Snjórúllur á þaki

Snjórúllur

Út um gluggann í vinnunni í dag í Brautarholtinu mátti sjá þessar myndarlegu snjórúllur á þaki Þjóðskjalasafnsins, en fyrirbærið hefur líka verið kallað vindsnúnir snjóboltar. Þetta mun vera frekar sjaldgæft fyrirbæri sem myndast einungis við mjög ákveðnar aðstæður. Vindurinn er náttúrulega drifkrafturinn í þessu en svo þarf snjórinn og hitinn að vera við einhverjar kjöraðstæður. Dálítill halli í landslagi hjálpar einnig til við myndunina og sama gildir þá um létt hallandi húsþök. Hver snjórúlla myndast líklega mjög hratt í snöggri vindhviðu. Allavega miðað við það sem ég var eitt sinn vitni að.

Á Veðurstofuvefnum er annars ágætur fróðleiksmoli um þetta fyrirbæri. Þar kemur meðal annars fram að fyrirbærið hafi verið kallað Skotta og þótt ills viti veðurfarslega og hafi boðað frekari stórviðri. Sjá hér: Vindur býr til snjóbolta

Allur gangur hlýtur að vera á því hvort eitthvað sé að marka þjóðtrúr en kannski er veturinn rétt að byrja. Köldu norðanáttinni fylgir þó gjarnan bjartviðri hér syðra eins og á þessum degi. Á nýreistum glerhýsum borgarinnar speglast svo vetrarsólin úr óvæntum áttum. Og enn er verið að byggja og enn rísa ný hótel.

Vetrasól 29. jan. 2015

 


Bloggfærslur 29. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband