Köld sjálfvirk veðurspá og bloggfrí Hungurdiska

kuldaspá 14. mars 2014

Það er óhætt að segja að miklar frosthörkur séu í kortunum eftir helgi á sjálfvirkri staðarspá sem birtist á vef Veðurstofunnar. Samkvæmt því verður kuldakastið í hámarki kl 06:00 á þriðjudagsmorgun þegar spáð er 9 stiga frosti í Reykjavík, 14 á Akureyri og svo mikið sem 16 stiga frosti að Árnesi á Suðurlandi og 18 í Ásbyrgi. Það er reyndar ekkert nýtt að þessar sjálfvirku spár sýni frosthörkur með meira móti við vissar aðstæður og Veðurstofufólk er sjálfsagt meðvitað um það enda er tekið fram að textaspáin (skrifuð af veðurfræðingi) gildir ef munur er á textaspá og sjálfvirkum spám. Og hvað segir textaspáin um kuldann eftir helgi? Ekki mjög mikið: Á mánudag: Frost 0 til 10 stig að deginum, kaldast í innsveitum. Á þriðjudag: Áfram kalt í veðri. Sem sagt, það má búast við kulda og frosti en ekki endilega ógurlegum frosthörkum nema kannski í innsveitum. Best er auðvitað að kortin sýni ekki eitthvað sem er alveg út úr korti. Sjáum þó til. Kannski verður bara ansi kalt. Veturinn er ekki liðinn þótt 6 stiga hiti sé í Reykjavík þegar þetta er skrifað.

Annað atriði þessu óskylt en þó ekki alveg, er bloggfrí Hungurdiska Trausta veðurfræðings sem boðað hefur frí um óákveðinn tíma vegna áreitis í athugasemdum eins og hann kallar það. Fyrir okkur veðurnördana og alla þá fjölmörgu áhugamenn um veður er þetta hið versta mál eins glögglega kemur fram í fjölmörgum viðbrögðum. Hann hefði t.d. getað frætt okkur nánar um þessa kulda og hvort eitthvað sé til í þeim og hvers vegna.

Ég hef öðru hvoru blandað mér umræður á Hungurdiskum og vona að ég sé ekki sekur um mikið áreiti. Mín vegna mætti alveg loka á athugasemdir á Hungurdiskum enda snúast þær oftar en ekki um eitthvað allt annað en bloggfærslan gerir. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að í athugasemdum frá ónefndum aðila (og aðilum) koma fram sterkar og að mínu mati mjög ósanngjarnar ásakanir um að síðan reki einhverskonar áróður/trúboð fyrir því að það sé að hlýna á Íslandi og heiminum reyndar líka. Í það minnsta hefur Trausti á ósanngjarnan hátt sífellt verið sakaður um að neita að horfast í augu við að það sé að kólna á Íslandi eða heiminum eins og sumir eru gallharðir á. Þetta áreiti er að mínu mati helsta ástæða og uppspretta leiðindanna í athugasemdakerfi Hungurdiska og gera ekkert annað en að eyðileggja stemninguna sem annars ætti að ríkja þar. Þessum ásökunum er oftar en ekki reynt að svara þótt Trausti sé löngu hættur því sjálfur. Það kallar svo á enn meiri leiðindi, uppnefni og ásakanir á báða bóga og fjandinn verður laus. Kannski væri því best að sleppa öllum athugasemdum þegar og ef Hungurdiskar hrökkva aftur í gang eftir pásu. Eftirspurnin er allavega fyrir hendi og vil líka gjarna halda áfram að lesa það sem þar er á boðstólnum - athugasemdalaust.

(Ætlaði upphaflega að skrifa þetta í athugasemdakerfi Hungurdiska en fannst svo bara eins gott að gera það hér á minni eigin síðu).

- - - -

Uppfærsla. Kuldakastið sem var í spákortinu gekk bara nokkuð vel eftir. Þriðjudaginn 18. mars kl. 06:00 var þetta þannig: Reykjavík -8,0° / Árnes -11,6° / Akureyri -11,2° / Ásbyrgi -16,1°. Á láglendi fór frostið mest niður í -23,6 á Mývatni. Þetta var stutt og snarpt kuldakast og líklega mesta kuldaskot sem komið hefur á landinu það sem af er ári. Um næstu helgi má eiga von á öðru skoti því sjálfvirka spáin segir núna -13° í Reykjavík kl. 06:00 sunnudagsmorguninn 23. mars. Er hugsanlega að kólna á Íslandi?


Bloggfærslur 15. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband