Reykjavíkurhiti í kubbamynd

Árið 2015 hefur nú fengið sinn sess í kubbamyndinni sem ég gerði á sínum tíma og hef uppfært síðan. Nú liggur fyrir að meðalhiti liðins árs í Reykjavík var 4,5 stig en þó munaði eiginlega hárbreidd að 4,6 stig næðust. Það er vissulega nokkuð undir meðalhita síðustu 10 ára og kaldasta ár aldarinnar það litla sem liðið er af henni. Hinsvegar er þetta 0,2 stigum yfir 30 ára viðmiðunartímabilinu frá 1961-1990 sem var jú reyndar kalt tímabil.

Árshiti 2901-2015
Á kubbamyndinni sést að talan 4,5 hefur tekið forystuna sem algengasti meðalhitinn í Reykjavík frá upphafi 20. aldar og er þar í félagsskap með árum sem ýmist tilheyra köldum og hlýjum tímabilum. Árið 2015 er því bara hvert annað miðlungsár hvað hita varðar. 52 ár eru hlýrri og 53 ár eru kaldari samkvæmt eins aukastafs nákvæmni. Væntanlega hefði það gert aðeins betur með tvegga aukastafa nákvæmni - sem sennilega væri þó meiri nákvæmni en óvissa milli tímabila býður upp á. Kannski má þó segja að árið hafi verið í slöku meðallagi í ljósi vaxandi hlýinda svona almennt.

Það er nú orðið klassískt að velta fyrir sér hvort farið sé að kólna hér hjá okkur. Það má vel vera og í raun ekki ólíkleg í ljósi þess hversu hlýtt hefur verið frá aldamótum. Árabilið 2001-2014 var einstaklega hlýtt hér, jafnvel þótt hlýnun jarðar sé tekin með í myndina. Það að við fáum ár sem er næstum heilli gráðu kaldara en meðalhiti síðustu 14 ára en þó ekki kaldara en 4,5°C, sýnir í raun hversu hlýtt hefur verið frá aldamótum. Og eins og ég sagði síðast þegar ég birti svona kubbamynd, fyrir þremur árum, þá er alls ekki hægt að stóla á að þessi áratugur verði hlýrri en sá síðasti enda stefnir ekkert sérstaklega í það nú þegar hann er hálfnaður.

En svo er bara spurning með 2016. Kemur loksins almennilega kalt ár? Ef "loksins" skyldi kalla.


Bloggfærslur 9. janúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband