Hvaða ís er landið okkar kennt við?

Ísland 2.feb.2009

Nafnið Ísland er auðvitað langsvalasta landsheitið af öllum landaheitum, það er engin spurning og ekki virðist nafnið fæla útlendinga frá því að heimsækja „klakann“ eins og við köllum landið stundum. Hvað nafnið Ísland þýðir í raun og veru er hinsvegar sígilt álitamál enda hefur orðið ís æði margar skírskotanir til ýmissa átta. Ég veit svo sem ekki sjálfur sannleikann um tilurð heitisins Ísland en velti hér upp nokkrum möguleikum. Aðallega þó þremur sem hljóta að vera líklegastir.

1. Ísaland. Að landið sé kennt við vatn í frosnu formi er alltaf nærtækasta skólabókaskýringin enda er það beinlínis sagt í Landnámu að Hrafna-Flóki hafi gefið landinu nafnið Ísland þegar hann gekk á fjall og sá fullan fjörð af ís. Landnám Hrafna-Flóka mislukkaðist sem kunnugt er og hefur hann sjálfsagt talið þetta kuldalega nafn vera vel við hæfi. Hrafni-Flóki hafði komið sér fyrir við norðanverðan Breiðafjörð og af hæsta fjallinu þar fyrir ofan á hann að hafa séð þennan meinta ís. Reyndar þarf nú að ganga töluverðan spotta frá Breiðafirði til að mögulegt sé að sjá ís. Hann gæti þó hafa séð niður til Ísafjarðar ofan einhverri heiðinni eða kannski horft yfir Húnaflóa. Breiðafjörðurinn fyllist hins vegar ekki af ís nema í einstakri kuldatíð að hann hreinlega frjósi. En hvernig er það, átti ekki að vera svo hlýtt hér á landi á landnámsöld? Jöklarnir voru einnig ekki nema svipur hjá sjón og varla sjáanlegir á vestaverðu landinu þar sem Hrafna-Flóki hélt til. En hvað um það? Ísland er opinberlega kennt við ísinn og vissulega er hér snjór og klaki á veturna og stórir jöklar á fjöllum. Stöku sinnum fáum við líka hafísinn - sem kallaður hefur verið landsins forni fjandi. Og þá að næstu skýringu.

2. Ásaland. Hér er það hin guðdómlega skýring að landið sé kennt við hina fornu Ása sem Ásatrúin er kennd við. Ásarnir eða Æsirnir munu vera upprunnir lengst í austri samanber það sem Snorri skrifar í Heimskringlu:

Fyrir austan Tanakvísl í Ásíá var kallað Ásaland eða Ásaheimur, en höfuðborgin, er var í landinu, kölluðu þeir Ásgarð. En í borginni var höfðingi sá er Óðinn var kallaðr. Þar var blótstaðr mikill.

Tanakvísl eða Vanakvísl þessi, segir Snorri að renni í Svartahaf, svo menn átti sig á staðsetningunni en í dag nefnist fljótið Don. Sjálf heimsálfan Asía er samkvæmt þessu einnig kennd við Ásana og jafnvel einnig gjörvöll höfuðáttin "austur". Vestrið hét hinsvegar Európá sem Snorri segir að sumir kalli Eneá. Þessi útúrdúr gæti skipt máli því Herúlakenningin svokallaða gerir ráð fyrir því að við Íslendingar séum einhverskonar afkomendur norrænns þjóðflokks sem átti ríki eða þvældist um í austri allt frá fyrstu öldum og voru miklir og grimmir bardagamenn. Að lokum skiluðu þeir sér heim á fornar norrænar slóðir en voru þá svo óforskammaðir að vilja ekki lúta konungi að þeir höfðu sig á brott og stofnuðu goðaveldið Ásaland hér á enda veraldar.
Annars er ýmislegt tengt trúarbrögðum sem kennt við Ís-eitthvað. Ís-rael er auðvitað hið Guðs útvalda ríki á meðan erkióvinurinn játar ís-lam. Lengra aftur í sögunni var Ísis einn af guðum Egypta og kannski forfaðir allra Ís-ara heimsins. Guðsonurinn Jesú, bróðir okkar besti, er kannski einn af afkomendunum en það má sjálfsagt finna einhverja leið í tungumálafræðunum til að láta  orðið is- umbreytast í jes-. Ísland gæti því alveg staðið undir nafni sem land vors guðs og allra hinna líka.

3. Eyland. Við búum vissulega á eyju sem lengst af á fyrri tíð var afskaplega fjarri öllu gamni. Á ensku er eyja rituð sem island og samkvæmt því gæti Ísland verið eyja allra eyjanna og Íslendingar hinir einu sönnu eyjamenn. Ef við höldum áfram með enskuna þá má líka nefna orðið isolation eða einangrun en is-ið þar er væntanlega það sama og í is-land þannig að þetta is hlýtur að vera eitthvað sem er stakt, eitt og sér. Stakland gæti því verið sama merking og Ísland eða bara Landið eina.

Við getum líka brugðið fyrir okkur þýskunni í þessu samhengi og talað um Ausland sem merkir útland. Hvort það tengist meira lið 2 eða 3 veit ég ekki alveg en gæti tengst báðum. Samkvæmt eyja- og einangrunarkenningunni værum við hinir einu sönnu útlendingar eða útlagar. Í dönsku Andrésblöðunum heitir hið óræða fjarlæga land Langtibortistan sem er kannski sú mynd sem menn höfðu af Íslandi. Nafnið Langtibortistan vísar þó frekar í Asíulöndin sem áður tilheyrðu Sovétinu. Þá erum við reyndar ekki fjarri fornum ásaslóðum norður af Svartahafi þar sem íþróttamenn skauta nú á ísnum af miklu listfengi í sönnum Ólympíuanda.

- - - -

Meðfylgjandi gervitunglamynd er frá 2. febrúar 2009.


Bloggfærslur 15. febrúar 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband