Heimshiti og Reykjavíkurhiti 1901-2017

Mér finnst alltaf forvitnilegt að bera saman hitaþróun í Reykjavík við hitaþróun jarðarinnar í heild. Slíkan samanburð setti ég upp á línurit á sínum tíma en hér birtist ný útgáfa þar sem árið 2017 er komið inn. Til að fá réttan samanburð er hitaskalinn samræmdur og ferlarnir því í réttum hlutföllum gagnvart hvor öðrum. Reykjavíkurhitinn er teiknaður út frá árshita en heimshitinn er samkvæmt venju sýndur sem frávik frá meðaltali. Ég stilli ferlana þannig af að núllið í heimshitanum er við 4,5 stig í Reykjavíkurhita en út úr þessu kemur alveg fyrirtaks samanburðarmynd, svo ég segi sjálfur frá. Bollaleggingar eru fyrir neðan mynd.

Reykjavíkurhiti og heimshiti 1901-2017

Bollaleggingar: Fyrir það fyrsta þá sést vel á þessari mynd hversu miklu meiri sveiflur eru í árshita milli ára í Reykjavík en á jörðinni í heild. Það er eðlilegt því Reykjavík er auðvitað bara einn staður á jörðinni og ræðst árshitinn því að verulegu leyti af tíðarfari hvers árs. Allt slíkt jafnast að mestu út þegar jörðin í heild á í hlut. Reykjavíkurhitinn sveiflast mjög í kringum heimsmeðaltalið en í heildina virðist þróunin hér vera mjög nálægt hlýnun jarðar. Hitinn hefur þó sveiflast mjög hér hjá okkur, bæði milli ára og einnig á áratugaskala. Hlýju og köldu tímabilin á okkar slóðum eru þó staðbundin að mestu og má líta á þau sem tímabundin yfir- og undirskot miðað við heimshitann.

Það vill svo til að Reykjavíkurhitinn og heimshitinn enda alveg á sömu slóðum á línuritinu. Í Reykjavík var hitinn á liðnu ári mjög nálægt meðalhitanum frá aldamótum. Hitinn í Reykjavík hefur reyndast sveiflast heilmikið á allra síðustu árum. Árin 2014 og 2016 voru nálægt árshitametinu frá 2003 en á milli þeirra féll meðalhitinn niður í 4,5 stig sem er kaldasta ár aldarinnar í borginni, þótt það hafi í raun ekki verið neitt sérstaklega kalt. Á heimsvísu er árið 2017 yfirleitt talið í 2.-3. sæti yfir hlýjustu árin. Auðvitað er alltaf einhver óvissa í svona niðurstöðum t.d. þegar borin eru saman hlýjustu árin. Enginn vafi er þó á því að síðustu þrjú ár hafa verið mjög hlý á jörðinni sem einkum má rekja til öflugs El Nino ástands veturinn 2015-16.

Hvað tekur við nákvæmlega er lítið hægt að segja um. Þróun hitafars jarðar næstu áratugi er þekkt hitamál. Sumir treysta sér til að segja að það sé að kólna og hafa sagt það lengi á meðan almennt er talið að það haldi bara áfram að hlýna. Ef við spáum þó bara í þetta nýbyrjaða ár þá er ómögulegt að segja til um hvort það verði hlýrra en 2017 í Reykjavík í ljósi þeirra miklu sveiflna sem eru á milli ára. Á jörðinni í heild gæti árið 2018 orðið eitthvað kaldara en síðasta ár vegna kalds La Nina ástands í Kyrrahafinu og svo hjálpar ekki að sólvirkni er í lágmarki um þessar mundir. Varla er þó neitt hrun í heimshitanum framundan en næsti kippur upp á við verður svo þegar hinn hlýi El Nino bregður sér á leik á ný á Kyrrahafinu.

Benda má á hér í lokin að þessi mynd fer í geymslu í myndaalbúminu Veðurgrafík hér á síðunni en þar má finna ýmsar misnýlegar myndir sem ég hef sett upp.

 


Allt í plasti

Plastströnd

Fyrir stuttu rak á fjörur mínar frétt erlendis frá sem greinir frá niðurstöðum þýskrar rannsóknar um uppruna plastmengunar í úthöfunum. Rannsóknin var birt í tímaritinu Environmental Science and Technology síðastliðið haust og kom þar fram að um 90% af plastinu kemur frá 10 stórfljótum í heiminum. Nánar tiltekið er um að ræða Níl og Nígerfljót í Afríku, Ganges og Indus á Indlandi, Gulafljót, Yangste, Haihe og Perlufljót í Kína, Mekong í Suðaustur-Asíu og Amur sem rennur um landamæri Rússlands og Kína. Árnar liðast um löndin eins og æðakerfi líkamans og þannig safnast í stórfljótin allt það plastrusl sem einu sinni hefur fundið sér farveg í lækjum og vötnum inn til landsins. Stórtækastar eru þó milljónaborgir í Suðaustur-Asíu og Afríku sem liggja gjarnan meðfram fljótunum eða við ósasvæði þeirra. Fleiri smærri ár víðsvegar um heiminn, aðrar en þær áðurnefndu, koma auðvitað líka við sögu enda eru fyrirkomulag sorpmála víða í algerum ólestri í þriðja heiminum. Í nóvember sl. var til dæmis frétt um fljótandi plasteyju í Karíbahafinu sem rakin er til fljóts sem rennur til sjávar í Hondúras eftir að hafa safnað í sig miklu plastrusli inn til landsins í Guatemala. Þannig geta sprottið upp milliríkjadeilur um ábyrgð og lausn á staðbundnum vandamálum.

En plastvandinn er ekki staðbundinn heldur hnattrænn vandi sem fer sífellt versnandi eins og svo margt annað sem tengist lifnaðarháttum mannsins. Heilmikil vitundarvakning hefur átt sér stað meðal almennings hér á landi þótt lítið virðist hafa verið vitað um uppruna plastsins svona almennt. Áherslur til úrbóta hafa ef til vill verið nokkuð handahófskenndar. Aðaláherslan hefur verið lögð á að takmarka notkun plastpoka við matarinnkaup sem í sjálfu sér er góðra gjalda vert en langflestir plastpokar enda reyndar ekki í sjónum heldur sem ruslapokar sem síðan fara út í tunnu ásamt öðru heimilisplasti, annað hvort til urðunar eða endurvinnslu. Ekkert hef ég þó séð um það hvort urðað plast valdi plastmengun í höfunum enda efast ég um að svo sé. Bent hefur verið á að heilmiklu af rusli er losað í sjóinn frá skipum og veiðarfæri eiga það til að losna upp og valda miklum skaða í lífríkinu. Þá hefur komið fram að þvottur á fatnaði úr gerviefnum (t.d. flísfatnaðar) sé stór uppspretta smárra plastagna í sjónum auk þess sem ýmis snyrtiefni innihalda plastagnir.

Margt þyrfti að gera á mörgum sviðum hvar sem er í heiminum. En eins og gjarnan þar sem um hnattrænan vanda er að ræða þá hlýtur að vera árangursríkast að leysa vandann þar sem hann er mestur og einbeita sér að stóru uppsprettunum. Þess vegna hlýtur að vera gagnlegt að vita að megnið af plastinu í sjónum kemur frá nokkrum stórfljótum sem renna um lönd þar sem umhverfismál eru styttra á veg komin en hjá okkur fyrirmyndarfólkinu.

Sjá einnig hér: Rivers carry plastic debris into the sea


Skautað yfir stöðuna

Hvað sem segja má um loftslagsmálin svona almennt þá mjakast hlutirnir hægt og rólega í vissa átt með ýmsum bakslögum inn á milli. Hér ætla ég skauta yfir stöðuna á þeim þáttum sem helst koma við sögu þegar loftslagsbreytingar og heimsveðurfar ber á góma. Fyrst er það sem allt snýst um.

CO2 desember 2017

Koltvísýringur (CO2) í andrúmslofti heldur áfram að aukast jafnt og þétt með hverju ári, en samkvæmt tölum frá desember 2017 var magnið komið upp í 407 ppm (parts per million). Þótt hlutfall koltvísýrings sé raunar afar lítið í lofthjúpnum þá hefur það sín áhrif. Heilmikill stígandi er í þessu og ekki hægt að kenna öðru um en umsvifum mannsins á okkar tímum enda magnið komið langt yfir það sem mest hefur verið síðustu 400 þúsund ár að minnsta kosti, samkvæmt vef NASA þaðan sem myndin er fengin. https://climate.nasa.gov/vital-signs/carbon-dioxide/

UAH línurit 1979-2017Meðalhiti jarðar árið 2017, samkvæmt gervitunglamælingum UAH, var sá þriðji hæsti sem mælst hefur. Hlýjasta árið samkvæmt þeirri gagnaröð var árið 2016 og í samræmi við það eru síðustu tvö ár, hlýjasta tveggja ára syrpa sem mælst hefur. Árið 1998 heldur sinni stöðu sem annað hlýjasta árið. Þessi tveir hitatoppar sem eru svona áberandi á línuritinu eru afleiðingar El Nino á Kyrrahafinu en ólíkt því sem gerðist eftir 1998 þá hefur meðalhiti jarðar haldist nokkuð hár síðan. Hér má benda á að samkvæmt mælingum annarra aðila þá er hlýnun undanfarinna ára heldur meiri en hér kemur fram og má því segja að ég hafi vaðið fyrir neðan mig með því að velja gagnaröð UHA sem ættuð er frá "efasemdamönnunum" í Alabamaháskóla í Bandaríkjunum. http://www.drroyspencer.com/latest-global-temperatures/

Sjávarhiti janúar 2018
Sjávarhiti er breytilegur eftir svæðum eins og venjulega. Blái liturinn á Kyrrahafinu er til marks um kalt La Nina ástand sem nú ríkir en það ætti tímabundið að halda aftur að hitanum hnattrænt séð. Hér á okkar slóðum er Norður-Atlantshafið nokkuð hlýtt og hann er að mestu horfinn kuldapollurinn sem gerði vart við sig fyrir 2-3 árum. Kannski mun svæðið þó eitthvað blána á ný vegna kuldaútrásar frá Norður-Ameríku núna í vetur. https://www.esrl.noaa.gov/psd/map/clim/sst.shtml

Sjávaryfirborð

Sjávarhæð heimshafanna stígur nokkuð jafnt og þétt um nokkra millimetra á ári vegna hitaþenslu hafsins og viðbótarvatns vegna jökulbráðnunar. Þótt það sé ekki mikið þá eru 3,2 mm ári = 32 cm á einni öld. En þetta er breytilegt á milli ára en óttast er að hraði hækkunarinnar geti aukist með tímanum sérstaklega ef jöklar og íshellur við Suðurskautslandið fara að steypast í sjóinn í auknum mæli. Mest hækkar sjávarborð annars á hlýjum El Nino árum en svo hækkar það lítið sem ekkert á meðan kalda systirin La Nina gengur yfir eins og núna. https://climate.nasa.gov/vital-signs/sea-level/

Hafíslinurit NSIDC Jan 2018
Hafísinn á Norðurslóðum er með minnsta móti miðað við árstíma og hefur útbreiðslan raunar ekki áður mælst minni í upphafi árs en einmitt núna. Helsti keppinauturinn er árið í fyrra, 2017, sem átti lægstu vetrarútbreiðsluna til þessa. Síðustu vetur hafa verið mjög hlýir á norðurslóðum enda hefur verið nokkuð mikið um endaskipti á heitu og köldu lofti á norðurhveli. Hinsvegar hafa sumarhitar ekki alveg náð að fylgja vetrarhlýindunum eftir sem sjálfsagt hefur bjargað einhverju fyrir ísinn. https://nsidc.org/arcticseaicenews/sea-ice-tools/

Hafís heimurinn jan 2018
Útbreiðsla íssins á báðum hvelum samanlagt er við það minnsta sem mælst hefur og keppir lágmarkið nú við árið 2016. Hafísinn á Suðurhveli minnkaði ekki lengst af á sama hátt og á Norðurhveli enda aðstæður aðrar. Þetta hefur breyst undanfarið þannig að hafísútbreiðsla á hnattvísu er nú við það minnsta frá upphafi mælinga. Hnattræn útbreiðsla hafíss var einstaklega lítil árið 2016 og hefur verið lítil síðan. Fróðlegt verður að sjá hvort heimsmeti í hafísleysi frá því 2016 verði ógnað nú í vetur. https://sites.google.com/site/arctischepinguin/home/global-sea-ice

Sólasveiflur

Sólvirkni er oft mæld með fjölda sólbletta en fjöldi þeirra sveiflast á um 11 ára fresti þannig að þeir hverfa svo til alveg í sólvirknilágmarki. Sólin er einmitt að ganga inn á slíkt lágmark um þessar mundir. Sólarsveiflan sem nú er að klárast var vægari en sú fyrri sem aftur var vægari en þær tvær sem komu þar á undan. Sólarsveiflurnar hafa þannig orðið vægari undanfarna áratugi eftir mikla virkni á seinni hluta síðustu aldar. Líklegt þykir að næsta sólarsveifla verði veik eða jafnvel mjög veik og er það grundvöllur ýmissa spádóma um að loftslag gæti farið kólnað næstu áratugi. Þessar kólnunarspár eru umdeildar því þótt sjálf sólblettasveiflan sé mikil er sveiflan í heildarsólvirkni ekki nema um 0,1%. Einnig hefur verið bent á að þrátt fyrir minnkandi sólvirkni síðustu áratugi þá hefur hnattrænn hiti aukist á sama tíma. Almennt er þó talið að áhrif sólvirkni séu einhver á loftslag og veðurlag. https://www.spaceweatherlive.com/en/solar-activity/solar-cycle

- - - -
Þannig er staðan á þessum málum svona nokkurn veginn. Framhaldið þekkjum við ekki almennilega nema að við getum fastlega gert ráð fyrir því að koltvísýringur í lofti muni halda áfram að aukast. Árið 2018 verður væntanlega hlýtt á heimsvísu eins og öll ár þessarar aldar en þó getum við útilokað að það verði hlýjasta árið hingað til vegna La Nina ástands á Kyrrahafi. Hvað gerist lengra inn í framtíðinni kemur svo bara í ljós. Langtímahlýnun er í fullum gangi en á skjön við hana koma stundum fram spádómar um að hnattræn kólnun sé alveg á næsta leiti. Slíkar spár hefur maður að vísu heyrt og lesið um á síðustu 20 árum eða svo. Annars má nefna hér í lokin að kveikjan og grunnurinn að þessum pistli er athugasemd sem ég gerði við bloggfærslu sem lögmaður einn skrifaði hér á svæðinu fyrir nokkrum dögum um loftslagsmálin en sú athugasemd hefur reyndar ekki birst af einhverjum ástæðum.


Hitamósaík 1981-2017 fyrir Reykjavík

Samkvæmt venju þá er fyrsta bloggfærsla ársins tengd veðrinu. Að þessu sinni er það mósaíkmynd sem sýnir hvernig hitinn hefur þróast í Reykjavík frá mánuði til mánaðar aftur til ársins 1981 og í hvað sæti hver mánuður er í hitaröðinni. Fyrirmyndin að uppsetningu er mynd sem ég sá á vefnum og birti fyrir stuttu, en hún sýndi hitaþróun á norðurslóðum síðustu áratugi. Sjálfur hef ég reyndar gert svipaðar mósaíkmyndir, eins og ég kalla þær, og því fannst mér tilvalið að eyða nokkrum góðum frístundum í eina slíka fyrir Reykjavík.

Það fer ekki á milli mála að það hefur hlýnað talsvert í þessu tímabili. Að einhverju leyti er þar um að ræða almenna hnattræna hlýnun en ekki skiptir minna máli að hér er um að ræða þróun frá köldu tímabili yfir í hlýtt  tímabil. Fyrir sjálfan mig er þetta líka tímabil sem ég man ágætlega veðurfarslega, en þó misvel eins og gefur að skilja. Láta má nærri að sú hlýnun sem þarna hefur átt sér stað sé um 1,4 stig sem er ekki lítið, en meðalhitinn á 1981-1990 var um 4,1 stig en hefur verið um 5,5 stig á þessari öld. Þróunin til hlýnunar er þó ekki samfelld enda hafa alltaf komið mánuðir eða tímabil sem hafa verið á skjön við sinn samtíma. Vonandi skýrir uppsetningin sig sjálf en til að hjálpa til þá er árið 2017 lóðrétt lengst til hægri og svo raðast mánuðirnir niður með janúar í efstu línu. Tölurnar í töflunni vísa í hvaða sæti hver mánuður er hitafarslega frá 1981. Undir myndinni kemur smá greinargerð.Hitamósaík 1981-2017
Smá greinargerð: Í samræmi við hlýnun tímabilsins þá koma hærri tölur og bláir litir oftar fyrir á vinstri helmingi myndarinnar og munar þar mest um árin 1981 og 1983 þegar ársmeðalhitinn var aðeins 3,4 stig. Kaldasti mánuðurinn á myndinni er þó janúar 1984 (-4,0°) þegar mikið vetrarríki var í gangi. Það má líka minnast á október 1981 (0,5°C) sem er langkaldasti október á tímabilinu og sá kaldasti sem mælst hefur í borginni. Ég man reyndar lítið eftir honum sjálfur, nýbyrjaður í menntaskóla og með hugann við annað. Öllu betur man ég eftir hinu alræmda sumri 1983 sem þarna kemur vel fram, og ekki laust við að það kalda sumar hafi kveikt í mér hinn þráláta veðuráhuga.
En svo gerðist hið óvænta í ársbyrjun 1987 þegar allt í einu kom mjög hlýr vetrarmánuður en janúar það ár var hlýjasti janúar sem ég hafði upplifað (3,1°C) og hefur sá mánuður reyndar ekki orðið hlýrri hér síðan. Ekki nóg með það því desember sama ár var einnig einstaklega hlýr (4,2°) og þurfti að fara aftur til kreppuáranna til að finna hlýrri desember. Eitthvað var kannski farið að breytast, en þó var enn eitthvað í það og við tók fimbulkaldur janúar 1988 (-3,0°C) sem voru mikil viðbrigði milli mánaða. Árið 1989 var síðan lengst af mjög kalt en síðustu þrír mánuðirnir björguðu því frá botninum.
Aftur lyftist brúnin á borgarbúum í júlí-hitabylgjunni 1991 en hlýrri júlí (13°C) hafði þá ekki mælst í borginni frá upphafi. Næstu tvö sumur voru hinsvegar köld hér í Reykjavík þannig að þetta var ekki búið. Veturinn 1994-95 er frægur fyrir mikil snjóþyngsli á norðanverðu landinu en árið 1995 er síðasta kalda árið hér á landi og var meðalhitinn í Reykjavík þá 3,8 stig. Svo fór þetta að koma, nema að lokaandvarpið var eftir, því nóvember 1996 var sá kaldast í Reykjavík (-1,9°C) síðan einhverntíma 19 öld.
Strax upp úr miðju ári 2001 hófst núverandi hlýindaskeið sem síðan hefur verið nokkuð samfellt. Raunar hlýnaði svo skart að á 12 mánaða tímabilinu frá nóv.2002-okt.2003 var meðalhitinn 6,6 stig sem er alveg einstakt og hefur ekki náð þvílíkum hæðum síðan. Á nokkrum árum komu svo þarna hlýindakaflar sem eyðilögðu hverja skíðavertíðina af annarri og sjást hlýindin á myndinni sem knippi af dökkrauðum síðvetrarmánuðum árin 2003-2006. Einnig má minnast á desember 2002 sem var hlýrri en nokkurn tíma hefur mælst (4,5°C). Sumarmánuðirnir fóru líka mjög svo hlýnandi. Hlýjasti ágúst sem mælst hefur var árið 2003 (12,8°C) og árið eftir kom ágústhitabylgjan eftirminnilega, sem sló mörg met víða um land. Eftir nokkurra ára tíðindaleysi með áframhaldandi hlýindum kom sumarið 2010 en þá var röðin komin að júní að setja nýtt meðalhitamet (11,4°C) og í kjölfarið fylgdi júlí, sem jafnaði merkismánuðinn júlí 1991 að meðalhita (13,0°). Fleiri hlýir mánuðir áttu eftir koma allt fram á síðastliðið ár, en þó má segja að sveiflur í hitafari hafi aukist. Maímánuður árið 2015 var ansi kaldur en 2015 má annars flokkast sem meðalhlýtt ár (4,5°C) en hefði þótt bara nokkuð gott fyrir 30-40 árum. Árin þar á undan og á eftir 2014 og 2016, voru hinsvegar með þeim allra hlýjustu (6,0°). Meðalhiti nýliðins árs var mjög í samræmi við önnur ár á þessari öld (5,5°C). Síðustu tveir mánuðirnir voru þó í kaldara lagi og missti árið þar með af ákveðnum möguleikum.

Hvert framhaldið verður veit auðvitað enginn, en í ljósi þeirra hitasveiflna sem áður hafa átt sér stað hlýtur alltaf að vera möguleiki á bakslagi eftir svona hlýtt tímabil. Ef það bakslag er nýbyrjað þá munum við ekki vita af því fyrir en eftir einhver ár þegar við horfum á nútímann úr fjarlægð. En svo gætu hlýindin líka bara rétt verið að byrja.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband