Í hvað stefnir Reykjavíkurhitinn 2015?

Í fyrra tók ég upp á því að birta súlurit sem sýndi hvernig meðalhiti mánaðana í Reykjavík þróaðist yfir árið eftir því sem á það leið. Til viðmiðunar voru meðalhitar síðustu 10 ára og kalda opinbera meðaltalið 1961-1990 sem enn er í gildi. Þetta reyndist nokkuð áhugavert því árið þróaðist í að verða annað hlýjasta árið í Reykjavík og átti möguleika þar til í lokin að slá út metárið 2003 (6,1°C).
Nú þegar 5 mánuðir eru liðnir af árinu er staðan hinsvegar heldur betur önnur. Fjórir af þessum fimm fyrstu mánuðum hafa verið kaldari en kalda meðaltalið og ekki munaði miklu í mars sem rétt náði að slefa yfir það. Allir mánuðir ársins hafa að sama skapi verið nokkuð fyrir neðan meðalhita síðustu 10 ára og munar mestu nú í maí sem var 2,4 stigum kaldari, eins og sjá má á súluritinu.

Meðalhiti Rvik 5 2015
Súluritið sýnir ekki einungis hvernig mánaðarhitinn þróast því lengst til hægri eru nokkrar súlur yfir árshita. Þar vek ég athygli á fjólubláu tónuðuðu súlunum sem segja til um hvert stefnir með árshitann eftir því hvort framhaldið er reiknað út frá kalda meðaltalinu eða meðalhita síðustu 10 ára. Tölurnar sem út úr því koma eru 4,2°C og 4,8°C samkvæmt mínum útreikningum. Lægri talan (4,2) er merkileg því það þýddi að árið 2015 yrði langkaldasta árið það sem af er öldinni og það kaldasta síðan 1995 þegar hitinn var 3,8 stig. Ef hitinn hinsvegar nær sér á strik á ný og fylgir 10 ára meðaltalinu þá endar árið í 4,8 stigum sem er öllu skaplegra en þó það kaldasta síðan árið 2000 er hitinn var 4,5 stig.

Við vitum náttúrulega lítið um framhaldið. Ef kuldatíð ríkir áfram út árið er alveg mögulegt að árshitinn í Reykjavík nái ekki 4 stigum. Það er heldur ekki útséð með 5 stigin ef veðurkerfin stilla sér betur upp fyrir okkur - ekki skortir á hlýindin í heiminum um þessar mundir. Það má þó alveg afskrifa að árið 2015 ógni hlýindárinu 2014 sem sýnt er þarna með grænni súlu allra lengst til hægri.

Allt er þetta hið merkilegasta mál og ekki óeðlilegt að menn velti fyrir sér hvort hlýindatímabilinu mikla sem hófst með þessari öld sé lokið eða hvort þetta sé bara tímabundið bakslag sem jafnar sig á ný. Hlýindakaflinn undanfarin 14 ár hefur verið einstakur og hreint ekkert óeðlilegt að fá einhverja kólnun. Þetta er hinsvegar nokkuð brött kólnun og það strax eftir mjög hlýtt ár. Kuldamet eru þó varla í sjónmáli. Nema ef vera skyldi kólnunarmet á milli ára því mér sýnist að ef meðalhitinn 2015 í Reykjavík endaði undir 4,5 stigum þá yrði það mesta kólnun sem um ræðir á milli ára ef horft er á tímabilið eftir aldamótin 1900. Við erum þó kannski ekkert sérstaklega að óska eftir slíku meti.


Bloggfærslur 1. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband