Mánaðar- og árshiti í Reykjavík. Staðan í hálfleik.

Meðalhitinn fyrir júní í Reykjavík er kominn í hús og eins og fram hefur komið var þetta með allra hlýjustu júnímánuðum hér í bæ og sumstaðar á landinu sá hlýjasti frá upphafi. Veðurgæði að öðru leyti voru hins vegar ekki í sama gæðaflokki og fara þarf aftur í árdaga veðurskráninga í Reykjavík til að finna meiri úrkomu í júní.

En þá að súluritinu sem nú birtist með nýjustu tölum innanborðs en því er meðal annars ætlað að sýna hvert gæti stefnt með árshitann í Reykjavík. Bláu súlurnar á myndinni sýna meðalhita hvers mánaðar samkvæmt núverandi opinbera meðaltali 1961-1990 sem vill svo til að er frekar kalt tímabil. Rauðu súlurnar sem rísa hærra er mánaðarmeðalhiti síðustu 10 ára, sem er öllu hlýrra tímabil. Fjólubláu súlurnar standa svo fyrir þá sex mánuði sem liðnir eru af núverandi ári, 2014. Hægra megin við strik eru 5 súlur sem sýna ársmeðalhita. Bláa súlan þar er kalda meðaltalið 1961-1990 (4,3°) og sú rauða er meðalhiti síðustu 10 ára (5,4°). Allra lengst til hægri er græn súla sem stendur fyrir meðalhitann í fyrra, 2013 (4,9°) sem var kaldasta árið í Reykjavík, það litla sem af er öldinni.

Meðalhiti Rvik 6 2014
Spennan liggur í því hvert stefnir með þetta ár og þar koma tónuðu súlurnar tvær við sögu. Sú bláfjólubláa segir til um árshitann ef mánuðirnir sem eftir eru verða akkúrat í „kalda meðaltalinu“ en sú rauðfjólubláa sýnir hver árshitinn verður ef restin verður jöfn meðalhita síðustu 10 ára. Samkvæmt mínum útreikningum er staðan eftir fyrri hálfleik ársins þá þannig að sé framhaldið reiknað út frá kalda meðaltalinu stefnir árshitinn í Reykjavík í 5,3°C sem telst bara nokkuð gott. Sé framhaldið hinsvegar reiknað út frá síðustu 10 árum stefnir árshitinn í 5,8°C og árið komið í flokk með hlýjustu árum. Til að halda aftur af væntingum þá sleppi ég að reikna út hvað gerist ef mánaðarmeðaltölin halda áfram í sömu hæðum en það má geta þess að hlýjasta árið í Reykjavík er 2003, með 6,1°C í meðalhita. Júlí virðist reyndar ætla að byrja með einhverju bakslagi en svo verður framhaldið bara að koma í ljós.

Fyrstu sex mánuðir þessa árs hafa allir verið yfir meðalhita síðustu 10 ára. Ekki munar miklu í febrúar og mars, en eftir það hefur meðalhitinn verið vel yfir meðallagi. Meðalhitinn í júní að þessu sinni var 11,2°C sem 0,9 stigum ofan við meðalhita síðustu 10 ára. Mest munaði um hversu hlýtt var fyrri hluta mánaðar og varð því fljótlega ljóst að mánuðurinn myndi keppa við við þá allra hlýjustu. Hann náði þó ekki metinu en ögn hlýrra var árið 2003 og tveimur ögnum hlýrra (11,4°C) árið 2010 og er júní það ár því handhafi titilsins: Hlýjasti júní í Reykjavík.

Veðureinkunn júnímánaðar. Að venju þá hef ég gefið liðnum mánuði veðureinkunn eftir mínu prívatkerfi sem byggist á fjórum veðurþáttum: Sól, úrkomu, hita og vindi. Þessi sólarlitli, úrkomusami og hægviðrasami hlýindamánuður fékk samkvæmt því algera miðlungseinkunn: 4,7 stig, sem þó er bæting frá júní í fyrra, 2013, sem fékk 4,4 stig. Árið þar áður, 2012, fengum við hinsvegar besta júnímánuðurinn á þessum skala með algera toppeinkunn 5,9. Nokkuð er hinsvegar liðið síðan sá allra versti kom en það var júní 1988 með aðeins 3,5 stig. Það var miklu verri mánuður en sá nýliðni eins og þeir vita sem muna.

 


Bloggfærslur 2. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband