Sjónvarpsveðurkort frá 1991

Fyrir nokkru eignaðist ég gamalt veðurkort af þeirri gerð sem notuð voru í veðurfréttum sjónvarps á meðan gamli snúningskassinn var enn við lýði. Hvernig á því stóð að ég komst yfir þetta kort látum við liggja á milli hluta en það gæti allt eins tengst einhverjum samböndum við undirheimana. Eins og sést á myndinni er þetta yfirlitskort sem sýnir stöðu hæða og lægða hér við Norður-Atlantshaf og gildir um hádegi þann 11. desember 1991. Ekki kemur þó fram hvort um sé að ræða spákort eða hvort þetta hafi verið staðan þennan dag.

Snjónvarpsveðurkort 11 desember 1991
Eins og tíðkaðist í þá daga eru öll veðurkerfin handteiknuð og greinilegt að vanur maður – eða kona, hefur haldið á pennum. Þrýstilínur eru dregnar upp með svörtum línum, hitaskil með þykkum rauðum strikum, kuldaskil með bláum og regnsvæði skástrikuð með grænum lit. Önnur veðurtákn ásamt hitatölum eru límd á kortið og eins og gengur á þessum árstíma er mikið um að vera í veðrinu. Kalt er í Vesturheimi og lægð á Grænlandshafi sendir á undan sér hefðbundið skilakerfi með rigningu og nær hlýi geiri lægðarinnar hingað upp til okkar. Mjög stutt er þó á milli hita- og kuldaskilanna þannig að hlákan hefur ekki varað lengi. Allt stefnir svo í klassískan vetrarútsynning með éljagangi þegar skilin hafa komið sér yfir landið, væntanlega síðar um daginn. Suður af Nýfundnalandi er síðan ný lægðarbylgja, 998 millíbör, að myndast. Í Evrópu er hinsvegar mikið hæðarsvæði ríkjandi og fylgir henni greinilega kuldi í hægviðrinu. Í París og London er hitinn ekki nema við frostmark og fjögurra stiga frost er í Skotlandi, sem er allsendis ólíkt því sem verið hefur nú undanfarið. Hlýrra er hinsvegar í Norður-Noregi, sem nýtur hlýja suðlæga loftsins sem hæðin dælir í norður.

Þannig voru þau nú þessi gömlu góðu veðurkort sem maður ólst upp með. Þau voru skýr og greinileg, sérstaklega eftir að liturinn kom til sögunnar. Að vísu gögnuðust þau betur þeim sem höfðu lágmarksþekkingu á veðurfræðunum en annars mátti ganga út frá því sem vísu að veðrið væri verra eftir því sem strikin voru fleiri. Krassandi lægðir voru því stundum á vissan hátt réttnefni.

Á þessum tíma var ég byrjaður að skrá veðrið og þennan dag, miðvikudaginn 11. desember 1991, skrái ég einmitt sem eindreginn rigningardag með sterkum vindi af suðri og þriggja stiga hita. Líklegt er að hitinn hafi þó farið hærra á meðan hlýjasta loftið fór yfir. Dagurinn fékk ekki nema 1 stig í einkunnakerfinu sem einmitt gefur lítið fyrir svona slagveðursrigningar. Annars var það helst að frétta fyrir utan veðrið að Dagsbrúnarmenn fóru í verkfall þennan dag og þýddi þá ekkert fyrir menn að fá sér bensín á bílana sína enda tíðkaðist ekki þá að menn dældu sjálfir. Þarna voru líka síðustu dagar Sovétríkjanna sem enn voru til að nafninu til. Gorbatschov var auðvitað ekki sérlega kátur með þá þróun mála á meðan Jeltsín styrkti stöðu sína sem forseti Rússlands. Þannig er það nú. Það er alltaf einhverjar hæðir og lægðir í pólitíkinni rétt eins og í veðrinu.


Bloggfærslur 19. desember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband