Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Nú komið að þeim árlega lið að bera saman snjóalög í Esjunni milli ára með myndum sem allar eru teknar fyrstu vikuna í apríl frá bensínstöðinni Klöpp við Sæbraut. Fyrsta myndin var tekin árið 2006 og með myndinni í ár eru þær orðnar níu talsins. Með hverri mynd læt ég fylgja hvenær Esjan varð alveg snjólaus frá Reykjavík séð. Það voru nokkrir skaflar sem ekki náðu að bráðna í fyrra eftir sumarið ómögulega en annars hefur Esjan náð að verða snjólaus öll sumur frá síðustu aldamótum, nema kannski árið 2011 þegar örlítill skafl varð sennilega eftir í Gunnlaugsskarði. Minnstur var snjórinn árið 2010 og hvarf hann allur það ár um miðjan júlí, sem er mjög snemmt. Spurning hvað verður upp á teningnum í ár. Talsverður snjór var í Esjunni nú í vetrarlok en með hlýindum undanfarna daga hefur mikið gengið á snjóinn. Það er þó heilmikið eftir og meira en verið hefur á sama tíma flest hin fyrri ár sem hér eru til viðmiðunar. Sambærileg snjóalög virðast hafa verið vorið 2008 en þá hvarf snjórinn upp úr miðjum september. Hvað gerist í ár ræðst svo að því hvernig sumarið verður og hvort eitthvað að ráði muni snjóa í efri hlíðar fram eftir vori. Þetta verður allavega tæpt í ár og ræðst sennilega ekki fyrr en alveg undir haust.

 

Esja 3. apríl 2014

Esja 3. apríl 2013

Esja april 2012

Esja april 2011

Esja april 2010

Esja april 2009

Esja april 2008

Esja april 2007

Esja april 2006

 

- - - - -
Í lokin er gráupplagt að minna á myndaseríuna mína Reykjavík alla daga ársins þar sem sjá má Esjuna 365 daga ársins 2011 eins og hún birtist frá Öskjuhlíðinni: http://www.365reykjavik.is


Bloggfærslur 5. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband