Fyrir utan Dómkirkjuna mátti sjá harðsnúinn flokk Breskra og Hollenskra sérsveitarmanna. Þeir kváðust nýkomnir frá Afganistan þar sem þeir eltust við meinta hryðjuverkamenn. Liðsmenn Indefence-samtakanna hafa tekið sér stöðu fyrir utan Alþingishúsið.
- - - - - -

Prins

Þennan dáta hitti ég svo niðri við pulsuvagn. Ég tók hann tali og kvaðst hann vera prins og þótti pylsan góð. Ekki virtist hann vera með á hreinu í hvaða erindagjörðum hann var sendur hingað, en var að hugsa um að skella sér á öldurhús um kvöldið ásamt félögum sínum.

- - - - - -
Í framhaldi af þessu skulum við vona að þetta verði gott og vinsamlegt stríð og umfram allt - laust við skotgrafarhernað. Það mun þó ekki viðra nema svona rétt sæmilega til loftárása á næstunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Við skulum nú ekki gleyma því að einu sinni var erlent herlið á götum Reykjavíkur  og allt líf í landinu var markerað af því. Það voru loftvarnaræfingar og í nokkur skipti var blásið í þær þegar sást til þýskra flugvéla. Þó stríðið hafi verið barnaleikur á Íslandi miðað við það sem gerðist í Evrópu höfum við samt lifað stríðsástand. Það er eiginlega soldið erfitt að ímynda sér það fyrir önnur eins unglömb og við erum!

Sigurður Þór Guðjónsson, 26.10.2009 kl. 21:50

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Eitthvað hef ég heyrt af hernáminu. En þessi veruleiki er okkur unglingunum fjarlægur sem betur fer, en hann er aldrei útilokaður.

Emil Hannes Valgeirsson, 26.10.2009 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband