Kólnandi sjór í víðara samhengi

Kólnun sjávarins hér í Norður Atlantshafinu er hið merkilegasta mál enda eru þetta mikil umskipti frá því hlýsjávarástandi sem ríkt hefur umhverfis landið í allnokkur ár. Það á eftir að koma í ljós hvort þetta sé tímabundið ástand eða langvarandi kæling og byrjun á kuldaskeiði á okkar slóðum í stíl við kalda tímabilið á seinni hluta 20. aldar. Ýmislegt hefur verið sett fram sem ástæður þessarar kólnunar. Talað hefur verið um veikingu Golfstraumsins, bræðsluvatn frá Grænlandi eða óhjákvæmilega náttúrulega sveiflu. Þótt eitthvað gæti verið til í þannig vangaveltum til lengri tíma, þá er sennilegasta skýringin á þessum atburði, nokkuð eindregið ríkjandi veðurástand undanfarinn vetur (eða jafnvel tvo vetur) sem nær yfir stóran hluta Norðurhvels allt frá Kyrrahafi til Atlantshafs. Þetta lýsir sér í myndinni hér að neðan sem ég föndraði sjálfur, en kortið í grunninum er af vefsíðunni Climate Reanalyser og sýnir hitafrávik sjávar nú um stundir.

Norðurhvel sveiflur

Aðallatriðin í þessari veðurmynd eru leikin af stóru pílunum rauðu og bláu sem túlka ríkjandi legu skotvindana sem stjórnað hafa veðrinu með allskonar afleiðingum. Fyrst ber að nefna hæðina yfir vesturströnd Bandaríkjanna sem valdið hefur óvenjumiklum þurrkum í Kaliforníu. Eins og vera ber þá er ríkjandi sunnanátt vestur af hæðinni sem hitað hefur yfirborð Kyrrahafsins þarna við ströndina allt norður til Alaska. Í Alaska var óvenju hlýtt í vetur og nú í vor með tilheyrandi skógareldum. Þetta hafði einnig áhrif allt til Norður-Íshafsins en þar brotnaði ísinn óvenju snemma upp meðfram strandlengunni við Beauforthaf.

Kuldahlið alls þessa er síðan norðanloftið sem streymdi niður eftir Kanada og til norðausturríkja Bandaríkjanna og olli þar miklum hríðarveðrum og kuldum í vetur. Þótti mörgum þar alveg nóg um. Þetta kalda vetrarloft streymdi svo beint út á Atlantshafið og átti sinn þá í öllum þeim stormlægðum sem hrelltu okkur í vetur. Atlantshafið náði að draga úr mesta kuldanum áður en loftið náði til okkar hér á Íslandi en til mótvægis þá náði kalda vetrarloftið einnig að kæla yfirborð hafsins á stóru svæði sem smám saman hefur breitt úr sér allt til Evrópu.

Þannig má segja að ekki sé ein báran stök í veðurlaginu enda eru veðurkerfin samtengd þar sem eitt hefur áhrif á annað. Ómögulegt er líka að segja hver sé sökudólgurinn að þessu öllu saman eða hvort það sé eitthvað eitt frekar en annað. Kannski má líkja veðurlagi heimskringlunnar við hundinn sem eltist stöðugt við skottið á sér. Þó hefur verið talað um að stóru veðurkerfin hafi verið að læsast meira en áður í eitthvað ríkjandi ástand, mánuðum eða misserum saman og aukið þar með á allskonar öfgar. Einnig hefur verið rætt að vestanvindabeltið á Norðurhveli hafi full mikið verið að hægja ferðina og þá með stærri bylgjuhreyfingum til norður og suðurs, eins og hér hefur verið lýst. Svona svipað og fljót sem liðast um láglendissvæði. Ástæðan fyrir þeirri hægingu sé þá hlýnandi norðurslóðir sem þýðir minni hitamunur milli norður- og suðursvæða. Hugsanlega er það tilfellið - en kannski ekki.

- - -

Smá ítarefni:

Falling Snow Records, http://eapsweb.mit.edu/news/2015/falling-snow-records

Jet Stream Steers Atlantic Currents, http://www.livescience.com/50998-jet-stream-controls-atlantic-climate-cycles.html

Alaska’s climate hell: Record heat, wildfires and melting glaciers signal a scary new normal


Bloggfærslur 20. júní 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband