Karamella á þúsundkall

Verðbólgan er vissulega ekki að sliga okkur þessa dagana. En það hefur ekki alltaf verið þannig. Ég man að eitt sinn á mínum ungdómsárum á áttunda áratugnum vorum við strákarnir að velta fyrir okkur verðlagi á nauðsynjavörum í verðbólginni framtíð. Spurt var: Gæti verið að ein karamella ætti eftir að kosta þúsund krónur í framtíðinni? Okkur fannst það fráleit tilhugsun og eiginlega bara fyndið. Á þessum tíma minnir mig að ein lítil karamella hafi kostað eina krónu og þá á ég við þessar venjulegu Töggur frá Nóa. Lítill brjóstsykur kostaði sennilega líka eina krónu en þeir stærri af Haltukjafti-gerð kostuðu tvær krónur. En gamla krónan hélt svo sannarlega ekki verðgildi sínu í óðaverðbólgu áranna á eftir. Hún breyttist í létta flotkrónu. Henni var myntbreitt hundraðfalt sem ýtti undir enn meiri verðbólgu. Síðar var nýkrónan sett á flott og sökk enn dýpra. Hvað ætli ein lítil karamella kosti þá í dag um 40 árum síðar? Jú, þær kosta um 20-30 krónur stykkið samkvæmt innanheimilisheimildum. Þá á eftir að bæta við tveimur núllum vegna myntbreytingar sem gera tvö til þrjú þúsund krónur gamlar, takk fyrir. Þetta sýnir auðvitað hvað allt krónugildi er afstætt þegar kemur að framtíðinni. Hvað fæst þá fyrir þúsund krónur eftir 40 ár? Skyldi karamellan þá kosta þúsundkall? Hver veit? Verður hún kannski verðlögð í Evrum, Dollurum eða Norskum krónum?

Ég fór nú eiginlega að spá í þetta um daginn þegar EFTA-dómurinn féll um verðtryggðu lánin. Samkvæmt honum er það með öllu óviðeigandi að gera ekki ráð fyrir verðbótum ofan á vexti þegar greiðsluáætlun fram í tímann er gefin út. Svindl og prettir lánastofnanna kom í huga margra þegar um var rætt. En er endilega rétt í ljósi karamelluhagfræðinnar að það eigi alltaf að gera ráð fyrir verðbótum í greiðsluáætlunum? Það þarf kannski ekki að vera. Þegar til dæmis verðbætur 40 ára láns eru reiknaðar inn í áætlanir og eftirstöðvar skoðaðar eins og þær verða eftir 20 ár kemur sennilega fram að upphæðin hefur hækkað í krónum talið þrátt fyrir þrotlausar síhækkandi afborganir. Svo gæti því virst sem lánið gerði ekki annað en að hækka að raungildi um langa framtíð þegar raunin er sú að lánið lækkar. Þó maður skuldi sífellt fleiri krónur er ekki þar með sagt að maður skuldi fleiri karamellur.

Sjálfum finnst mér verðtygging í raun ekkert óeðlileg því hún tryggir að afborganir og eftirstöðvar séu í samræmi við almenna verðlagsþróun. Það mætti hinsvegar frekar herja á sjálfa vextina enda eru raunvextir um 5% æði mikið á 40 ára láni. En það sem máli skiptir í öllu svona er að þeir sem taka lán, stutt eða löng, geri sér grein fyrir því í hverju það felst til framtíðar og að sá sem tekur lán og sá sem veitir lán séu á sömu blaðsíðu.


Bloggfærslur 29. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband